Það er erfitt að halda aftur að sér þessa dagana þegar öll helstu fyrirtækin í heimi hönnunar eru að mætast á sýningum út um allan heim, til að kynna nýjustu strauma og stefnur. Við sem elskum að fylgjast með vitum að FERM LIVING er ávalt með puttann á púlsinum hvað þetta varðar og það er engin undantekning í þetta sinn.

Í stað þess að einblína á allt heimilið í einu tekur FERM LIVING  okkur með í ákveðið ferðalag, ef svo má segja, um hvert rými fyrir sig. Gefur okkur betri innsýn í hvað sé nýtt og hvernig nota megi hlutina. Og við erum með nýjustu myndirnar – gjörið svo vel!

Anddyrið er fyrsta rýmið sem tekur á móti þér þegar þú kemur heim á daginn, og þar er gaman að hafa fínt eins og í öðrum rýmum heimilisins. Nýtt frá FERM er Pujo Coat Stand, sem er fatahengi og líka skúlptúr út af fyrir sig. En það sama má segja um bekkinn, Place Bench, sem er hálfgert listaverk á gólfi.

Stofan hefur fengið uppliftingu eins og við var að búast. Nýr sófi og stóll er væntanlegt með háu baki, næstum eins og húsgögnin ætli að faðma mann að sér. Það er kannski akkúrat það sem við viljum? Eins eru ný ljós sem kallast Arum og samanstanda af vegg-, borð- og gólflampa. Þyngdin í þeim liggur í fætinum sjálfum sem er úr svörtum marmara á meðan skermurinn er fíngerður og léttur.

Hin sívinsælu plöntubox sem finnast í fjölmörgum litum eru nú með enn meira notagildi því nýjasta nýtt eru aukahlutir sem passa fyrir boxin. Við erum að tala um lítið skilrúm, geymslubox og blómapott sem má nota undir blóm eða annað sem þér dettur í hug.

Baðherberið er eitt af þeim rýmum sem eiga það til að gleymast. Nýr skartgripastandur sem skreytir herbergið í leiðinni er hér með lentur. Svart að lit með marmarafót sem heldur honum stöðugum.

Þeir sem kjósa stóra og mikla grænblöðunga í kringum sig taka eflaust andköf núna, því þessir dásemdar blómapottar voru að lenda. Þeir eru framleiddir úr endurvinnanlegu efni og mega standa úti jafnt sem inni. Og þar fyrir utan eru þeir fjölnota, því þú getur snúið þeim við og notað þannig – fer allt eftir stemningunni hverju sinni.

Hjarta heimilisins, eldhúsið, þar sem öll fjölskyldan safnast saman. Ripple Glass vörulínan sem kom út í fyrra og samanstendur af karöflu og vínglösum verður nú fáanlegt í reyktum lit – fullkomið undir alla litríku drykkina á árinu.

Einstaklega fallegur vasi með dásamlegar línur – þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig blómin munu koma út í þessum.

Myndir // FERM LIVING

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.