Ein vinsælasta greinin á gamla blogginu mínu er hafraklatta uppskriftin mín. Ég skil það líka mjög vel þar sem að þeir eru alltaf til í frystinum á mínu heimili og hafa verið það frá árinu 2013 enda í miklu uppáhaldi.
Ég má til með að deila þeim með lesendum mínum á Framanum líka.

Mér finnst hafraklattar alveg dásamlegir en flestir þeirra sem að fást í búðum og bakaríum innihalda töluvert magn af sykri. Mig langaði til þess að þróa uppskrift sem væri hollari og úr var þessi frábæra uppskrift sem hefur svo sannarlega slegið í gegn.

Uppskriftin inniheldur engan hvítan sykur, né hveiti og er mjög góður kostur sem millimál, orka fyrir æfingu eða jafnvel sem morgunmatur.
Ég set oftast möndlusmjör ofan á klattann ef ég fæ mér hann sem morgunmat til þess að gera hann matmeiri.

Hér koma leiðbeiningar:
Ég baka uppskriftina alltaf í sama eldfasta mótið sem ég keypti í IKEA.
Set tengilinn með: https://www.ikea.is/products/2573

Í mótið set ég bökunarpappír til þess að koma í veg fyrir að deigið festist við.

Annað sem mér finnst nauðsynlegt að taka fram en uppskriftina blanda ég með gaffli!
Já, þið heyrðuð rétt.
Ég hef prufað að hræra hana á annan hátt og hún var ekki nærri því eins góð. Með gafflinum ná bananarnir að vera í smá bitum og það setur meiri ást í uppskriftina.

Það sem að þú þarft:
250 g þroskaða banana
-Athugið: Ef þú ert með ofnæmi fyrir banana má nota eplamauk í staðinn.
1 heilt egg
1 eggjahvítu
150 g haframjöl
60 g af döðlum eða rúsínum
2-3 msk af grófu kókosmjöli *val
Kanill eftir smekk (ég nota góðan skammt af honum)
Skvettu af vatni ef deigið er mjög þurrt þegar kanilnum hefur verið bætt við.

IMG_3021

Hér má sjá það sem ég nota í uppskriftina. Ég mæli eindregið með þessum Kanil sem fæst í Costco. Hann er töluvert sterkari og hollari heldur en annar kanill og á góðu verði.

Aðferð:
Ég byrja á að setja bananana í skál og stappa þá niður með avocado stappara, einnig er hægt að nota gaffalinn eða kartöflustappara. Eftir að hafa stappað þá hræri ég aðeins í þeim með gaffalinum áður en ég bæti eggjunum út í. Gott er að hræra eggjunum svolítið vel við banananamaukið.

Því næst set ég hafrana úti og hræri þá vel við eggin og maukið. Á eftir því bæti ég döðlum eða rúsínum út í degið og kanil. Ef mér finnst uppskriftin vera þurr þá skvetti ég smá vatni út í til þess að mýkja degið. Í lokin má bæta kókosmjölinu við.
*Mér finnst stundum gott að leyfa uppskriftinni að standa í smástund áður en ég set hana í eldfasta mótið því þannig fá hafrarnir tíma til þess að mýkjast aðeins.

Deiginu helli ég út í eldfasta mótið og set ofninn á svona 180 gráður. Ég hef prufað bæði með blæstri og án og mér finnst þeir fljótari að bakast með blæstri. Gott er að hafa þá í ofninum í svona 20-35 mín (ég er mjög léleg að gefa einhverju tíma) – mér finnst virka best að fylgjast með þeim og athuga reglulega hvort deigið sé orðið þétt í sér. Lykillin er að baka þá ekki of lengi þá geta þeir verið of þurrir.

Eftir á:
Þegar uppskriftin hefur kólnað sker ég hana í fjóra bita (í slíkum bita eru um 200 hitaeiningar og hver klatti í kringum 140-160 g).
Klattana set ég í poka þegar þeir hafa kólnað og geymi þá klatta sem ég ætla borða næstu þrjá daga í kælinum en restina set ég í frysti. Mér finnst þeir geymast mjög vel í frystinum en ég er reyndar ekki með neina almennilega reynslu á það þar sem þeir eru fljótir að klárast hjá mér.

IMG_3047

Ég viðurkenni að þeir eru ekki mikið fyrir lúkkið og erfitt að ná góðri mynd af þeim. En bragðið er svo sannarlega eitthvað annað.

Annað:
Uppskriftina má einnig leika sér með og hef ég prufað að setja súkkulaði, súkkulaði rúsínur og hnetur út í þá svo dæmi sé nefnt. Mér finnst einnig mjög gott að setja hnetusmjör og hörfræ saman út í en þá verður uppskriftin töluvert hitaeiningaríkari.
Ég hef stundum gert hnetusmjörs og hörfræ útgáfuna fyrir litla frænda minn sem er mikill orkubolti. Uppskriftin hentar ekki síður fyrir þau yngstu.

Ég vona að þið njótið þeirra eins vel og ég.
Ale Sif

Alexandra Sif Nikulásdóttir
Alexandra er oftast kölluð Ale eða Ale Sif. Hún er 30 ára og er búsett í Garðabænum ásamt kærastanum sínum. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá FitSuccess síðastliðin níu árin og er einnig förðunarfræðingur.
Alexandra átti farsælan feril í Fitness keppnum fyrir nokkrum árum síðan sem leiddu til þess að hún hélt uppi vinsælu bloggi og skrifað dálk í blöðin um heilsu og hreysti.
Hún hefur brennandi áhuga á heilbrigðum lífsstíl, skipulagi og förðun svo eitthvað sé nefnt.

Author: Alexandra Sif Nikulásdóttir

Alexandra er oftast kölluð Ale eða Ale Sif. Hún er 30 ára og er búsett í Garðabænum ásamt kærastanum sínum. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá FitSuccess síðastliðin níu árin og er einnig förðunarfræðingur. Alexandra átti farsælan feril í Fitness keppnum fyrir nokkrum árum síðan sem leiddu til þess að hún hélt uppi vinsælu bloggi og skrifað dálk í blöðin um heilsu og hreysti. Hún hefur brennandi áhuga á heilbrigðum lífsstíl, skipulagi og förðun svo eitthvað sé nefnt.