Anna Björg Þorvaldsdóttir skrifaði meistararitgerð sína í mannauðstjórnun fyrr á þessu ári. Ritgerðin ber titilinn: “Stjórnunarstarf er alveg 120% starf, það er ekkert mikill tími í annað” Upplifun kvenstjórnenda á samspili fjölskyldu- og atvinnulífs. Við fengum Önnu til að segja okkur frá ritgerðinni og ferlinu við skrifin. 

“Ritgerðin fjallaði um upplifun íslenskra kvenna, á þeim kröfum og ábyrgð sem fylgir því að sinna bæði toppstjórnendastöðu og foreldrahlutverkinu. Mig langaði að skoða hvort og hvernig þær næðu að sinna fjölskyldulífinu samhliða mjög krefjandi starfi og hvort þær næðu einhverju jafnvægi þar á milli. Oftar en ekki eru meiri kröfur settar á konur þegar það kemur að börnum og heimili og mér fannst áhugavert að fá að vita hvort að þessar kröfur hefðu einhver áhrif á konurnar, sem nú þegar sinntu toppstjórnendastöðu á sínum vinnustað og ef svo væri, hvernig tækjust þær á við það.”

Það voru í raun nokkrar ástæðru fyrir því að Anna valdi að skrifa um þetta efni. “Ég sat til dæmis fyrirlestur á Þjóðarspeglinum á meðan ég var í náminu, sem fjallaði um leið kvenna upp metorðastigann. Mér fannst niðurstöðurnar ótrúlega áhugaverðar, þar kom til dæmis fram að konur veldu frekar fjölskylduábyrgðina heldur en toppstjórnendastöður því þær vildu ekki fórna of miklum tíma frá fjölskyldunni. Á svipuðum tíma var ég svo sjálf, ásamt samnemanda mínum, að gera litla rannsókn um mæður í námi. Í henni kom fram að þær konur sem við ræddum við fórnuðu oft náminu til þess að sinna börnum og heimili og létu oft verkefni og fleira sitja á hakanum ef eitthvað vantaði heima fyrir. Þetta tvennt sat svolítið í mér og varð svo til þess að ég vissi að ég vildi fara í þessa átt með rannsóknarefni. Þetta er svolítið mikilvægt umræðuefni líka, því ég held það sé mjög algengt að konur taki á sig stóran part af þeirri ábyrgð sem fylgir börnum og heimili, því það er alltaf meira búist við af því af konum heldur en körlum.”

Notast var við eigindlega aðferðafræði þar sem tekin voru viðtöl við 12 konur sem gegna toppstjórnunarstöðum í meðalstórum til stórum fyrirtækjum á Íslandi. “Eftir að hafa haft samband við viðmælendurnar í gegnum tölvupóst þá ákváðum við tíma og stað, allar buðu þær mér að hitta sig á vinnustaðnum sínum. Ég talaði við 12 konur sem allar gengdu framkvæmdarstjórastöðu á sínum vinnustað. Ég var með fyrirfram ákveðnar spurningar sem ég studdist við, en í öllum viðtölunum bættust við eða breyttust þær á einhvern hátt og fór svolítið eftir hverjum viðmælanda fyrir sig. Allar höfðu þær frá ótrúlega miklu að segja, áhugaverðum sögum um hvernig það hafi verið að koma sér áfram eigandi börn og hvernig það væri að starfa við það sem margir álíta vera karlastarf.

Það sem kom í ljós er að konurnar upplifðu kröfur úr samfélaginu svolítið þannig að móðurhlutverkið hefði meira vægi heldur en starfsframinn og þær ættu frekar að vera heima að sinna börnum og heimili. Það eru svolítið gamlar hugmyndir fólks og einhverjar hefðir sem viðhaldast alltaf þrátt fyrir breytingar í samfélaginu og það þótti þeim erfiðast. Þær upplifðu mikla togstreitu á milli þessara tveggja hlutverka, móðurhlutverksins og krefjandi stjórnunarstöðu sinnar. Þeim þótti því ekkert óeðlilegt við að konur gæfust upp á að klifra metorðastigann því það væri ekkert auðvelt að synda á móti straumnum þegar samfélagið er sífellt að segja þér að passa inn í gamla formið. Þær voru allar ákveðnar í að vilja breyta þessu. Þær vildu að konur gætu átt auðveldari leið upp í stjórnunarstöðu og fannst ekki sanngjarnt að til dæmis atvinnurekendur gerðu alltaf ráð fyrir því að þær sinntu börnum og heimili meira heldur en karlinn. Þeim fannst svoleiðis hugmyndir vera það sem stæði oft í vegi fyrir konum sem væru að sækja sér starfsframa.

Það sem kom mest á óvart í þessu ferli var hversu lærdómsríkt það var. Ég lærði ótrúlega mikið af því að hlusta á og ræða við konurnar. Ég tek allavega mikið með mér eftir þetta ferli og margt sem þær töluðu um sem ég mun tileinka mér úti á vinnumarkaðinum.”

Þess má geta að framundan er áframhaldandi vinna með verkefnið  til að kynna betur þær niðustöður sem fram komu í verkefninu og þess vegna sé takmarkað hægt að greina frá þeim hér að svo stöddu. Við bíðum því spenntar eftir því að fá að heyra meira.

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.