Hlédís Sveinsdóttir er búsett á Akranesi og starfar sjálfstætt sem verkefnastjóri. Hún hefur komið víða við og sinnt fjölbreyttum verkefnum af ýmsum stærðum og gerðum til dæmis í fjölmiðlum, bæjarhátíðum og með ráðuneytum. Að leita leiða til að brúa bilið á milli framleiðenda og neytenda þegar kemur að mætvælum hefur verið henni hugleikið og hafa mörg verkefnin hennar einmitt tengst því.

Það var í grenjandi rigningu eitt fimmtudagskvöld á Akranesi þegar ég settist niður með Hlédísi á Lesbókinni og fékk að heyra söguna hennar. Það lék enginn vafi á því að hér var um að ræða reyndan sögumann sem hafði marga fjöruna sopið.

ALLTAF EINHVER SVEITAVARGUR Í MÉR.

„Eftir því sem maður verður eldri þá gerir maður sér betur grein fyrir því hvaða sérstöðu maður hefur eða hvað skapar persónuleika manns. Ég myndi alltaf lýsa mér sem svona náttúrubarni en ég er fædd og uppalin á Snæfellsnesi. Æskan mín þykir eflaust í dag sérstök en ég elst upp á blönduðu búi með ungum foreldrum sem voru aðeins um kynþroskaaldrinum eldri en ég. Því fylgdi ofboðslegt frelsi að alast upp í sveit, með nóg af ást og umhyggju og svo fékk ég fullkomið frelsi til athafna sem vissulega endaði stundum með ósköpum. Það er auðvitað tvennt ólíkt að alast upp í sveit og í þéttbýli. Það var alltaf eitthvað að gera og ég er mjög þakklát fyrir það að hafa alist upp í sveitinni og hef enn þann dag í dag mjög sterka tengingu vestur. Ég hugsa að ég gæti aldrei þrifist í stórborgum, þó ég gæti alveg séð mig fyrir mér fara út til dæmis í nám í nokkur ár en ég verð að komast í mold og verða þreytt, skítug og svöng í útiverunni. Það er einhver sveitavargur í mér sem bara verður að fá þessa útrás og ég finn meira fyrir þessu eftir því sem ég eldist.“

LÆRÐI HELLING AF ALLS KONAR

„Ég var einu sinni mjög góð í íþróttum ótrúlegt en satt og ég var meðal annars að æfa sjöþraut fyrir Ólympíuleikana með undirbúningshóp en slasaðist í bikarleik í körfubolta og komst ekki að því fyrr en löngu seinna hvað það voru alvarleg meiðsl. Ég fór í íþróttafræði í Fjölbraut í Breiðholti eftir að ég meiddist og ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að mér fannst ég einhvern veginn aldrei finna mig í þeirri grein og henti mér því í iðnskólann í hárgreiðsluna. Eftir námið fer ég að vinna á hárgreiðslustofu, síðan er það einn dag að ég er stödd í vinnunni í Smáralind að þá ég fæ þessa sterku þörf fyrir að komast í sveitina. Ég tók mér þá vikufrí og keyrði vestur og endaði á Arnastapa. Þar er maður sem býr fyrir vestan og er skipstjóri. Hann fer að spyrja mig hvað ég sé að gera og ég segi honum að ég hafi bara hreinlega þurft smá frí. Við erum þarna að spjalla þegar það berst í tal að hann hafi nýlega misst hásetann sinn, hvort ég sé ekki með pungapróf. Jú segi ég en þá spyr hann mig hvort ég geti mögulega róið með sér þessa viku á meðan ég væri fyrir vestan.  Hafandi aldrei veitt á netum, aðeins handfærum og þar sem ég stóð var ég allt í einu búin að samþykkja þetta. Þessi vika varð að nokkrum mánuðum og ég fílaði mig í botn. Samstarfið gekk mjög vel og við nýttum styrkleika hvors annars vel. Eftir þetta sumar fór ég í háskóla og lærði þar heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði svo ég snéri í raun aldrei til baka í hárgreiðsluna og hef liggur við verið með tagl síðan. Á meðan á háskólanáminu stóð var ég fyrsti varamaður á dekk hjá nokkrum bátum á Arnastapa og fór í einn og einn róður. Ég man ekki betur en ég hafi skrópað í einhverja fyrirlestra í janúar og febrúar þegar það var mikið fiskerí. Það munaði miklu að geta saxað á námslánin að taka túra á bátnum. Svo útskrifast ég á því herrans ári 2007 og það er ekki löngu seinna sem ég er stödd í ákveðnum banka og fer eitthvað að pexa yfir auglýsingum hjá þeim er varðar vexti, sem ég vildi meina að væri bara sölutrix. Eftir þetta var mér boðin vinna í bankanum, en bankarnir sóttu í starfsfólk úr öllum áttum á þessum tíma. Það var mér svo minnistætt hvernig ég svaraði honum en ég sagði einfaldlega að það myndu nú eflaust ekki borga sig og tæki mig örugglega ekki mikið lengur en korter að setja landið á hliðina. Ég er svo mikið fjármálafífl, mér leiðast peningar. Svo reyndar, korteri seinna, var landið komið á hliðina en þó án allrar aðkomu minnar.“

