Herdís Helga Arnalds er fjölhæf og hæfileikarík ung kona. Hún starfar sem vörustjóri hjá Valitor, er frumkvöðull og nýtur nú tímans með dóttur sinni í fæðingarorlofi. Herdís situr þó ekki auðum höndum í orlofinu, en hún er einn af stofnendum Blómstru og Literal Streetart og sér hún um daglegan rekstur ásamt sambýlismanni sínum Marinó. Herdís var einnig nýlega kosin í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga og ritsýrir þar blaðinu Hagur sem gefið er út með Viðskiptablaðinu.

Herdis2

Ég settist niður með Herdísi einn þriðjudagsmorguninn á Te og Kaffi Suðurlandsbraut. Herdís kom með Snæfríði Yrsu dóttur sína í vagninum sem að svaf værum lúr á meðan að ég fékk að heyra sögu Herdísar.

FÓR ERLENDIS Í NÁM Á STYRK
Herdís er uppalin í Kópavogi en býr nú í Reykjavík ásamt sambýlismanni sínum til sex ára honum Marinó Páli og dóttur þeirra Snæfríði Yrsu sem að fæddist í apríl á þessu ári. Herdís flutti heim til Íslands aftur eftir 7 ára náms- og starfsferil erlendis fyrir fjórum árum síðan. „Ég útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands þegar ég var tvítug og var ég þá búin að nýta allt lokaárið mitt til þess að undirbúa flutning til Berkeley í Californiu í háskólanám. Ég stundaði frjálsar íþróttir af kappi frá því að ég var um 14 ára gömul og vissi fljótlega að ég gæti nýtt mér íþróttina til þess að komast út í nám á íþróttastyrk. Ég var í dansi áður fyrr og skipti yfir í frjálsar íþróttir á unglingsaldri, en foreldrar mínir hvöttu mig til þess að skoða frjálsar þar sem mér fyndist svo gaman að hlaupa, og pabbi fór með mig á fyrstu æfinguna.“ Segir Herdís og brosir. Foreldrar Herdísar virðast hafa haft rétt fyrir sér og átti Herdís góðan feril í frjálsum íþróttum sem að færði henni það tækifæri að fara erlendis í nám á skólastyrk. „Mig langaði að fara í háskóla sem væri með bæði gott nám og góða aðstöðu til þess að sinna hlaupunum og fannst mér vel að því staðið í þessum skóla, en námið og hlaupin virkuðu vel saman og það var mikið lagt upp úr því að stundaskráin væri gerleg og þægileg á þann hátt að maður gæti stundað íþróttirnar í leiðinni.“

VISSI UNG AÐ NÝSKÖPUN HEILLAÐI HANA
Herdís vissi frá því að hún var unglingur að hún hefði mikinn áhuga á öllu sem tengdist nýsköpun. Hún tók til að mynda þátt í keppni í framhaldsskóla með sitt fyrsta nýsköpunarverkefni sem var hluti af nýsköpunarnámskeiði sem kennt var í Verzló. „Ég fann það strax ung að aldri að nýsköpun og frumkvöðla starfsemi átti vel við mig og væri eitthvað sem að ég hefði mikinn áhuga á og vildi kynnast þeim heimi betur. Ég valdi að leggja stund á Hagfræði en hafði einnig haft hug á að taka verkfræði eða lögfræði, en fannst hagfræðin heilla mig meira þar sem námið er opið og veitir ótal möguleika í framhaldi og er hagnýtt nám. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Námið var gott og  gekk vel og útskrifaðist ég eftir þrjú ár frá University of California, Berkeley.“

Í náminu erlendis sótti Herdís námskeið í nýsköpun og fann hún þá að hún vildi gera meira við þá þekkingu og taka hana skrefinu lengra. „Ég var með ótrúlega góðan kennara sem kenndi þetta námskeið en hann kom til með að aðstoða mig mikið við að finna spennandi starfsnám. Að lokum fékk ég starfsnám hjá Abercrombie og Fitch sem að er þekkt fatamerki og eru mjög stórir á markaði í Bandaríkjunum. Þeir voru að stefna á útþenslu til Evrópu og fékk ég að taka þátt í að innleiða félagið á nýja markaði. Ég var starfsnemi í tvo mánuði og var svo fastráðin í framhaldi og flutti til Þýskalands til þess að stýra innleiðingunni þar.“ Starfið hjá Abercrombie reyndist vera mikill skóli fyrir Herdísi en hún starfaði hjá þeim í þrjú ár. Hún ferðaðist mikið en var þó helst í Hamburg, sem hún hefur sterk tengsl við. „Mér fannst rosalega gott að búa í Hamburg og það er mitt þriðja heimili, ásamt Íslandi og Berkeley. Maður sækir alltaf aftur á heimaslóðir, í fólkið sitt og tengslanetið og eftir rúm sjö ár úti þá fann ég að nú væri rétti tíminn til þess að koma heim aftur.“

