Hreyfing og hollt mataræði á meðgöngu

Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og ættu lang flestir vita það hversu mikilvægt það er að lifa heilbrigðum lífsstíl þ.e. borða hollan mat, hreyfa sig, fá nægan svefn og hugsa um andlegan líðan. Þetta á auðvitað við um alla og þá sérstaklega um barnshafandi konur. Bæði regluleg hreyfing og hollt mataræði getur gegnt lykilatriði í góðri meðgöngu og útkomu hennar og því er vert að fjalla aðeins um mikilvægi hreyfingar á meðan meðgöngu stendur.

Á meðgöngu gegnir hollt mataræði mikilvægu hlutverki fyrir þroska og heilsu fósturs og ætti meðgangan að vera sá tími sem konur bæta bæði mataræði sitt og lífsstíl. Mikilvægt er að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl á meðgöngu með því að neyta næringarríkrar fæðu og stunda reglulega hreyfingu. Barnshafandi konur ættu með bestu getu að borða fjölbreytta og holla fæðu, ekki einungis að bæta eigin heilsu, heldur einnig til að stuðla að góðri heilsu barna þeirra. En þess má geta að  hollt og gott mataræði móðurinnar minnkar til að mynda hættu á að börnin þrói með sér heilsukvilla seinna á lífsleiðinni.

Algengt er að konur finni fyrir ógleði á meðgöngunni, en talið er að átta af hverjum tíu konum upplifi einhverja ógleði á meðgöngunni og þá helst á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Fyrir konur sem finna fyrir ógleði er þó mikilvægt að þær reyni borða yfir höfuð til að barnið fái næringu. Nokkur ráð til að minnka ógleðina eru t.d. að borða snarl snemma morguns í rúminu (t.d. hafrakex), drekka nóg af vatni yfir daginn, borða litlar máltíðir og taka inn Bog sink. Ber vítamín sem hjálpar til við myndun rauðra blóðkorna og er talið minnka morgunógleði hjá barnshafandi konum. Vítamínið er helst að finna í kjúklingi, fiski, bönönum og rúsínum. Sink er steinefni sem fæst í fæðu eins og engiferi, fiski og spínati. Mikilvægt er einnig að hvíla sig vel.
Hver og ein meðganga er þó að sjálfsögðu ólík og algjörlega einstaklingsbundið hvað hentar hverri og einni konu.

Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt fram á að regluleg hreyfing á meðgöngu sé jákvæð fyrir bæði vellíðan bæði móður og barns. Regluleg hreyfing getur jafnframt dregið úr líkum á að barnshafandi konur þrói með sér ýmsa meðgöngutengda kvilla og sjúkdóma en hreyfing á meðgöngu eykur hreysti og er góð leið til þess að undirbúa líkamann fyrir fæðingu. Konur sem eru í góðu líkamlegu formi eru sagðar geta verið betur undirbúnar fyrir álagið sem fylgir fæðingunni. Þess má einnig geta að rannsóknir benda til þess að hreyfing á meðgöngu geti minnkað fæðingartíma og dregið úr líkum á því að þurfi að grípa inn í fæðinguna. Rannsóknir sem snúa að hreyfingu á meðgöngu hafa sýnt fram á bætt sjálfsöryggi, andlegan líðan og svefn barnshafandi kvenna. Regluleg hreyfing á meðgöngu bætir þá jafnframt heilsu hjá bæði móður og barni en viðeigandi æfingar eru taldar minnka líkur á fylgikvillum á meðgöngu eins og meðgöngusykursýki. Talsverðar líkur eru á að lífsgæði móðurinnar aukist til muna, en hreyfing er sögð draga úr bakverkjum, þreytu, bóðlgumyndun, bjúgsöfnun og æðahnútum.

Líkt og sjá má í þessari grein þá eru ávinningar hreyfingar á meðgöngu ótal margir og því hvet ég allar konur sem ganga með barn að vera ekki of hræddar við það að hreyfa sig á meðgöngunni. Ég hvet þó allar konur til þess að hreyfa sig í samráði við sína ljósmóður og/eða lækni og tala við sérfræðing áður en haldið er af stað í hreyfingu. Það er ekki sama hvers konar hreyfing er stunduð á meðgöngu, en hún þarf að vera þess eðlis að hún er fullkomlega áhættulaus bæði fyrir móður og barn.

Hver og ein kona þarf að hlusta á líkama sinn og lækni og/eða ljósmóður þegar kemur að hreyfingu á meðgöngu og finna það sem virkar fyrir hana. Það skiptir máli hvernig hreyfing er stunduð á meðgöngu en í næstu viku mun ég skrifa um nokkrar almennar ráðleggingar um viðeigandi hreyfingu á meðgöngu sem ég vona að muni koma til með að nýtast ykkur vel.

Eyrún Reynisdóttir
Eyrún er 26 ára fædd og uppalin á Akranesi. Eyrún er útskrifuð með BS.c. í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS.c í Markaðsfæði og alþjóðaviðskiptum frá Háksóla Íslands. Eyrún hefur víðáttumikla þekkingu og reynslu á sviði heilsuræktar og hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur heilbrigðu líferni.

Author: Eyrún Reynisdóttir

Eyrún er 26 ára fædd og uppalin á Akranesi. Eyrún er útskrifuð með BS.c. í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS.c í Markaðsfæði og alþjóðaviðskiptum frá Háksóla Íslands. Eyrún hefur víðáttumikla þekkingu og reynslu á sviði heilsuræktar og hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur heilbrigðu líferni.