AÐ BRÚA BILIÐ Á MILLI FRAMLEIÐENDA OG NEYTENDA

„Mig hefur alltaf langað að brúa bilið á milli framleiðenda og neytenda með einhverjum hætti og ég myndi segja að það væri það sem ég brenn fyrir. Hef verið formaður „beint frá býli“ og tók meðal annars þátt í að stofna það. Ég hef verið með matarmarkaði í Hörpu t.d og alltaf haft þennan brennandi áhuga á að við vitum ennþá uppruna matar, að við þekkjum hvað stendur að baki. Einnig finnst mér skipta gríðarlega miklu máli hvað við erum að setja ofan í okkur og mér finnst til dæmis eins og við séum oft á tíðum ekki að vanda okkur nógu mikið varðandi hvað við gefum börnunum okkar. Mér finnst vanta upp á þennan hluta til dæmis bara í heilbrigðiskerfinu okkar, orsök og afleiðing þegar kemur að næringu og hvað við setjum ofan í okkur. Það er rými til bætingar. Mig langar alveg rosalega að við vöndum okkur betur á þessu sviði, hvaðan maturinn kemur, hvað er í matnum. Það er ekki alltaf hægt að mæla bara allt í hitaeiningum. Ef ég mætti alveg ráða hvað ég væri að vinna við, þá væri það þetta. Að setja eitthvað í gang þar sem vakin er upp áhugi barna á mat. Gott dæmi sem ég vitna oft í þegar kemur að þessu, en á hverju vori verð ég helst að komast í sauðburð, á sjó og fá svartfuglaegg. Þetta vorið komst ég aftur á móti ekki að tína egg sjálf svo ég fór í Melabúðina og keypti bakka. Ég fór því næst heim til systur minnar sem býr fyrir sunnan en þar var staddur hópur af börnum á mismunandi aldri. Þarna fékk ég hugmynd og ákvað að spyrja þau hvort þau hefði smakkað svartfuglaegg. Svo var ekki og ég fór að sýna þeim eggin sem öll voru mismunandi á litinn og leyfði þeim að velja sér hvert sitt egg, suðum eggin í 8 mínútur og létum hvíla í 2 og á meðan á þessu stóð fór ég að fletta upp myndböndum á netinu sem sýndu hvernig sigið er eftir þessum eggjum og útskýrði ferlið. Þetta er náttúrulega algjör ofurmatur og bara með þessu ferli að leyfa þeim að velja og fræðast um ferlið og svo auðvitað að smakka að þá fannst þeim þetta alveg magnað. Bara þetta með að kveikja á athyglinni, hvað er matur og hvað býr að baki. Mig hefur alltaf langað að tengja fólk betur við uppruna fæðunnar. En ég er með verkefni í vinnslu tengt þessu ásamt Matarauði Íslands og Matarauði Vesturlands sem ég stýri og  heitir Krakkar Kokka. Þetta verkefni er í samstarfi við atvinnu-og nýsköpunarráðuneytið. Einnig tengt þessu þá fer fram núna 13.október næstkomandi fyrsta svokalla REKO afhendingin á Akranesi en það eru milliliðalaus viðskipti þar sem bændur, sjómenn og hver sá sem er að framleiða mat með leyfilegum hætti og hefur tilskilin leyfi geta selt ákveðnar vörur fyrirfram á Facebook og svo fer fram afhending þennan tiltekna dag. REKO er tekið úr sænsku og er stytting á „vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir.“ Þetta er algjörlega nýtt og spennandi að sjá hvernig þetta tekst til. Mér finnst þetta samtal á milli framleiðenda og neytenda svo mikilvægt og þetta traust.“

