Risotto er einn af mínum uppáhalds réttum og ég geri það oft á mínu heimili. Það tekur eilítinn tíma að útbúa risotto og það þarf að standa yfir pottunum og hræra í svona 30-40 mínútur. Það er samt tvímælalaust þess virði og útkoman er dásamlega ljúffeng. Ég mæli með að hafa góðan félagsskap og jafnvel eitt hvítvínsglas við hönd.

IMG_3484

Uppskrift fyrir 3-4
3 dl arborio hrísgrjón
9-10 dl grænmetissoð (vatn og grænmetisteningur)
1 dl hvítvín
Smjör
3-4 skarlottulaukar
1-2 hvítlauksrif
Salt og pipar
100 g spínat (½ poki)
250 g sveppir
2 dl parmesan ostur
Steinselja

Skerið sveppi í þunnar og smáar sneiðar. Steikið sveppina upp úr smjöri og bætið svo spínatinu við. Saltið og piprið og takið til hliðar.

Hellið vatni í pott og hitið. Bætið grænmetisteningi út í og hrærið saman við. Haldið grænmetissoðinu heitu á vægum hita.

Skerið skarlottulaukinn smátt og steikið á pönnu upp úr ca. 2 msk af smjöri. Pressið hvítlaukinn út í og hellið arborio grjónunum saman við og hrærið. Þegar grjónin eru orðin smá glær á endunum hellið þá hvítvíninu út í og hrærið saman við. Þau eru fljót að drekka í sig hvítvínið.

Hellið því næst 1-2 dl af grænmetissoði út í og hrærið. Þegar grjónin eru búin að drekka í sig soðið þá hellið þið aftur 1-2 dl af soði út í og hrærið. Gerið þetta koll af kolli þangað til að soðið er búið og grjónin tilbúin. Þau eiga að vera mjúk og rjómakennd. Ég mæli með að smakka á þeim og ef að þau eru ennþá seig bætið þá meira vatni við.

Saltið og piprið eftir smekk. Dreifið svo rifnum parmesan osti, steinselju, sveppunum og spínatinu saman út í og hrærið. Gott að bera fram með volgu hvítlauksbrauði.

 

Hildur Rut Ingimarsdóttir
Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.

Author: Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.