Kristín Þórsdóttir eða Stína eins og hún er kölluð tók afdrifaríka ákvörðun um að skipta um starfsferil á síðasta ári eftir erfiðan missi eiginmanns síns. Stína sem er hársnyrtir að mennt þurfti að vera frá vinnu frá sumrinu 2015 til þess að sinna eiginmanni sínum Kidda sem barðist við krabbamein, en hann lést sumarið 2017 eftir margra ára baráttu. Stína lærði mikið á þessum tíma af Kidda, en hann var þekktur fyrir að hafa jákvæð áhrif á fólk og minnti alla í kringum sig á að að “Lífið væri núna.“ Við fengum Stínu til þess að segja okkur frá breyttum áherslum í lífi sínu og nýjum starfsvettvangi sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á hennar líf.

49398552_563191400820468_2041893517705347072_n

HEYRÐI FYRST AF MARKÞJÁLFUN HJÁ VINKONU SINNI
Stína er eins og áður hefur komið fram menntaður hársnyrtir og hafði starfað í því fagi frá árinu 2002. Eftir andlát Kidda fann Stína að henni langaði og væri ætlað að taka nýja stefnu í lífinu en hún var ekki viss hver sú stefna væri á þeim tímapunkti. „Ég var búin að hugsa um það hvert ég vildi stefna í einhvern tíma, ég hafði ekki lengur eldmóðinn að fara að klippa. Á meðan ég var að átta mig á næstu skrefum þá hafði ég alltaf í huga að ég vildi gera eitthvað sem að skipti mig miklu máli, og þá helst að nýta reynslu síðustu ára til þess að hjálpa öðrum. Það sem að veitti mér meðbyr í þessari ákvörðun var meðal annars það að Kiddi var duglegur að segja vð mig að maður ætti að nýta tímann sem maður hefði vel og að maður ætti að gera það sem veitti manni ánægju. Gildin hans Kidda voru einstök og svo sönn, ég hef aldrei þekkt neinn mann sem að lifði jafn mikið í núinu og hann. Ég var alltaf með gildin hans á bakvið eyrað. Ég var á þessum tíma ekki alveg að átta mig á tilfinningum mínum og fékk mikla aðstoð og stuðning frá vinum og vandamönnum. Eitt kvöldið nefnir vinkona mín markþjálfunar námið við mig og ég vissi ekki mikið um það á þeim tíma. Ég man að ég sagði við vinkonu mína að ég væri orðin 33 ára, væri 3 barna móðir og ekkja, hversu kærulaust væri það af mér að fara núna í nýtt nám. Ég fór svo á kynningarfund  hjá Evolvia og það var ekki aftur snúið, ég fann það strax að þetta var það sem ég vildi gera. Að hjálpa fólki að ná betri og meiri árangri í lífinu er algjörlega frábært! Þarna hugsaði ég með mér að ef ég gæti nýtt allt það góða sem kemur út úr erfiðri reynslu þá er það meira virði.“

VIKUFERÐ TIL AZORES EYJA
Námið hófst í febrúar 2018 og efaðist Stína um ákvörðunina í dágóðan tíma eftir að hún hafði skráð sig. Hún lifði á ákveðinni sjálfstýringu á þessum tíma og var að kynnast sjálfri sér upp á nýtt. Hún ákvað að grípa þau tækifæri sem að voru send til hennar og það gerði henni gott. „Það tók mig ákveðinn tíma að átta mig á því að ég mætti gera eitthvað skemmtilegt og að ég þyrfti virkilega að setja sjálfa mig í fyrsta sæti og gera eitthvað fyrir mig til þess að geta sinnt börnunum mínum eins og ég vildi og þau þurftu á að halda. Ég fór algjörlega út fyrir boxið og bókaði mig í  vikuferð til Azores eyja með vinkonu minni. Mér fannst ég finna sjálfa mig á ákveðinn hátt í þeirri ferð, það segja margir að það sé klisja að finna sjálfan sig en ég komst að því að það er bara alls engin klisja. Það var algjörlega magnað að fara í þessa ferð og besta göf sem ég gat gefið sjálfri mér. Þegar ég kom heim var ég tilbúin að takast á við næstu áskoranir.“