EINS MANNS HER

„Mér finnst ég gífurlega heppin að hafa alist upp í sveit, unnið við sjávarútveg og fengið mikið af spennandi verkefnum í hendurnar í gegnum tíðina. Ég var til dæmis aðstoðarmaður þingmanns rétt eftir útskrift og hef fengið að prófa alls konar verkefni þar sem mér finnst ég hafa fengið gluggasýn inn í ýmsa hluti sem er mér mjög dýrmætt. Að auki hef ég verið að sjá um Sauðamessuna, sem er bæjarhátíð sem haldin er á hverju hausti í Borgarnesi. Ég sé svo um Vesturlandshlutann á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem ég fæ tækifæri til að hitta alls konar merkilegt fólk og spjalla. Reyndar er þar galdurinn að þegja og leyfa öðrum að tala sem hefur alltaf verið frekar erfitt fyrir mig. Hlédís er einstæð móðir og hefur þurft að treysta á skilning hjá aðilum sem hún vinnur verkefni fyrir. „Þegar maður er svona eins manns her þá þarf ekki annað en kvefpest og þá er búið að riðla öllum dagsplönum og mér finnst ég einhvern veginn alltaf hafa hitt á fólk sem sýnir manni svo mikinn skilning og traust sem er náttúrulega bara lykillinn af því að ég geti í raun unnið þessi verkefni. Það sem ég hugsa reglulega um og er mjög þakklát fyrir, sérstaklega eftir að dóttir mín fæddist.“ Vinnudagurinn er síðan aldrei eins, þegar maður starfar sem sjálfstæður verkefnastjóri og jafnvel með mörg járn í eldinum á sama tíma að þá er engin föst rútína. Ég er kannski alveg búin að ákveða að vinna í ákveðnu verkefni fyrir hádegi en það þarf ekki annað en símtal vegna annars verkefnis og þá er ég komin á kaf í annað hólf í heilanum og fer að einbeita mér að því. Fórnarkostnaðurinn er hins vegar sá að ég á það til að gleyma alls kyns hlutum og get verið hálf rugluð þegar það er svona mikið að gera.  Ég hef líka alltaf verið frekar gjörn á að segja já, ég man eftir mörgum símtölum sem ég hef fengið þar sem ég hugsa alveg í upphafi já neinei þetta verður aldrei en svo veit ég ekki fyrr en ég er búin að segja já í lok símtals. Stundum er eins og ég þekki ekki neitt „Comfort Zone“ eða það sé hreinlega eitthvað kvalalostadýr inní mér sem segir „Já þetta hljómar mjög óþægilega, gerum það!“ Ef ég hef verið beðin um að taka þátt eða stýra verkefnum sem ég hreinlega hef tök á að stýra, þá hef ég venjulega sagt já. En mér finnst það líka mjög dýrmætt að geta stjórnað mér svona alveg sjálf en það kemur alveg fyrir að ég sakna þess að vera ekki tannhjól í ákveðnu verki á vinnustað, geta spjallað við vinnufélagana í kaffitímanum og haldið uppá bleikan dag í október. Það er nefnilega svo gaman líka og ég hef líka fengið að prófa það. Þá hef ég reyndar iðulega verið komin í starfsmannafélög til að auka fjölbreytnina. Mér finnst alltaf eins og allir geti allt en mér finnst að fólk ætti að gera það sem það brennur fyrir, líkt og hjá mér með matnum eða eitthvað sem manni finnst alveg óendanlega skemmtilegt. En allt fer þetta saman, það sem maður hefur áhuga á hefur maður gaman af. Einnig er ég alltaf að læra að meta það betur og betur hvað það skiptir miklu máli að hafa gaman af lífinu og þar með talið vinnunni, að umkringja sig skemmtilegu fólki.“

