Ákveðin trend eiga það til að hlaupa í hringi, sama hvort það varði hús og heimili eða fatatísku. Það var í kringum 1970 sem við fórum að þurrka blómvendi og áratug seinna voru hangandi rósabúnt á öðru hverju heimili – oftar en ekki brúðarvendir. Þurrkuð blóm eru eitt það heitasta í dag og við fylgjum að sjálfsögðu með.

Algengar plöntur sem verða enn fallegri þegar þær þorna eru t.d. eucalyptus, protea og pampas grass. Hér fyrir neðan má svo fá hugmyndir af uppstillingum með þurrkuðum blómum og greinum. Um að gera að prófa sig áfram og leyfa hugmyndafluginu að ráða för.

Prófaðu að setja blóm í marga mismunandi vasa í stað þess að setja öll þurrkuðu blómin saman í eitt stórt búnt.
Hengdu upp þurrkuð blóm með fallegu límbandi á hurðar eða veggi, jafnvel á striga og búðu til ljóðrænt listaverk. Blandið ólíkum týpum saman sem fær fólk til að staldra við og skoða betur.
Búðu til svífandi blómaskúlptúr! Hér hefur hænsnanet verið krullað saman í kúlu þar sem blómastilkunum er stungið í gegn og vöndurinn hengdur upp fyrir ofan borðið. Alveg dásamlegt.
Hver man ekki eftir þessu frá gamalli tíð. Notaðu uppáhalds blómin þín í þetta verk. Pressaðu þau á milli blaðsíðna í gamalli bók og vertu þolinmóð/ur í það minnsta 14 daga. Uppskeran verða næfurþunn blómablöð sem þú getur sett í ramma. Ramminn á þessari mynd er til dæmis frá Moebe og fæst m.a. í Epal.
Þurrkaðir vendir þurfa alls ekki að vera fullkomnir. Þeir mega enn frekar vera dálítið villtir og standa út í allar áttir í mismunandi hæðum.
Leiktu þér með að setja fersk blóm með þurrkaða vendinum þínum. Það gefur dínamíska stemningu.

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.