LiteralStreetart2SIGRUÐU  Í FRUMKVÖÐLAKEPPNINNI GULLEGGINU
Tveimur árum áður en Herdís flutti heim, eða árið 2012 þá kynntist hún sambýlismanni sínum Marinó. „Við kynntumst á Íslandi um jólin en þá bjó ég í Þýskalandi og hann var í meistaranámi í Hollandi. Við vorum því í fjarsambandi í tæp tvö ár. Þá voru lestarferðir að hittast hér og þar um meginlandið algengar, en þetta virkaði vel fyrir okkur. Við smullum vel saman og sáum fljótt að nýsköpun væri okkar sameiginlega áhugamál. Ég datt inn í verkefni sem hann og vinur hans voru byrjaðir á sem nefnist Gracipe og er hugbúnaður sem að færir uppskriftir yfir í myndrænt form.“ Gracipe var árið 2014 valin besta hugmyndin í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.

Þetta var eingöngu upphafið að frumkvöðla starfsemi þeirra og Herdís hlær að því þegar hún segir frá því að ansi margar hugmyndir komi upp á þeirra heimili við hinar ýmsu aðstæður. Sumar þeirra eru góðar, aðrar slæmar og svo þessar sem að breytast í skemmtilegar sögur. „Til þess að nefna dæmi þá vorum við Marinó að skoða rúmbotna um daginn og vorum farin að spá í hvort að við ættum kannski bara að smíða rúmbotninn sjálf. Þá fórum við að hugsa hvort að við gætum gert eitthvað úr því. Smíðað forrit sem gerir fólki kleift að smíða sinn eigin rúmbotn og fengið svo lítið sýnishorn sent áður en rúmbotninn færi í framleiðslu.“ Segir Herdís og hlær að því hvaða umræður spretta oft upp þeirra á milli.

Blómstra1

SKRÁÐI SIG Í TÖLVUNARFRÆÐI
Herdísi fannst sig vanta frekari tækniþekkingu, en frumkvöðla starfsemi í dag krefst þess gjarnan að þekkja inn á forritun, hugbúnaðargerð og að tala tækni. Eftir miklar umræður við föður sinn, hvatti hann hana áfram í að kynna sér nám í tölvunarfræði sem færi vel með hagfræðinni, en hans starf tengist einnig tölvunarfræði. „Ég kom heim til Íslands 2014 og fannst mér alltaf vanta þessa djúpu tækni þekkingu. Ég fann það að mig langaði til þess að skilja tækni betur og geta gert meira sjálf í okkar verkefnum. Á þessum tímapunkti hafði ég hafið störf hjá Valitor og ákvað að skrá mig í nám með vinnu. Það hentaði mér vel þar sem mikið var kennt í gegnum tölvu. Ég fann strax hvað námið nýttist mér vel og ég hafði gaman af. Ég lauk svo náminu um jólin 2017.“

Herdís hefur því tekið virkan þátt í uppsetningu á heimasíðum og öðru sem tengist fyrirtækjunum þeirra Blómstru og Literal Streetart. „Mér finnst rosalega gaman að setja upp heimasíður og fá að fikta í því.“ Eins og fram hefur áður komið þá reka þau Marinó vinsæl fyrirtæki, Literal Streetart og Blómstru. Aðspurð hvernig þær hugmyndir hafi kviknað segir Herdís okkur að Literal Streetart hugmyndin hafi kviknað í IKEA og Blómstru hugmyndin hafi lengi verið að veltast á milli þeirra þar sem að þeim fannst blóma markaðurinn á Íslandi spennandi og þau sáu mikil tækifæri þar. „Við Marinó vorum í IKEA í mynda deildinni og sáum þar myndir af ákveðnum stöðum víðsvegar úr heiminum. Okkur varð hugsað til þeirra staða sem við hefðum búið á og hvað það væri skemmtilegt að geta varðveitt þær minningar með sérhannaðri mynd. Það var ekki spurning þá að við myndum skella okkur í það verkefni. Það er ótrúlega skemmtilegt að fá pantanir frá viðskiptavinum okkar innanlands og erlendis af stöðum sem þeim þykir vænt um, það er mjög ólíklegt að þú finnir t.d mynd af Kópaskeri í IKEA.“ Segir Herdís og brosir. Literal Streetart er gagnvirk síða þar sem hver og einn getur leikið sér að því að búa til sína eigin mynd. Nýlega juku þau við vöruframboðið og úr varð Literal Codeart sem að sameinar list, vísindi og tölvukóða í einni mynd. Myndirnar eru persónulegar og hver kóði er ólíkur.

