Sætar kartöflur og kjúklingur passa sérlega vel saman. Þessi réttur er bæði afar bragðgóður og í hollari kantinum. Þetta er einfalt og þægilegt að útbúa og tekur um 30 mínútur. Ég undirbý meðlætið á meðan kjúklingurinn og sætu kartöflurnar bakast í ofninum. Sósan er líka mjög ljúffeng en ég geri hana oft með grænmetisréttum, samlokum, heimagerðum frönskum eða öðru sem mér dettur í hug.

IMG_3357 copy

Uppskrift fyrir 2
1 stór sæt kartafla
Ólífuolía
2 kjúklingabringur
Salt og pipar
Fajita krydd
1 stórt avocado, stappað
Salat
Fetakubbur
Tómatur, skorinn í sneiðar
Alfa alfa spírur
Sósa:
3 msk Hellmanns majónes
1-2 tsk sambal oelek

 
Skerið kjúklingabringurnar í tvennt svo úr verði fjórar sneiðar úr tveimur bringum. Berið ólífuolíu á þær og kryddið með salti, pipar og fajita kryddblöndu. Bakið í ofni við 190°C í 15 mínútur.

Stappið fetakubbinn (magn eftir smekk) og dreifið yfir kjúklinginn. Setjið kjúklinginn aftur inn í ofn og bakið í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann er orðinn fulleldaður.

Skerið sætu kartöfluna í 8 sneiðar. Penslið olíu á þær og kryddið með salti og pipar. Leggið þær á ofnplötu sem er þakin bökunarpappír og bakið í 20 mínútur á 190°C.

Takið kartöflusneiðarnar úr ofninum og smyrjið 4 sneiðar með avocado og dreifið salati yfir. Setjið kjúklinginn ofan á, tómatsneið, sósu, spírur og í lokin leggið sneið af sætri kartöflu ofan á. Mæli með að gera tvo borgara á mann.

IMG_3368

 

Hildur Rut Ingimarsdóttir
Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.

Author: Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hildur Rut Ingimarsdóttir er 31 ára og búsett í Reykjavík með unnusta sínum, syni og dóttur. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is vinnur hún hjá Pennanum Eymundsson á fyrirtækjasviði.