Andrea Eyland er 38 ára kjarnakona sem á litríkan feril að baki alls fimm meðgöngur og alls kyns fjölbreytt störf, bókina Kviknar og nú síðast sjónvarpsþættina Líf kviknar.

Mynd: Þorleifur Kamban

Við fáum að heyra söguna hennar Andreu sem byjar á að lýsa sjálfri sér.

„Ég er hvatvís, þjósk, bjartsýn og óhrædd femínisk kona, kærasta, mamma og dóttir. Ég kem hvergi frá enda flutt ansi oft í gegnum árin frá unga aldri. Tengi mig frekar við fólk en staði þó Danmörk eigi alltaf stóran hluta hjarta míns.“ Í dag býr Andrea ásamt fjölskyldunni sinni í Laugardalnum með ört stækkandi fjölskyldu sem mun telja tíu manns í júní.

Andrea hefur lokið B.A. prófi og meistaraprófi ásamt því að hafa lagt fyrir sig söng og jógakennaranám. Eftir alls fimm meðgöngur, að hafa starfað sem verkefnastýra og flugfreyja hefur hún aldrei viljað, eða getað, fest sig í einhverju einu starfi.“ Undanfarin ár hefur þó áherslan verið á getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu bæði persónulega og vegna bókarinnar Kviknar og þáttanna Líf Kviknar“ segir hún og hlær. Ljóst er að Andrea hefur haft ýmislegt fyrir stafni í gegnum tíðina. „Já ég hef brallað ótrúlega margt um ævina og stundum þarf ég að kíkja á ferilskrána mína til að muna hvað það er.“

KVIKNAR
Það hefur verið virkilega spennandi og fróðlegt að fylgjast með verkefninu „Kviknar“ en við spjölluðum einmitt við Andreu þegar bókin hennar kom út fyrir um einu og hálfu ári síðan. Þá voru sjónvarpsþættir næst á dagskrá en við höfum aldeilis fengið að sjá það verkefni líta dagsins ljós og afraksturinn eru hreint magnaðir þættir, Líf kviknar, sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans síðasta haust. Við fengum Andreu til að rifja upp ferlið, sem hófst með bókaskrifum.

Mynd: Þorleifur Kamban

„Við fáum öll góðar hugmyndir alla daga en það sem gerir þær að raunveruleika er fólkið sem æðir í framkvæmdir með bjartsýni að leiðarljósi. Ég efaðist í mörg ár um mína hugmynd og átti alltaf von á að einhver önnur myndi gefa út svona bók á undan mér. Ég trúði ekki nógu vel á sjálfa mig. Samt vann ég alltaf í bókinni, safnaði fleiri sögum, lagaði texta, skrifaði og Aldís Páls vann hægt og rólega í myndunum samhliða. Þegar ég sá að  efnið var virkilega orðið nóg í heila bók öðlaðist ég trú á að bókin Kviknar myndi raunverulega verða til. Um leið fór ég að ímynda mér bókina í sjónvarpi en viðbrögð annarra við því voru oftast jájá kláraðu bókina fyrst. Það var svo þegar söfnun á Karolinafund tókst sem ég sá fram úr þessu en samt tókum við ekki lokaskrefin að útgáfu. Það var í fyrstu vikunni í kossaflensi með kærastanum fyrir rúmum þremur árum sem rætt var hvers vegna verkefnið kláraðist ekki. Ástæðan var uppsetning á bókinni, það vantaði hinn fullkomna hönnuð til að taka að sér að hanna útlit og setja hana upp. Kærastinn minn tók verkið að sér og ári seinna ákváðum við að gefa bókina út sjálf. Þarna unnum við saman í fyrsta sinn og gátum ekki hætt svo við fórum bara á fullt í vinnslu á að láta bókina Kviknar öðlast líf í sjónvarpi. Ég kynnti hugmyndina fyrir RÚV en þeir vildu ekki veðja á mig, kannski sem betur fer því Sagafilm og Síminn eru fagmenn fram í fingurgóma og gerðu allt til að ég fengi að hafa þættina eins og ég sá þá fyrir mér.“

Mynd: Þorleifur Kamban

Andrea eignaðist sitt fjórða barn, Björgvin Yl Eykam í maí og voru mæðginin mætt í tökur strax í júní, eitthvað sem hún myndi þó seint mæla með fyrir aðra. En allt gekk þetta þó upp og gott betur því þátturinn fékk nýverið Edduverðlaun fyrir Mannlífsþátt ársins. „Við erum ennþá í skýjunum með þetta allt og erum hvergi nærri hætt og erum að vinna handrit að Líf kviknar aftur. Svo er stefnan sett á heimsmarkað, efnið er eitthvað sem á við okkur öll, sama hvaðan við erum eða hvar við erum.“

En hefur það áhrif að vera kona í bransanum?
„Ég hef upplifað mikla trú á mér sem konu í þessum bransa sjónvarpsins en reynslan er auðvitað mjög takmörkuð. Það hafa margar kjarnakonur rutt brautina fyrir nýgræðinga eins og mig og ég trúi því að ef við vöðum áfram og neitum að láta stoppa okkur eða taka nei fyrir svar þá komumst við enn lengra. Það er að sýna sig, konur gefast ekkert upp á hvor annarri eða sjálfum sér, það er til svo mikils að vinna fyrir framtíðarstúlkurnar okkar.“ En hvaða ráð skildi Andrea vilja beina til þeirra ?

„Allt er þetta spurning um viðhorf. Ætlar þú þér það sem þig langar til eða ertu bara að pæla ? Taktu ákvörðun, það er fyrsta skrefið, sjáðu fyrir þér nákvæmlega alla sigrana og segðu þá upphátt eftir að þú skrifar þá niður á blað. Ekki láta neitt stoppa þig. Stundum breytast aðstæður, álit annarra hefur áhrif á þig eða lífið fer í allskonar annað, ekki bugast, ekki gefast upp, haltu áfram og þrjóskastu við. Ef hjarta þitt er með þér í þessu þá mun þér takast hvað sem er. Og já ekki gleyma að anda á milli og líta aðeins inn á við og elska, aldrei gleyma að elska og vera elskuð.“

Mynd: Þorleifur Kamban

Aðspurð að því hvað sé framundan er ljóst að margt er í bígerð.
„Við Þorleifur erum að verða foreldrar, aftur, en Eykam yngri kemur í lok júni. Við vorum að koma heim frá Maui á Hawaii þar sem við létum einn margra drauma okkar rætast og kláruðum yogakennaranám. Við erum klárlega að fara að nýta okkur það í framtíðarplönum ásamt ferðalögum með börnunum, sjónvarpsþátta og vefsíðugerð sem og minni og enn stærri verkefna sem bíða þess að verða framkvæmd. Eitt af þeim er m.a ljósmyndaverkefni sem heitir mæður & meira og fjallar um einmitt það og hvernig við konur förum að því að vera mæður.

Veistu, tíminn til þess að gera það sem okkur langar til er núna, því eina sem er, er núna.“

Ekki amaleg lokaorð það frá hinni kraftmiklu Andreu sem við óskum alls hins besta á lokametrunum á meðgöngunni og hlökkum til að fylgjast með ævintýrum hennar í framtíðinni.

Kviknar.is 

Facebook/kviknar

Instagram/kviknar

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.