Flestir foreldrar kynnast því einhvern tímann að svefn barnanna þeirra fer úr skorðum.
Vandinn getur til dæmis falist í því að börnin sofna ekki á kvöldin, gráta alla í kaf, vakna oft yfir nóttina eða að þau hreinlega vakna allt of snemma. Góð svefnrútína getur bjargað geðheilsu örmagna foreldra og stundum er tilefni til að leita sér aðstoðar. Það eru ýmsar erlendar vefsíður sem reyndust okkur vel þegar við vorum að svefnþjálfa yngsta son okkar og mæli ég sérstaklega með þessari síðu. Það er einnig hægt að panta viðtal hjá svefnráðgjafa á Barnaspítala Hringsins. Það er samt mikilvægt að ganga úr skugga um að ekkert ami að barninu sem valdi svefnvandanum áður en svefnþjálfun er hafin.

Eitt af því sem hjálpaði okkur að gefast ekki upp á svefnþjálfuninni var þessi saga sem
ég rakst á inni á áðurnefndri vefsíðu. Höfundur hennar er óþekktur en hún hitti beint í mark þegar við vorum alveg að gefast upp og okkur fannst drengurinn hafa grátið í marga klukkutíma… sem voru svo bara 10 mínútur. Vonandi gefur hún einhverjum buguðum foreldrum þarna úti smá aukakraft í baráttunni við börnin.

,,OK, svona er staðan. Mamma mín hefur átt mig í næstum því sjö mánuði. Fyrstu mánuðirnir voru æðislegir! Ég grét, hún tók mig í fangið og gaf mér að drekka, hvenær sem er, dag og nótt. Svo gerðist eitthvað. Undanfarnar vikur hefur hún verið að reyna að sofa alla nóttina. Fyrst hélt ég að þetta væri bara eitthvað tímabil, en þetta versnar bara. Ég er búin að tala við önnur börn og þetta virðist vera ansi algengt eftir að mömmur eru búnar að eiga okkur í um það bil 6 mánuði.

Ég veit alveg að þessar mömmur þurfa í raun ekki að sofa, þær eru bara búnar að venja sig á það. Margar þeirra hafa líka haft einhver 30 ár til að sofa og þær þurfa það bara ekkert lengur. Þess vegna setti ég upp plan sem ég kalla ,,Gráttu bara og gráttu”.

 Planið er svona:

Nótt 1: Gráttu á þriggja tíma fresti þar til þú færð að drekka. Ég veit, það er erfitt. Það er erfitt að sjá mömmu þína pirraða yfir því að þú sért alltaf að gráta. Mundu bara að þetta er henni fyrir bestu!

Nótt 2: Gráttu á tveggja tíma fresti þar til þú færð að drekka.

Nótt 3: Gráttu á klukkutímafresti. Flestar mömmur fara að bregðast fyrr við á þriðju nótt.

Sumar mömmur eru erfiðar og gætu þurft lengri tíma. Þessar mömmur standa kannski í hurðinni í marga klukkutíma og sussa. Ekki gefast upp! Ég get ekki ítrekað það nógu mikið. ÞRAUTSEIGJA ER LYKILATRIÐI!! Ef þú leyfir henni að sofa alla nóttina, þó það sé bara einu sinni, mun hún vilja það allar nætur.

ÉG VEIT AÐ ÞETTA ER ERFITT!
En hún þarf í alvörunni ekki að sofa, hún er bara að mótmæla breytingunni.

Ef þú átt mjög erfiða mömmu geturðu prófað að hætta að gráta í svona 10 mínútur, bara
nógu lengi til að hún geti farið aftur upp í rúm og sofnað.
Þá skaltu fara aftur að gráta.

Þetta MUN virka á endanum. Mamma mín vakti einu sinni í 10 klukkutíma í einu þannig að ég veit að hún getur það. Í gærkvöldi grét ég til dæmis á klukkutíma fresti. Þú þarft bara að ákveða að gefast ekki upp. VERTU ÁKVEÐINN! Ég grét út af öllu mögulegu sem mér datt í hug. Sængin mín kitlaði mig í fótinn. Lakið var krumpað. Spiladósin mín myndaði skugga á veggnum. Ég ropaði og það bragðaðist eins og perur. Ég hafði ekki borðað perur síðan í hádeginu! Hvað er að frétta með það? Kötturinn sagði “mjá”. Ég ætti að vita það. Mamma mín segir mér það 20 sinnum á dag!

Einu sinni grét ég af því að mér fannst svo gaman að heyra bergmálið í barnapíutækinu í stofunni. Mér var of heitt, of kalt, allt var mátulegt – það skiptir ekki máli! Haltu bara áfram að gráta!! Það tók tíma en það virkaði. Hún gaf mér að drekka kl. 4 um nóttina. Markmiðið mitt fyrir næstu nótt er að fá að drekka kl. 3.30. Þú þarft hægt og rólega að stytta tímann á milli til að endurstilla innbyggðu klukkuna í mömmu þinni.

Stundum kallar mamma mín á liðsauka og sendir pabba inn. Enga áhyggjur, pabbar eru ekki forritaðir eins og mömmur með svefninn. Þeir geta líka bara höndlað nokkur skipti af sussi áður en þeir játa sig sigraða og senda mömmuna aftur inn.

Passaðu þig líka á Sleep sheep bangsanum með regnhljóðunum. Mér finnst fínt að plata mömmu og láta hana halda að ég sofni við þessi hljóð. Ég loka augunum og þykist sofa þar til ég sé að hún er alveg að sofna aftur, þá hendi ég í eitt grenjukast. Ef hún kemur ekki að að sækja mig nógu fljótt þá þykist ég hósta og kúgast sem fær hana alltaf til að hlaupa til mín.

Ég veit að hún mun einhvern tímann átta sig á því að hún þarf engan svefn.

E.S. ekki láta þau plata þig með þessum gúmmítúttum, sama hvað þú sýgur þær lengi,
það kemur engin mjólk. Trúðu mér!”

 

 

Hafdís Bergsdóttir
Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.

Author: Hafdís Bergsdóttir

Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.