Ása María Reginsdóttir eða Ása Regins eins og hún er jafnan kölluð hefur rækilega stimplað sig inn síðastliðin misseri hjá Íslendingum sem boðberi heilsusamlegs lífsstíls, og þá sérstaklega undir áhrifum ítalskrar matarmenningar. Ása Regins er sannkallaður frumkvöðull að eðlisfari og þykir henni fátt skemmtilegra og meira gefandi en að koma heilsueflandi skilaboðum til samfélagsins og nýtir sér þar að mestu mátt samfélagsmiðla. Ása hefur síðasta árið flutt inn hágæða vörur frá Ítalíu og eru vörur OLIFA orðnar vel þekktar hér á landi. Vinsældir vörulínunnar virðist eingöngu vera að aukast, enda lofa allir vörurnar sem þær hafa prófað og verða þær að teljast einstakar á íslenskum markaði.

OLÍUR

HEFUR BÚIÐ Á ÍTALÍU Í 11 ÁR
Ása er gift Emil Hallfreðssyni landsliðmanni í fótbolta og eiga þau saman börnin Emanuel sjö ára og Andreu Alexu þriggja ára. Ása og fjölskylda hafa verið búsett á Ítalíu síðastliðin 11 ár og hefur Ása tileinkað sér menningu Ítala á þeim tíma og finnst henni fátt betra en ítölsk matarmenning sem samanstendur þá af hreinni og næringarríkri fæðu. ,,Ég útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands og eftir útskrift lá leiðin í Háskóla Íslands en þar stundaði ég nám í Hjúkrunarfræðum. Samhliða náminu starfaði ég á Slysa og Bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og hjá Icelandair sem flugfreyja. Ég lauk þó ekki náminu þar sem ég ákvað að flytja suður á bóginn til Ítalíu til Emils, en hann var þar að spila fótbolta. Þar höfum við nú búið í ellefu frábær ár og orðin nokkuð sjóuð í atvinnumennskunni. Á þessum 11 árum höfum við verið svo heppin að búa í fjórum fallegum Ítölskum borgum, eignast þar tvö yndisleg börn og stofnað þrjú fyrirtæki. Að ógleymdu öllu því sem tengist fótboltanum en það er heill heimur útaf fyrir sig. Fyrir tilstilli fótboltans höfum við því kynnst mikið af frábæru fólki sem hefur kennt okkur margt sem nýtist okkur í hinu daglega lífi, sama hvort það er innan vallar eða utan, í mannlegum samskiptum, í viðskiptum og/eða eldhúsinu. Ég lít svo á að það séu forréttindi að hafa fengið tækifæri til að búa á Ítalíu og fengið að kynnast annarri menningu, tungumáli og hugsunarhætti sem við höfum tileinkað okkur.Í dag er ég einnig mjög þakklát sjálfri mér að hafa notið þessa tækifæris og ekki látið álit annarra á mér hafa haft áhrif á mig. Ég fylgi hjartanu og lifi lífinu út frá minni eigin sannfæringu og tek þátt í þessu ævintýri með Emil af heilum hug og hjarta, enda erum við í þessu öllu saman. Samvinna er lykillinn.”

FJÖLSKYLDA 2

OLIFA FÆDDIST Í ELDHÚSINU Í UDINE Á ÍTALÍU
Ása hefur nýtt tíma sinn á Ítalíu vel og vissi hún að henni langaði til þess að nýta þá reynslu sem hún væri að öðlast með því að búa í öðru landi í að byggja eitthvað upp frá grunni og sameina þannig tengslin á milli Íslands og Ítalíu. “Frá því að ég flutti erlendis hef ég verið með augun opin fyrir tækifærum og reynt mitt besta að búa mér sjálf til verkefni. Oft er ég ein heima með börnunum þegar Emil er í löngum keppnisferðum, og því gefst tími til að láta hugann reika, hugsa og móta hugmyndir, þó þær hafi oft verið óljósar og ekkert orðið úr þeim. Eitt leiddi síðan af öðru og OLIFA fæddist heima í eldhúsinu okkar í Udine. Ég man nákvæmlega hvar ég stóð þegar ég fékk þá hugmynd að fyrirtækið okkar ætti að heita OLIFA. Ég gekk svo að borðinu heima og teiknaði frekar misheppnað ólífutré sem átti að vera logoið, sem ég fíniseraði svo og úr varð þetta fína logo sem ég er virkilega ánægð með. Í framhaldi tók við skemmtileg undirbúningsvinna, bæði að stofna fyrirtækið, hanna umbúðirnar, móta stefnu fyrirtækissins og það mikilvægasta að sjálfsögðu, að smakka og velja bestu olíurnar. Það tók sinn tíma en hafðist að lokum. Það gerðum við með aðstoð Francesco Allegrini, vini okkar og meðeiganda OLIFA, en hann er sonur eins ástsælasta vínbónda Norður-Ítalíu og þekkir því vel til innan matargeirans. Vegna hans tengsla tókst okkur því að fá olíurnar til Íslands á góðu verði sem er að skila sér til íslenskra neytenda, og því loks hægt að fá hágæða ítalskar jómfrúar ólífuolíur í alfaraleið á Íslandi. Mér þykir mjög mikilvægt að bæta þessum hágæðavörum við úrvalið heima enda eru góðar olíur hornsteinn miðjarðarhafs mataræðisins sem þykir eitt það besta og heilsusamasta í heimi.“