LiteralCodeart

„Hugmyndin með Blómstru er eins og áður hefur komið fram eitthvað sem við höfðum hugsað lengi um. Við erum bæði miklir blómaunnendur og fundum að við höfðum mikinn áhuga á að auka við þjónustuna á blómamarkaðinum og gera hann enn stafrænni en hann er í dag. Við erum að einfalda viðskiptavinum okkar með tækni og þjónustu að fá blóm send við hin ýmsu tilefni á auðveldan máta, eins er hægt að skrá sig í áskrift. Við útbúum nýjan vönd vikulega og fylgir frí heimsending með. Það hefur einnig verið að færast í aukana að nýta þjónustu okkar til þess að senda persónuleg skilaboð með vöndunum sem okkur þykir mjög skemmtilegt.“

NJÓTA ÞESS AÐ FERÐAST SAMAN
Herdís og Marinó ferðast mikið saman og þykir þeim nauðsynlegt að komast í nýtt umhverfi og núllstilla sig. Þau nýta sér einnig þau forréttindi að geta sinnt starfi sínu í gegnum tölvu hvar sem er í heiminum. „Við reynum að ferðast eins mikið og við mögulega getum, það er kosturinn við að reka fyrirtæki sjálfur og geta gert það í gegnum tölvuna. Marinó starfar sjálfstætt og þar sem ég er núna í fæðingarorlofi þá nýtum við tímann. Við fórum til Barcelona núna með stelpuna okkar og tveimur góðum vinum og vorum þar í mánuð að njóta lífsins. Margar góðar hugmyndir koma einnig á ferðalögum í skapandi umhverfi. Mér finnst að atvinnu markaðurinn eigi að þróast meira á þann veg að maður geti sinnt störfum sínum annarsstaðar en við skrifborð á milli 8-4, en maður er farinn að sjá að mörg frumkvöðla fyrirtæki eru meira farin að hallast í þá átt.“

45241738_2086622728221063_2772971340318113792_n

Aðspurð hvaða ráð Herdís getur gefið þeim sem að hafa hug á að stofna sitt eigið fyrirtæki eða hanna nýjar vörur á markað segir hún þar helst að hafa trú á verkefninu, prufa sig áfram og að þó eitthvað virki ekki þá er það allt í lagi. „Ég get gefið þau ráð að rannsaka markaðinn, vera óhrædd við að prufa, sjá hvort að það sé áhugi og hafa gaman af. Það gera allir mistök og það er bara hluti af lærdóms ferlinu. Það er einnig mikilvægt að eyða ekki of miklum tíma til þess að fullkomna einhverja vöru áður en viðskipta módelið er komið á hreint og maður viti hvort að varan muni seljast. Bara að prufa strax, ef bara 3 aðilar hafa áhuga og kaupa vöruna þá veit maður að allavega einhver hafi áhuga og þá að fara í frekari þróunarvinnu. Það var til dæmis eitt verkefni sem að við eyddum miklum tíma í, og svo varð hún ekki jafn vinsæl eins og við héldum og borgaði sig alls ekki. En það er bara partur af þessu.“ Segir Herdís mér kímin á svip.

 

“If you are not embarrassed by the first version of your product, you’ve launched too late“

 

„Við erum alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum og það skiptir líka máli að umvefja sig góðu og jákvæðu fólki og við leggjum mikla áherslu á það. Vera óhræddur við mistök og hafa gaman af ferlinu.“

Facebook síðu Blómstru finnið þið hér
Facebook síðu Literal streetart finnið þið hér.
LinkedIn síðu Herdísar Helgu finnið þið hér.

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.