Vefverslunin Minilist.is opnaði í febrúar á þessu ári, verslunin selur fallegar vörur fyrir barnið. Gunnhildur Emilsdóttir stendur á bakvið vefverslunina með miklum stuðningi frá manninum sínum. Ég hafði samband við hana Gunnhildi og fékk að heyra meira um þessa flottu vefverslun.

Gunnhildur segir hugmyndina af vefversluninni hafa kviknað eftir að hún átti son sinn í byrjun árs 2017. “Ég er með mjög einfaldan stíl og klæði hann alltaf í eins að ofan og neðan, þá er ég að tala um t.d. blá samfellu og bláar buxur. Ég var fljótt farin að hugsa hvar ég myndi versla fötin á hann þegar hann væri kominn í stærð 92 og yfir en mér fannst ekki auðvelt að finna svoleiðis samsetningu í stærri stærðum.

Ég var mikið vafrandi á Instagram og lenti inn á síðu sem heitir HAVEN KIDS og ég varð strax heilluð. Ég prufaði að panta hjá þeim nokkrar flíkur og það var ekki aftur snúið, ég var komin með alla línuna mánuði seinna.” Segir Gunnhildur og heldur áfram.

“Það hafði blundað í mér í dágóðan tíma að mig langaði að eiga mína eigin netverslun og þarna sá ég tækifærið. Ég varð gjörsamlega ástfangin af þessu merki og hugsaði að það væri annað hvort núna eða aldrei. Ég prufaði að senda þeim hjá HAVEN KIDS e-mail en fékk ekkert svar. Það var ekki fyrr en hálfu ári seinna, þegar ég var búin að gefa upp alla von þegar ég fékk loksins svar frá þeim og þau sögðust vera tilbúin í samstarf með mér. Þá fór þetta að rúlla.”

Minilist vinnur aðallega með tveimur fatamerkjum, HAVEN KIDS sem eru föt gerð úr bambus og eru þar af leiðandi ótrúlega mjúk og þægileg. Quincy Mae eru svo föt úr lífrænum bómul en bæði þessi merki gera gæðavörur í minimalískum stíl – en þaðan kemur einmitt hugmyndin af nafninu Minilist. “Við leggjum mikið upp úr því að vörurnar okkar séu miklar gæðavörur. Þessi merki falla einnig vel inn í stefnu fyrirtækisins sem er einfaldleiki. Við hjá minilist elskum einfaldleika og stílhreinar vörur.” Segir Gunnhildur og heldur áfram. “Talandi um einfaldleika þá erum við einnig með Doona ungbarnabílstólinn sem er eini ungbarnabílstóllinn í heiminum á hjólum. Hann einfaldar foreldrum lífið og þá aðallega mæðrum á þeytingi í orlofinu. Þú þarf aldrei að halda á eða burðast með ungbarnabílstólinn þú einfaldlega ýtir á einn takka og hjólin koma undan bílstólnum. Eina skiptið sem þú þarft að halda á stólnum er í og úr bílnum og þú einfaldlega smellir honum í base. Svo erum við með ýmsar aðrar gjafavörur eins og handgerða lampa og snaga frá Danmörku, handgerðar brúður frá Spáni og handgerðar heklaðar kanínur.”

Gunnildur segir að sitt uppáhalds merki sé HAVEN KIDS þar sem þetta ævintýri byrjaði með þeim en hún vandi valið vel svo allar vörurnar sem eru á vefversluninni séu í vissu uppáhaldi. En hvaða vörur eru vinsælastar núna?

“Það er mjög erfitt að segja, ég myndi segja HAVEN KIDS fyrir eldri krakkana og Quincy Mae fyrir yngri. Svo náttúrulega ungbarnabílstóllinn okkar, hann er uppseldur hjá okkur eins og er en það er von á honum aftur um miðjan júlí. Svo eru hekluðu kanínurnar okkar mjög vinsælar.” Segir Gunnhildur.

Gunnhildur hefur unnið alla vinnu sem kemur að vefversluninni sjálf og segir það ekki auðvelt að byrja. “Ég hef gert þetta allt sjálf og unnið í þessu aðallega á kvöldin þegar krakkarnir eru sofnaðir. Það er ekki auðvelt að byrja og maður verður að vera þolinmóður. Þetta gerist ekki allt á einum degi. Eftir að síðan fór í loftið þá höfum við fengið mjög góðar viðtökur, eiginlega betri en ég þorði að vona og vonandi heldur þetta bara áfram á sömu braut.” Segir Gunnhildur, en hvaða ráð myndi hún gefa einhverjum sem er að byrja núna?

“Ekki sitja á hugmyndinni, framkvæmdu hana og þú sérð ekki eftir því. Í versta falli þá bara gengur þetta ekki.”

Langtíma draumur Gunnhildar er að opna verslun. “Ég held samt sem áður að vefverslunin sé komin til að vera og að við munum alltaf halda okkar striki þar. Kúnnarnir okkar eru alltaf velkomnir til okkar ef þeir vilja skoða vörurnar eitthvað nánar, þannig getum við veitt extra góða þjónustu. Með því að hafa einungis vefverslun þá getum við boðið upp á vörur á sanngjörnu verði og við leggjum mikla áherslu á það. Svo erum við alltaf að vinna í því að stækka og koma með meira vöruúrval. En við tökum ekki inn hvað sem er, vörurnar okkar eru mjög vel valdar og viljum fylgja okkar stefnu – sem er Einfaldleikinn.”

Ég mæli með að kíkja á þessa fallegu vefverslun og gera flott kaup! Einnig er hægt að fylgjast með þeim á Facebook og Instagram.

www.minilist.is

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.