Fanney er 28 ára eigandi vefverslunarinnar Ylur.is sem selur vandaðar og tímalausar flíkur fyrir börn og fullorðna. Hún sækir sinn innblástur til ömmu sinnar og nöfnu Fanneyjar Jónsdóttir. Hún heillaðist snemma af hugtakinu slow fashion og hefur unnið eftir því. Í slow fashion er áhersla lögð á gæði fram yfir magn, mannsæmandi laun og vinnuaðstöðu og einnig á umhverfisþætti eins og að minnka kolefnaspor og lágmarka úrgang.

 

LÆRÐI AÐ HEKLA OG PRJÓNA Á YOUTUBE
Fanney er fædd og uppalin á Selfossi en býr í vesturbænum í dag með dóttur sinni Rán sem verður sex ára í sumar. Hún lauk BA gráðu í félagsráðgjöf árið 2013 og er að klára MA gráðu í menningarfræði í vor. Í haust stefnir hún á að taka kennsluréttindi.

Við fáum að heyra meira um ferlið og hugmyndina á bakvið Yl. „Rán fæðist árið 2013, en ég lærði að prjóna eftir að hún fæddist, ég hafði lært að prjóna í handavinnu í skólanum og hjá ömmu minni en hafði hvorki áhuga né þolinmæði í að klára eitthvað. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tísku og lærði að sníða og sauma í framhaldsskóla sem mér fannst mjög skemmtilegt.“ Fanney upplifði ákveðinn skort á framboði á fallegum og tímalausum ullarfatnaði fyrir börn á þessum tíma sem var ein ástæða þess að hún byrjaði að prjóna sjálf á dóttur sína. „Ég lærði bæði að prjóna og hekla á youtube. Ég gerði tilraunir til að prjóna eftir uppskriftum en ég hef alla tíð haft mjög sterkar skoðanir á öllum sköpuðum hlut svo ég fór bara að hanna mínar eigin uppskriftir.“ Því næst setti hún myndir á Facebook og Instagram og þá fór boltinn að rúlla og fyrirspurnum um flíkurnar tók að rigna inn. Nokkrum mánuðum síðar fóru verslanir að hafa samband en um það leyti hætti hún að anna eftirspurn. „Þá fékk mér handvirka prjónavél og Arnar, barnsfaðir minn, fór að prjóna á vélina og ég saumaði saman, prjónaði hálsmál og hnappagatalista, festi tölur og sá um annan frágang.“ Þau styðjast við það fyrirkomulag en þann dag í dag.

„Árið 2016 fórum við á CIFF kids í Kaupmannahöfn og þar kynntumst við mikið af hæfileikaríku fólki og seldum í fyrstu erlendu verslanirnar. Í febrúar 2017 fórum við á Playtime Paris þar sem enn fleiri verslanir pöntuðu inn vörur frá okkur.“ Aðspurð hvaðan pantanirnar eru helst að koma segir nefnir hún Evrópu og Bandaríkin en þessar pantanir koma í gegnum vefsíðuna Ylur.is


