Þá er sumarið á enda og við tekur hversdagslífið, rútínan, vinna eða skóli. Eftir gott sumarfríið getur verið erfitt að koma sér aftur í gang. Hérna eru nokkur góð ráð til þess að einfalda okkur aðeins breytinguna og koma okkur í gegnum daginn.

 

Morgunstund
Hefurðu lent í því að sofa aðeins yfir þig og hreinlega hlaupa út um hurðina um morguninn? Mannstu hversu erfiður dagurinn var? Að hafa tíma fyrir sjálfan sig eða með fjölskyldunni áður en dagurinn byrjar getur haft mikil áhrif á það hvernig dagurinn okkar verður. Það er því gott að nota morguninn vel, borða morgunmat og setjast aðeins niður í rólegheitum fyrir hamstur dagsins.

Taktu smá af fríinu með í vinnuna
Þá erum við ekki endilega að tala um myndir til þess að setja á skrifborðið heldur einnig venjur sem þú kannski tókst upp á meðan á fríinu stóð. Uppgötvaðirðu eitthvað nýtt sem þú naust þess að gera, eins og að fara á listasöfn eða lastu fleiri bækur? Finndu leið til þess að halda þessum venjum áfram. 

Prófaðu eitthvað nýtt
Skráðu þig á spennandi námskeið eða lærðu nýtt tungumál. Prófaðirðu kannski nýjan mat sem þér fannst góður í fríinu, finndu uppskrift og eldaðu hann sjálf/ur heima fyrir. Ein hugmynd er að setja sér það markmið að prófa eitthvað nýtt í hverjum mánuði. 

Hreyfðu þig
Við erum ekki að tala um að þú farir alla daga og brennir öllu fríinu, nei við erum að tala um að núna er kominn tími á að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og ert tilbúin/n til þess að halda þig við. Þú getur jafnvel prófað nýjan ræktartíma sem þér hefur langað að prófa lengi ef þú vilt slá tvær flugur í einu höggi. Það að fara út í göngutúr, fá ferskt loft og hreinsa hugann eða fara í göngu með góðum vini og spjalla er líka góð hugmynd.

Borðaðu næringarríkan mat
Já þessi klisja kemur hérna inn en við vitum öll hversu mikilvægt er að borða vel, ekki borða minna eða byrja í rosalegu átaki heldur borða nóg og borða mat sem gefur okkur næringu. Fáðu þér morgunmat og hafðu hnetur í veskinu fyrir þá tíma sem þú finnur að þér vantar orku. 

Drekktu vatn
Mikilvægara en við gerum okkur grein fyrir en einnig erfiðara en við héldum. Sniðugt ráð er að merkja brúsann með tíma og markmiðið er að vera búin að drekka niður að línunni fyrir þann tíma sem stendur á brúsanum. Einnig mælum við með því að bragðbæta vatnið á einfaldan og náttúrulegan hátt með ávöxtum eins og appelsínum, sítrónum, jarðaberjum, ananas og myntu. Gerir vatnsdrykkjuna mikið skemmtilegri og þú getur undirbúið þig fyrirfram. 

Planaðu næsta frí
Það er góður vani að eiga fyrir ferðalaginu svo það gæti verið sniðugt að byrja fljótt að safna fyrir því næsta eða plana skemmtilega ferð innanlands. Farðu kósí helgi í bústað eða að hitta fjölskyldumeðlimi annars staðar á landinu. 

Skipuleggðu þig
Það getur munað miklu að hafa hlutina vel skipulagða, settu verkefni og skiladaga í símann eða ef þú ert eins og við og vilt skrifa hlutina niður, finndu þér þá flotta dagbók sem er gaman að hafa meðferðis. 

Jákvætt hugarfar
Hresstu þig við og farðu jákvæð/ur í vinnuna. Það getur hjálpað að fara af stað með rétt hugarfar, gott ráð er að skrifa niður þá hluti sem gera þig hamingjusama og hafa miðann á góðum stað. Þannig geturðu minnt sjálfa/n þig á þá þegar þú þarft á því að halda. 

Vertu góð/ur við sjálfan þig
Það tekur tíma að koma sér aftur í gang eftir fríið, gefðu þér tíma. Ekki pirra þig á því að nenna ekki í ræktina strax eftir fyrsta vinnudaginn eða að þú sért þreytt/ur – farðu í stuttan göngutúr og snemma að sofa til þess að vakna fersk og tilbúin/n í næsta dag.

 

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.