Nú þegar farið er að kólna úti erum við farnar að huga að haustinu og öllu sem því fylgir. Kaldara loft gerir okkur mörgum erfiðara fyrir að eiga góða hárdaga, enda er rigningin, haglélið og snjórinn sem við getum séð allt sama daginn ekki mikið að hjálpa okkur. Ég fékk hana Aldísi Evu Ágústdóttur hársnyrtimeistara á hárgreiðslustofunni Blondie til þess að svara nokkrum spurningum um hárumhirðu, fallegt hár og góða hárdaga.

 

Hefur það áhrif á hárið á okkur að búa við svona mikla veðrabreytingu eins og við gerum á Íslandi?
Allt veðurfar hefur áhrif á hárið á okkur, mikil sól þurrkar hárið, hárið verður oft mjög rafmagnað í miklu frosti en það fer auðvitað mikið eftir því hvernig hártegundin er. Ísland er auðvitað með mjög breytilegt veðurfar og er því mikilvægt fyrir okkur að hugsa vel um það.

Þurfum við að hugsa öðruvísi um hárið á okkur á veturna en sumrin?
Við þurfum alltaf að meðhöndla það rétt eftir veðrabreytingu, en þó aðallega eftir hártegund. Á sumrin er alltaf gott að huga að raka og góðri vörn fyrir hárið á okkur og á veturna þurfum við að stjórna rafmagninu sem frostið getur myndað.

Hverju þurfum við að huga að þegar kemur að hárumhirðu í vetur?
Notast við vörur og aðferðir sem henta þinni hártegund er mikilvægt. Það er mjög gott að spyrja fagaðila um aðstoð, við erum alltaf tilbúin til þess að hjálpa og leiðbeina fólki.

Það er líka gott að hafa í huga núna þegar við förum að nota húfur og hatta meira, að þurrka hárið í rótinni eftir þvott til þess að koma í veg fyrir þurrk, flösu eða jafnvel myndun sveppasýkingu. Þeir sem eru með þykkt og mikið hár eiga það til að fá flösu og þurrk en það er hægt að fá sjampó og efni sem geta haldið því niðri en eins getur það að loka rakann inni við hársvörðinn myndað sveppasýkingu, t.d. húfur, hattar eða einfaldlega þykkt og mikið hár.

Hverjar eru þínar uppáhalds hárvörur og hvers vegna?
Ég elska vörurnar frá Davines og Label.m. Það er svo góð lykt af þeim, þær eru ekki mjög dýrar og geta flestir fundið vörur sem henta þeim.

Hvaða hárvörur kaupir þú aftur og aftur?
Ég kaupi alltaf OI línuna frá Davines aftur, sjampó, hárnæringuna og mjólkina, eins á ég alltaf brúsa af Texturing Volume sprey frá Label.m. – það gefur mér marga góða hárdaga!

Hvert er leyndarmálið á bakvið fallegt hár?
Góð umhirða er lykilatriði þegar kemur að fallegu hári. Það að nota gott sjampó og hárnæringu sem henta þinni hártegund, nei ég get ekki sagt það nógu oft. Gott er að þvo hárið tvisvar til þrisvar í viku og nota sjampó tvisvar í hvert sinn til þess að ná öllum óhreinindum úr hársverðinum. Hárið á okkur byggist upp á próteinum og er  því einnig mikilvægt að viðhalda því, hægt er að fá próteinsprey og krem sem gott er að notast við til þess að styrkja hárið. Hárið á hverjum og einum er mjög mismunandi og erum við að vandræðast með jafn mismunandi hárvandamál, ef þú færð hjálp við að finna vörur sem henta þínu hári mun það skila sér í vel hirtu og fallegu hári.

Í lokin, ertu með góð ráð til þess að hárgreiðslan haldi sér allan daginn?
Texturing Volume spreyið frá Label.m. klárlega! Það gefur hárinu góða fyllingu en um leið er mjög gott hald í því. Þó er alltaf gott að spreyja smá hárlakki yfir í lokin sem svona loka “touch”.

 

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.