ELDHÚS

ÞEIR FISKA SEM RÓA
Aðspurð hvort að Ása hafi lent í áskorunum sem hún átti ekki von á í vöruþróunar ferli OLIFA og hvað henni hafi fundist mest krefjandi á þessari vegferð segir Ása okkur að það sem hafi verið mesta áskorunin sé áskorunin að byrja eitthvað nýtt sem maður hefur ekki gert áður. “Áskorunin í sjálfu sér var sú að ég byrjaði þarna eitthvað ferli sem ég hafði aldrei gert áður né lært um og var því hvert smáatriði ný áskorun. Sama hvort það voru merkingar samkvæmt ítölskum reglugerðum á ólífuolíu flöskum, útlitið á vörunum, gæðastimplar, söluræður eða símtöl í bankann og Ríkisskattstjóra. Oft fannst mér ég þurfa að setja poka á höfuðið á mér áður en ég hringdi þessi símtöl því mér fannst þau svo vandræðaleg. En það vandist og eftir því sem á leið á verkefnið sá ég að þetta er bara eins og með allt annað, ef viljinn er fyrir hendi að þá er það ekkert mál. Hingað til hefur enginn skellt á mig eða hlegið af mér í símann, ótrúlegt en satt, en kannski mun það símtal koma, en þá hringi ég bara aftur.“Þeir fiska sem róa” er frasi sem ég elska og segi oft við sjálfa mig.“

FJÖLSKYLDA

ÁSTRÍÐAN KEMUR ÞEGAR HJARTANU ER FYLGT
Ása segir okkur að það eina sem skipti máli ef maður brennur fyrir einhverri hugmynd eða verkefni að þá sé mikilvægast að stíga skrefið, fylgja eigin sannfæringu og bara byrja. “Ef það er eitthvað ráð sem ég ætti að gefa þeim sem ganga um með hugmynd í kollinum og vita ekki hvar þeir eiga að byrja myndi ég segja við þá einstaklinga að bara byrja, það er engin ein leið rétt held ég. Sama hvort það er að hringja vandræðalegu símtölin og afla sér upplýsinga, krota logo á blað eða finna góða vinnufélaga og kasta á milli hugmyndum. Smátt og smátt tekst maður á flug. Róm var ekki byggð á einni nóttu og þess vegna er hún líka svona falleg. Mikilvægast af öllu er þó að fylgja eigin sannfæringu og vinna hvert verkefni af heilindum og góðum vilja. Þá kemur ástríðan sem kveikir bál í hjartanu.“

Maður þarf ekki að vera meistari, fræðingur eða snillingur til að hrinda af stað verkefnum. Góður vilji, gegnsæi við viðskiptavini,þrautseigja og skýr stefna OLIFA er það sem hefur komið mér á þann stað sem ég er á í dag.

OSTUR

NÝ VARA VÆNTANLEG FRÁ OLIFA
Íslendingar eru í dag mest kunnir Jómfrúarólífu olíunum frá OLIFA og dásamlega bakaða ostinum sem selst alltaf upp á mettíma, en Ása er hvergi nærri hætt að færa okkur íslendingum hágæða ítalskar vörur. “Við erum smátt og smátt að bæta við vörulínu OLIFA en auk olíanna bjóðum við nú einnig upp á bakaðan ítalskan ost og er nýjasta viðbótin að sjálfsögðu ítalskt gæða pasta. OLIFA er komið með umboð fyrir pastategund sem heitir RUMMO, sem er fyrirtæki sem var stofnað árið 1846, og er einn virtasti pastaframleiðandi Ítalíu. RUMMO hefur m.a þá stefnu að flýta ekki fyrir náttúrulegum vexti hráefnisins og hefur hlotið viðurkenningar fyrir umhverfisvernd og stefnu. OLIFA leggur fyrst og fremst áherslur á gæða hráefni og heilindi í matargerð, og rímar því stefna RUMMO fullkomlega við okkar hugmyndir og gildi. “What is better for our pasta, the speed of man or the slowness of nature? “ eins og segir á heimasíðu Rummo. Við vitum öll svarið við þessari spurningu segir Ása.“

FJÖLSKYLDA 3

UPPÁHALDS UPPSKRIFTIRNAR
Eins og fram hefur komið þá er hefur Ása ástríðu fyrir að sýna fylgjendum sínum girnilegar, hollar og ítalskar gæða uppskriftir á Instagram. Hún leggur fyrst og fremst upp með að nýta fá hráefni og hreinleika í sinni matargerð og geta allir fylgt uppskriftum hennar eftir. Við fengum Ásu til þess að segja okkur frá sínum uppáhalds réttum. “Uppskriftirnar sem ég elska og geri oft eru svo margar, en tvær mjög góðar og einfaldar eru: Paprikur skornar í tvennt, BIO olíunni stráð yfir og hún krydduð með origano og salti. Þær svo bakaðar á 180 þar til krumpaðar og sætar. Hin uppskriftin er svo gulrætur og kúrbítur skorið í góða munnbita. Dreifa vel úr þeim á bökunarpappír svo hver biti fái sitt pláss. Strá BIO yfir og krydda með origano, timían, salti og miklum pipar. Baka á 180gráðum þar til fallega gyllt.“

GRÆNMETI

KJÖT

“Svo má enginn missa af “kjöti á beini” en þá uppskrift, ásamt mörgum öðrum er að finna á instagraminu mínu undir “higlights” en svo er ég mjög dugleg að sýna í instastory hvernig frábært er að nota hágæða jómfrúar ólífuolíur í matargerð með afar einföldum hætti segir Ása að lokum.“

 Þið finnið Instagramið hennar Ásu á slóðinni: Instagram.com/asaregins 

 

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.