Að fara í atvinnuviðtal getur heldur betur tekið á taugarnar og fiðrildin í maganum. Ekki má þó gleyma því að atvinnuviðtöl eru frábær leið til þess að koma sjálfum sér á framfæri hjá drauma fyrirtækinu. Atvinnu viðtal er þó svo mikið meira heldur en þessar 30-60 mínútur sem þú verð í viðtalinu. Að baki vel heppnaðs viðtals liggur mikil vinna og ætlum við að gefa nokkur góð ráð hér fyrir neðan.

KYNNTU ÞÉR FYRIRTÆKIÐ
Mikilvægt er að kynna sér fyrirtækið vel, bæði starfsemi og stefnu. Þú gætir verið spurð(ur) út í starfsemi eða aðra lykilþætti af þeim sem að taka viðtalið við þig. Einnig er það mikilvægur þáttur fyrir þig til þess að átta þig á því hvort að þú hafir spurningar út í starfsemina og hvort að hún henti þínum markmiðum. Oftast nær eru ágætar upplýsingar á vefsíðum fyrirtækjanna og gott er að spyrja aðila sem þekkja til fyrirtækisins.

RÝNDU VEL Í STARFIÐ SEM ÞÚ ERT AÐ SÆKJA UM
Farðu vel yfir starfslýsinguna sem var gerð þegar starfið var auglýst og greindu hana. Ef starfslýsing var ekki til staðar þá er gott að útbúa lista yfir það sem þú vilt vita um starfið áður en til viðtalsins kemur. Þetta er mikilvægur þáttur í að undirbúa sig í samræmi við það starf sem sótt er um.

LÆRÐU FERILSKRÁNA ÞÍNA UTAN AF
Þú ættir að þekkja ferilskrána þína vel en þrátt fyrir það er gott að renna yfir hana fyrir viðtalið. Þú gætir verið spurð(ur) út í fyrri störf, þekkingu, styrkleika og veikleika. Þá er mikilvægt að það sé samræmi í svörum og því sem stendur í ferilskránni.

ÆFÐU ÞIG Á ALGENGUM SPURNINGUM
Hægt er að finna mikið af greinum á netinu um algengar spurningar í atvinnuviðtölum. Taktu þér góðan tíma í að skoða greinar og æfa þig að svara þeim. Annað hvort ein(n) eða með einhverjum sem spyr þig. Vertu þó einnig viðbúin(n) að fá spurningar sem gætu orðið óvæntar. Mörg fyrirtæki eru farin að spyrja spurninga sem eru krefjandi til þess að sjá viðbrögð umsækjenda, almenna þekkingu og hvernig hugmyndaauðgi þeirra er.

HVERNIG NÝTAST ÞÍNIR STYRKLEIKAR Í STARFINU?
Farðu yfir þína styrkleika. Hvernig nýtast þeir í þessu starfi? Paraðu saman þína styrkleika við starfslýsinguna og stefnu fyrirtækisins.

TAKTU TIL ÞAU GÖGN SEM ÞÚ VILT TAKA MEÐ Í VIÐTALIÐ
Það er misjafnt hvaða gögn umsækjendur vilja taka með í viðtalið. Góð regla er að taka með útprentaða ferilskrá, kynningarbréf og punkta með spurningum sem þú vilt spyrja um. Stressið getur tekið yfir og það er leiðinlegt að gleyma mikilvægum spurningum eða einhverju öðru sem þú telur vera mikilvægt að vita.

HLUSTAÐU OG SPYRÐU SPURNINGA
Síðast en alls ekki síst er að hlusta vel og spyrja spurninga. Það að spyrja spurninga sýnir einlægan áhuga á starfinu. Að sýna einlægan áhuga á starfi getur verið lykilþáttur í því að fá annað viðtal, og jafnvel landa starfinu.

Atvinnuviðtöl hafa verið að þróast mikið síðustu árin og hjá fyrirtæki sem er með vel skilgreinda mannauðsstefnu er mjög líklegt að ráðningar stefnan sé einnig vel skilgreind. Þá er verið að leita eftir einstaklingum með ákveðna þekkingu og einkenni sem að passar vel inn í fyrirtækja menninguna. Það er því einnig þitt að spyrja og ákvarða hvort að sú menning og þær kröfur sem gerðar eru falli að því sem þú leitast eftir. Ekki er ólíklegt að þú fáir einhverskonar verkefni eða þurfir að fara í persónuleika próf ef sóst er eftir sérfræði eða stjórnenda störfum. Því er, eins og kemur fram hér að ofan, mikilvægasti þátturinn að undirbúa sig vel, og hafa gaman af ferlinu. Ef þér finnst þú þurfa að fá aðstoð sérfræðinga þá eru margar ráðningarstofur sem bjóða upp á slíka aðstoð.

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.