DREPFEIMIN ATHYGLISSJÚKLINGUR SEM ÞURFTI AÐ LÆRA AÐ FLOKKA OG SKILA TILFINNINGUM SÍNUM

„Ég er í raun alveg drepfeimin en ég er samt sennilega feimnasti athyglissjúklingur sem sögur fara af. Þetta er svolítið eins og þetta með sjómennskuna og hárgreiðsluna. Andstæður sem togast á og mér finnst skemmtilegt að blanda saman svona ólíkum hlutum. Ég var alltaf mjög kærulaus en varð einhvern veginn mjög hátíðleg eftir að dóttir mín fæddist. Meira að segja gekk svo langt að ég hreinlega missti tökin og hef í raun verið að rækta kæruleysi og húmor alveg síðan. Þegar ég varð ólétt af dóttur minni nokkuð óvænt og við aðstæður sem ég hafði ekki séð fyrir mér, upplifði ég að byrja algjörlega á núlli. Fyrst hætti ég með kærastanum mínum, kemst síðan að því að ég er ólétt og eftir mann sem ég vissi ekki allar forsendur með og til dæmis að hann muni ekki koma til með að taka þátt í uppeldinu. Einnig var ég með rekstur en ég rak búð í Reykjavík sem gekk á þessum tíma mjög vel og þar verður ákveðinn forsendubrestur. Svo verða mistök í fæðingu dóttur minnar. Allt þetta verður til þess að búa til mikið af tilfinningum þar sem ég þurfti hreinlega að fara í svona flokka-skila ferli. Að taka staka tilfinningu útaf fyrir sig, hvar ætla ég að staðsetja þessa tilfinningu og hvernig ætla ég að ganga frá henni þannig að hún hvíli ekki á bakinu á mér bara alltaf. Ég var alltaf einhvern veginn búin að sjá framtíðina fyrir mér, að húsið mitt væri með hvítt grindverk,  viskastykkið væri í stíl við gardínurnar og svo ætlaði ég alltaf að eiga stórt eldhús með svona eldhúsbekk. Ég ætlaði aldrei að eiga barn á þessum forsendum og það er líka bara svolítið gott á mann sjálfan. Ég tók ákvörðun um að eiga og það er sú ákvörðun sem ég er stoltust af – af öllu.“ Hlédís segir mikilvægt að geta viðurkennt vanmátt og leitað sér hjálpar. „Ég átti líka erfitt eftir að hún fæddist og ég er stolt af því að hafa leitað mér viðeigandi hjálpar og mér finnst að við eigum að vera miklu duglegri við að ræða það og þessi tenging á milli andlegrar og líkamlegrar líðan. Ef manni líður eins og það sé eitthvað sem er að sjúga úr manni orkuna þá geta sérfræðingar eins og til dæmis sálfræðingar verið svo frábærir til að hlusta, stoppa í götin og mögulega benda á ákveðnar hugsanavillur sem maður er að glíma við. Ég tala mikið um að flokka og skila þegar kemur að tilfinningum. Það er ósköp eðlilegt þegar maður lendir í áföllum að vera tættur á eftir og þá er alltaf ein leiðin að verða fórnarlamb. Þetta getur til dæmis verið allt frá því að einhver bakkaði á bílinn þinn en okkar vopn verður alltaf að vera hvernig við tökum á hlutunum. Núna er ég oft að hugsa hvernig gamla kærulausa Hlédís hefði tekið á hlutunum og þannig reyna að passa mig að taka lífinu ekki of alvarlega.“

ALLIR DAGAR BYRJA Á MORGUNKNÚSI

En hvað skildi vera framundan hjá Hlédísi? „Ég nýt þess í botn að vera með dóttur minni, ég reyni að passa mig eins og á morgnana að vera ekki í þessum asa og að reka á eftir. Til dæmis byrja allir dagar hjá okkur á morgunknúsi og lífið er svo mikið núna. Auðvitað fæ ég sektarkennd eins og allir foreldrar yfir því hvað ég er að vinna mikið en við tökum okkur til reglulega, förum í sveitina og skítum okkur út saman. Við erum báðar svona náttúru- og dýrasjúkar. Hún er duglegasta manneskja sem ég þekki – hún dóttir mín.“

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.