49589765_334857670455260_3205998743488823296_n

HVERNIG Á SAGAN ÞÍN AÐ VERA?
Stína fann strax að ákvörðunin sem hún hafði tekið með því að skrá sig í markþjálfunar námið hefði verið hárrétt. „Ég hugsaði eftir fyrsta tímann “vá hvað ég er komin á réttan stað.“ Ég fann bara hvernig orkan var þarna, ég varð strax forvitin og vissi að þetta væri ekki bara nám til að læra eitthvað, heldur væri þetta að fara að breyta mér líka. Það er mín skoðun að þetta nám ætti að vera skylda fyrir alla. Nemendur fara sjálfir í gegnum markþjálfun og það var svo skemmtilegt að sjá hvað við sem vorum saman í náminu bættum okkur öll mikið á þessum tíma, en það felst mikil sjálfsskoðun í markþjálfun. Það sem stendur upp úr er að maður lærir betri samskipti og betri hlustun, en þessa þætti getur maður nýtt sér á öllum vettvöngum. Ekki síst í barna uppeldi, en hvað er maður oft að segja börnunum sínum hvað þau eigi að gera í stað þess að spyrja þau hvað þau vilji gera. Maður er ofboðslega fljótur að mata alla á upplýsingum sem að getur verið mikill þroskaþjófur. Þegar leið á námið sá ég fljótt hvað það virkaði að markþjálfa aðra en það gaf mér mikið, það var t.d ein eldri kona sem að byrjaði að hugsa um sjálfa sig aftur eftir að hafa sett aðra í forgang allt sitt líf. Markþjálfun er fyrir alla einstaklinga sem að vilja ná lengra, fá utanumhald, setja sér markmið og framfylgja þeim, kveikja neistann sem býr innra með öllum og ég gæti endalaust talið upp. Það eina sem stöðvar mann að lifa lífinu er hugurinn manns, ef maður þorir ekki að taka stökkið þá er maður ekki að lifa lífinu til fulls. Það er auðvitað misjafnt hvað hver og einn einstaklingur sækist eftir og það er allt í lagi, mikilvægast er að það sé ánægt. Það er gott að spyrja sig þessarar spurningar „Ef ég væri að skrifa ævisöguna mína, hvernig vil ég að hún sé?“  Það er gott að hafa plan, það þarf ekki að vera til 10 ára, það má vera 1 mánuður eða 3 mánuðir. Hvað er mikilvægt akkúrat núna? Og átta sig á því að það verður ekki alltaf auðvelt, en maður lærir að komast í gegnum hindranir lífsins.“

STOFNAÐI FYRIRTÆKI
Stína ákvað fljótlega eftir að það leið á námið að hún vildi stofna fyrirtæki og sinna markþjálfuninni af fullum krafti. Fyrirtækið nefndi hún Eldmóður og hefur hún aðsetur á sameiginlegri skrifstofu Hive studios með öðrum á Skemmuvegi í Kópavogi. „Ég ákvað að nefna fyrirtækið mitt Eldmóður markþjálfun, þar sem að ég er að hjálpa einstaklingum að finna sinn eldmóð. Hvað hefur maður ef maður hefur engan eldmóð? Ég hafði sinnt hlutverki varaformanns í stjórn Krafts og tók þar þátt í hinum ýmsu verkefnum eins og að hanna með öðrum Lífið er núna armböndin, aðstoða við markaðsefni og herferðir og fleira. Ég fann að það átti vel við mig að vera með puttana í rekstrartengdu og skráði mig svo í Brautargengi til að efla mig frekar í því, en það er námskeið á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og er sniðið að þörfum kvenna sem ganga um með viðskiptahugmynd og vilja hrinda henni í framkvæmd og hefja eigin rekstur. Ég hef nýlega lokið því námskeiði og það fannst mér frábær reynsla.“

49784983_317793758831212_3545713893345067008_n

FRAMTÍÐIN BJÖRT
Framundan eru áhugaverð verkefni hjá Stínu, en hún er hvergi nærri hætt að auka við þekkingu sínu á þessum vettvangi og stefnir hún á að sérhæfa sig í kynlífs markþjálfun. „Ég hef verið að vinna að fyrirlestri/forvörn sem fjallar um sjálfsmynd og kynheilbrigði. Mér finnst vanta mikla fræðslu á þeim vettvangi í dag fyrir ungt fólk. Mig langar til þess að fara með þá kynningu í grunn- og framhaldsskóla landsins. Ég ætla að sérhæfa mig í kynlífs markþjálfun en ég tel mikla vöntun fyrir slíku hér á landi og áhugi minn liggur þar. Það nám þarf ég að sækja út fyrir landsteinana og hef nú þegar kynnt mér nám sem kennt er í fjarnámi frá Bandaríkjunum, það er mitt markmið að komast í það nám sem fyrst. Það er allt hægt í dag.“ Aðspurð hver fimm ára markmið hennar eru þá segir Stína „Ég verð búin að hafa áhrif á marga í kringum mig, ég verð orðin kynlífs markþjálfi og mun starfa við það ásamt því að vera með námskeið á ýmsum sviðum og fyrirlestra um hvernig við sjálf getum skapað okkar líf. Ég og börnin mín verðum að byggja lítið hús uppi í sveit og ræktum þar tré saman. Ég verð einnig búin að halda fyrirlesturinn minn um sjálfsmynd og kynheilbrigði í öllum framhaldsskólum landsins og komin með það verkefni enn lengra, ég sé það fyrir mér í stærra samhengi. Maður nefnilega getur svo miklu meira en maður heldur“ segir Stína að lokum og brosir.

Vefsíða: www.eldmodurmarkthjalfun.is

Instagram: eldmodur_markthjalfun

Facebook: Eldmóður Markþjálfun

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.