Nú þegar páskarnir eru í hápunkti er ekki úr vegi að hugsa út í hvernig við getum dekkað upp fínt páskaborð þegar stórfjölskyldan kemur í mat. Margir detta í gulan dúk, páskaunga og fjaðrir sem er stórfínt út af fyrir sig – en það má útfæra borðið á svo ótal vegu.

Það var haft samband við mig á dögunum frá sjónvarpsstöðinni Hringbraut, þar sem ég var beðin um að dekka upp tvö mismunandi páskaborð. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um, því að skreyta fallegt borð er eitt það skemmtilegasta sem ég geri.

Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá versluninni Epal að „riðjast inn“ og fá afnot af öllum þeim fallegu vörum sem þeir bjóða upp á og mig langar að sýna ykkur útkomuna.

Ég ákvað að gera eitt borð í ljósum pastel-tónum sem á betur við í páskabrönsinum – þar var hugmyndin að hlutirnir séu afslappaðir. Hér má sjá hvernig hægt er að raða saman diskum og skálum og jafnvel skreyta þær ýmist með blómum og greni. Ég keypti bleikar fjaðrir í A4 sem ég setti ofan í riffluð glös frá FERM Living en þessi glös eru í miklu uppáhaldi.

Tauservíetturnar fékk ég lánaðar hjá Fakó Verzlun og matarstellið er Iittala. Hér nota ég einnig kertastjaka í mismunandi hæðum og gerðum til að skapa meiri dýpt á borðinu. Litlu páskaeggin geymdi ég í gogginum frá Önnu Þórunni og páskaliljurnar setti ég í mold ofan í stóra Kubus skál frá By Lassen.

Á borði númer tvö var hugmyndin kvöldverðarborð, í páskaanda með dass af glamúr. Á þessu fallega hringborði frá HAY (sem svo heppilega var nýbúið að setja saman er ég mætti á svæðið), ákvað ég að hafa dekkri litatóna í leirtauinu ásamt gylltum hnífapörum einnig frá HAY.

Glösin eru öll frá Iittala og gylltu diskarnir eru í raun undirskálar á blómapottum – því það er allt leyfilegt þegar kemur að því að raða saman, svo lengi sem heildarúkoman lúkki vel. Flest okkar eigum nefnilega til meira en okkur grunar inn í skápum og skúffum sem má vel draga fram í verkefni sem þetta.

Á borðinu eru litlar pavlovur sem ég bakaði og gerði litlar holur í fyrir miðju, sem ég fyllti upp í með páskalakkrís frá Johan Bülow. Hugmyndin var að pavlovurnar væru lítil hreiður með eggjum í.

Ég held líka áfram með tauservíetturnar á þessu borði þar sem mér þykir þær vera sparilegri en venjulegar pappírsservíettur. Á einni myndinni má sjá lítinn páskahéra úr einni servíettunni, þar sem eggið er höfuðið sjálft. Það má vel teikna andlit á eggið eða mála það í fallegum lit ef maður kýs það.

Fyrir miðju borðsins stillti ég hinni glæstu Échasse skál á fæti frá MENU, þar sem ég plantaði páskablómum í – og kom ótrúlega vel út. Og til að toppa útkomuna, stillti ég Kjarval-stólum við borðið – því það gerir maður þegar maður er með aðgang að öllum þessum gersemum. Gleðilega páska öll sömul!

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.