Mynd: Emilía Kristin

GÆÐI UMFRAM MAGN
Fanney telur miklu máli skipta þegar kemur að hönnun á flíkunum er að framleiða flíkur sem eru úr vönduðu efni. „Það er mín helsta áhersla þegar kemur að hönnuninni að efnið sé vandað en mest hef ég unnið með alpaca, merino ull og núna nýlega hef ég verið að nota íslensku ullina.“ Einnig telur Fanney mikilvægt að litirnir séu bæði mildir og fallegir og endist vel en hún er á móti kynjuðum barnafatnaði og telur að allur barnafatnaður eigi að vera fyrir öll börn. Barnaflíkurnar endast mjög lengi og hver stærð hjá Yl spannar tvær til þrjár hefðbundnar stærðir. „Ullarfatnaður hefur þann eiginleika að teygjast vel og svo hef ég unnið með mynstur sem dragast bæði fallega saman og í sundur. Ég heillaðist snemma af hugtakinu slow fashion og hef unnið eftir því. Í slow fashion er áhersla lögð á gæði fram yfir magn, mannsæmandi laun og vinnuaðstöðu og einnig á umhverfisþætti eins og að minnka kolefnaspor og lágmarka úrgang. Í slow fashion er ekki lögð áhersla á að elta allar helstu tískusveiflur þar sem þær ganga hratt yfir heldur eru flíkurnar tímalausar og er ætlað að ganga á milli kynslóða. Við framleiðum allar okkur vörur sjálf og reynum eftir fremsta magni að versla hráefnin milliliðalaust – alpaca ullina kaupum við t.d. beint frá Perú. Við höfum unnið með mörgu ungu og hæfileikaríku fólki – við hönnun vörumerkis, við uppsetningu á vefsíðu, vefsíðu, prentun á merkimiðum, ljósmyndara, grafískum hönnuðum, vörumerkjahönnuði og fleiri. Við erum mjög heppin að þekkja mikið af sniðugu og skapandi fólki og mér finnst mjög sjarmerandi og skemmtilegt þegar hönnuðir og listamenn vinna saman og koma hvort öðru á framfæri. Ég vinn mikið ein og mér finnst geggjað að vinna með fólki sem er í skapandi starfi, þó það sé að gera eitthvað allt annað en ég þá fæ ég mikinn innblástur frá því.“


Mynd: Emilía Kristin

ALGJÖRLEGA DRAUMASTARFIÐ
„Mér líður of eins og svikara (imposter) bæði í náminu mínu og starfi. Eins og allt sem ég hef áorkað megi skrifa á heppni og að einhverntímann muni komast upp um mig. Að ég sé í raun og veru algjörlega hæfileikalaus. Mér finnst ég alltaf vera að heyra þetta, frá þvílíkt hæfileikaríku fólki sem er að gera það gott á sínu sviði. Ég veit ekki hvort þetta sé þekktara hjá konum en körlum en ég heyri þetta að minnsta kosti frá mjög mörgum vinkonum mínum. Eftir að ég fór að taka eftir þessu fór ég að reyna að hunsa þessa tilfinningu. Ég held að það sé mikilvægt að tala um þetta svo að þeir sem eru að upplifa þessa tilfinngu viti að hún sé algeng.”

Til að byrja með var Fanney mjög viðkvæm og hrædd við gangrýni. „Ég man þegar ég sá einhverntímann eftirlíkingu af peysu sem ég hafði hannað þá brotnaði ég niður og grét og vildi bara hætta þessu öllu saman.” Í dag lítur hún á svona hluti sem áskorun og hvata til að halda áfram að gera eitthvað nýtt. „Mér finnst að allir sem hafa góða hugmynd og hafa áhuga og ástríðu fyrir henni eigi að hrinda henni í framkvæmd. Í versta falli gengur það ekki upp og þá var það allavega bara reynsla. Á þessum fimm árum sem ég hef unnið með Yl hef ég gengið í gegnum mörg ólík tímabil, stundum hef ég verið mjög mótiveruð og stundum hef ég verið hálf leið á þessu og unnið minna en það líður yfirleitt ekki á löngu að mér finnst eitthvað vanta í líf mitt og ég byrja aftur af fullum krafti. Þetta er algjörlega draumastarfið mitt og vona að ég geti unnið við þetta eins lengi og ég vil. Mig langar líka að nýta menntun mína og væri til í að vinna við bókaútgáfu eða við þáttagerð og svo á ég gamlan draum um að gefa út skáldsögu.“

Það verður því án efa spennandi að fylgjast með því sem Fanney mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni og við getum ekki annað en mælt með þessum fallegu vörum sem hún hannar, prjónar og selur á vefsíðunni Ylur.is

Vefsíða/Ylur.is
Instagram/Ylur.is

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.