Rakel Tómasdóttir er 25 ára grafískur hönnuður og listakona. Hún var að gefa út sína fyrstu dagbók sem er ekki aðeins vel upp sett og þægileg í notkun heldur gullfalleg! Þar sem ég elska góðar dagbækur og fylgdist vel með hönnun bókarinnar fékk ég hana Rakel til þess að segja mér aðeins betur frá ferlinu.

 Rakel hefur verið að teikna eins lengi og hún man eftir sér en setti meiri fókus á teikningarnar fyrir um það bil tveimur árum síðan. “Ég útskrifaðist frá LHÍ árið 2016 en síðan þá hef ég unnið sem grafískur hönnuður fyrir tímaritð Glamour ásamt öðrum verkefnum. Fyrir um það bil tveimur árum fór ég að leggja þetta meira fyrir mig og fyrir rúmlega ári síðan byrjaði ég að selja verk eftir sjálfa mig.” Segir hún.

Rakel hafði hugsað um það að gera dagbók í langan tíma áður en hún ákvað að láta verða að því. “Ég hef lengi verið að leita að dagbók sem hentar mér og hef verið með það á bak við eyrað í langan tíma að búa bara til mína eigin. Það vita það ekki allir en stór hluti af vinnunni minni er að hanna bækur og letur. Með þessu verkefni fékk ég tækifæri til að blanda saman öllu sem mér finnst skemmtilegast, bókahönnun, leturhönnun og teikningum.” Segir hún, en ef þið eruð að fylgja henni á Instagram þá fengum við að fylgjast grannt með ferlinu þar. “Þegar ég fæ hugmynd finnst mér yfirleitt best að framkvæma hana strax, mér datt þetta í hug og pældi í þessu í kannski 2-3 daga og póstaði svo á Instagram að ég ætlaði að gera þetta. Um leið og maður póstar er maður búinn að búa til pressu og getur ekki hætt við. En ég deildi bókstaflega öllu ferlinu á instagram sem var mjög gaman.”

Rakel leyfði fylgjendum sínum að fylgjast með og kjósa um útlit bókarinnar á Instagram, ég var ein af þeim sem fylgdist vel með og hafði mjög gaman af. “Yfirleitt var fólk var annaðhvort mjög sammála eða að svörin skiptust akkurat 50/50, þegar svoleiðis aðstæður komu upp, t.d. þegar ég var með kosningar um vikuplanið, sem er lang stærsti hlutinn af bókinni, þá skoðaði ég málið aðeins betur tók ákvörðun og sýndi frá því á instagram og útskýrði af hverju ég tók ákvörðunina sem ég tók. En þetta var mjög skemmtilegt og það er mjög gott að geta spurt fleiri þúsund manns í einu þegar maður er ekki viss um eitthvað. Sérstaklega þar sem fylgjendur mínir eru síðan þeir sem eru að fara að nota bókina, auðvitað ættu þau að hafa eitthvað um þetta að segja.”

Fyrsta upplag af bókinni er nú þegar uppselt en hún kemur aftur í næstu viku! Ég er búin að sækja mér eintak og get ekki beðið eftir að byrja árið 2019. Hún verður fáanleg á rakeltomas.com og í Hrím Kringlunni og á Laugarvegi.

Instagram/rakeltomas
rakeltomas.com

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.