Sýningin FROST er fyrsta myndlistarsýning Steinunnar Eikar. Á sýningunni eru þrjátíu verk máluð á síðustu tveimur árum, unnin með blandaðri akríl-tækni á striga. Þema sýningarinnar er, eins og titillinn segir til um, frost. Án þess að skilgreina abstrakt málverkin of mikið, er hér unnið með skírskotun í frosið landslag og harðgerða íslenska náttúru.

Steinunn Eik Egilsdóttir, sem fædd á Akranesi 1988, er arkitekt og er myndlistin nýlegt tjáningarform hennar. Hún lauk BA prófi í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands 2011 og meistaraprófi í arkitektúr frá Oxford Brookes háskóla í Englandi 2014. Þá lauk Steinunn Eik framhaldsgráðu til löggildingarprófs við Westminster-háskóla í London haustið 2018. Steinunn Eik hefur í gegnum námsferilinn unnið verkefni á Grænlandi, í Hollandi og Palestínu. Þá tók hún einnig þátt í stofnun og framkvæmd rannsóknarverkefnisins Eyðibýli á Íslandi.

Í upphafi arkitektaferils síns hóf Steinunn Eik störf sem nemi við vinnu á friðuðum byggingum bæði á Íslandi og eitt sumar á Ítalíu. Eftir búsetu í Oxford leitaði hugurinn enn lengra út í heim og vann Steinunn Eik við arkitektúr í Vestur-Afríku á árunum 2013-16.

“Ég hef í raun alltaf verið skapandi og hef teiknað frá því ég man eftir mér. Ég teiknaði mjög mikið sem lítið barn, en þá var ekki vitað að ég þurfti mjög sterk gleraugu og voru allar mínar barnateikningar illskiljanlegar fram til að verða fimm ára aldurs – það er því spaugilegt til þess að hugsa að þessi hálfblinda stelpa hafi orðið arkitekt. Arkitektúr er mjög skapandi hönnunargrein en á sama tíma oft mikil nákvæmnis vinna. Það hafði lengi blundað í mér þrá til að skapa á aðeins frjálsari máta og þegar ég flutti á strjálbýlan stað við suður strönd Englands 2016 var allt í einu kominn staður og stund til að byrja að mála. Ég hafði allt árið á undan búið í Accra, höfuðborg Ghana í Vestur-Afríku, þar sem aldrei var dauð stund og ég var orðin vön miklum hávaða og látum. Svo var ég allt í einu flutt til Englands, inn í miðjan South Downs þjóðgarðinn og ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að fóta mig í svona mikilli ró og næði. Með dádýr og fuglasöng fyrir utan gluggann, ákvað ég að taka upp penslana og fá útrás í abstrakt myndlist. Þetta var mikil hreinsun og er myndlistin í dag mín besta leið til að róa hugann.  Ég sótti nokkra opna myndlistartíma hjá nágrannakonu minni Sandy Hales, listakonu á eftirlaunaaldri, og það var í raun hún sem kom mér af stað. Síðan þá hef ég þróað minn stíl og tækni og þótt ég hafi búið úti þar til haustið 2018, var tengingin við harðgerða, kalda íslenska náttúru svo mikill hluti af mér að ég sótti í raun ómeðvitað innblástur til Íslands. Það er því ákaflega gaman að vera flutt aftur heim núna eftir 6 ára fjarveru og fá tækifæri til að halda mína fyrstu myndlistarsýningu á Íslandi. Ég hef fundið fyrir miklum áhuga frá fólki sem er ótrúlega skemmtilegt og hvetjandi.“

Þar sem Steinunn Eik vinnur dags daglega sem arkitekt og fæst því við hönnun og teikningar sem þurfa að vera bæði nákvæmar og raunsannar, finnur hún frelsi í að mála á abstrakt hátt. Hún kýs því að skilgreina myndlist sína eins lítið og hægt er, hvert verk má vera algerlega það sem áhorfandinn les út úr því. Hvert auga les á sinn hátt. Allt er leyfilegt.

Sýningin fer fram í Listasal Mosfellsbæjar – Þverholti 2 og stendur yfir frá 18.janúar – 15.febrúar. Búið er að stofna viðburð fyrir sýninguna sem nálgast má hér.

Fyrir þá sem vilja kynnast Steinunni og hennar verkum betur:
Instagram/steinunneik
Linkedin/steinunneik

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.