Þar sem ég hef mikinn áhuga á skipulagi fannst mér tilvalið að taka það fyrir hér í minni fyrstu færslu sem höfundur hjá framinn.is. Ég hef lengi talað um skipulag á mínum samfélagsmiðlum og því gaman að fá að koma mínum hugleiðingum í sambandi við það og annað í færslur. Mér finnst mikill heiður að fá það tækifæri að vera hluti af svona flottu teymi. Konur sem fræða og hvetja aðrar konur áfram.

Þegar ég hitti stelpurnar í fyrsta skipti til þess að ræða það að verða hluti af framinn.is barst skipulagið mitt í tengslum við innkaup og vikuskipulagið í tal og fékk ég um leið hugmynd af minni fyrstu færslu. Mig langaði því að deila með ykkur hvernig ég hagræði innkaupum fyrir heimilið og plana vikuna í mat fyrir tímann.

Innkaupalisti

Eftir að ég flutti að heiman alveg ein fannst mér ég þurfa að koma upp einhverskonar skipulagi til þess að sjá um matarinnkaupin. Það er ákveðin kúnst að kunna að versla rétt inn fyrir heimilið þannig að maturinn nýtist sem best. Sérstaklega þegar maður býr einn.

Það má segja að ég sé af gamla skólanum. Ég get ómögulega tamið mér það að nota öpp, síma eða annað til að skipuleggja mig.
Ég ákvað að halda innkaupalista yfir vikuna fremst í dagbókinni minni. Hann fyllti ég svo reglulega inn í gegnum vikuna og verslaði yfirleitt inn á föstudögum.

Ég valdi föstudagana þar sem að ég vann á mínum unglingsárum í verslun og á fimmtudögum og föstudögum er verið að fylla á fyrir helgina og því flest ferskt og með góðum dagsetningum.

Mér finnst ótrúlega mikilvægt að gera innkaupalista. Þannig kemst maður hjá því að versla hluti sem eru til nú þegar á heimilinu og þannig eru minni líkur að maður kaupi óþarfa.
Innkaupalistann hugsa ég sem vikuinnkaup. Með því að hugsa hann sem vikuinnkaup spara ég mér ferðir í búðir yfir vikuna.

innkaupalistinnminn

Hver kannnast ekki við umræðuna ,,hvað á að vera í matinn” ?

Þegar ég kynntist kærastanum mínum varð heldur betur breyting á lífinu og erfiðasta ákvörðun dagsins varð að ákveða hvað ætti að vera í matinn. Eins og þessi ákvörðun hljómar smávægileg og einföld. Ég held að flestir tengi.
Oft var ákvörðun tekin ansi seint sem varð til þess að kvöldmaturinn endaði í seinna lagi eða það var gripið í það að kaupa næsta holla skyndibita.

Ég verð hálf ómöguleg þegar það er ekki góð rútína á hlutunum og tók þetta því í mínar hendur og byrjaði að skrifa niður matseðil fyrir hverja viku til þess að sjá hvort það myndi ekki koma til góðs.

Matseðillinn

Á fimmtudögum geri ég matseðil í samræmi við kærastann minn fyrir vikuna og fylli út innkaupalistann í takt við það og það sem vantar á heimilið þannig allt sé tilbúið fyrir innkaupaferðina daginn eftir.

Matseðilinn er alls ekki heilagur þar sem að dagarnir geta oft breyst og þá aðlaga ég í samræmi við það en það er gott að hafa hann sem viðmið. Þannig verður þetta líka góð samvinna. Ef ég kem til dæmis seinna heim getur kærastinn minn byrjað að elda matinn því allt er til alls.

Þetta fyrirkomulag hefur gengið það vel að það er að ganga í tvö ár sem við höfum gert matseðilinn.

Ég byrjaði að skrifa þetta niður á miða og festi upp á ísskápinn með segli. Seinna eignaðist ég svo skipulagssegul á ísskápinn minn sem ég fékk að gjöf frá prentsmidur.is. Eftir að ég flutti svo í eign með innbyggðum ísskáp fékk ég að hanna mitt eigið skipulag með þeim í ramma sem er með öðrum skemmtilegum gluggum fyrir skipulag sem mér finnst gott að hafa til staðar.

skipulagið

Vona að skipulagið mitt komið ykkur til góðs.
Megið endilega deila með mér á instagram (alesif) ef að þið prufið ykkur áfram með það.

Hlakka til að deila fleiri ráðum með ykkur hér.
Ale Sif

Alexandra Sif Nikulásdóttir
Alexandra er oftast kölluð Ale eða Ale Sif. Hún er 30 ára og er búsett í Garðabænum ásamt kærastanum sínum. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá FitSuccess síðastliðin níu árin og er einnig förðunarfræðingur.
Alexandra átti farsælan feril í Fitness keppnum fyrir nokkrum árum síðan sem leiddu til þess að hún hélt uppi vinsælu bloggi og skrifað dálk í blöðin um heilsu og hreysti.
Hún hefur brennandi áhuga á heilbrigðum lífsstíl, skipulagi og förðun svo eitthvað sé nefnt.

Author: Alexandra Sif Nikulásdóttir

Alexandra er oftast kölluð Ale eða Ale Sif. Hún er 30 ára og er búsett í Garðabænum ásamt kærastanum sínum. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá FitSuccess síðastliðin níu árin og er einnig förðunarfræðingur. Alexandra átti farsælan feril í Fitness keppnum fyrir nokkrum árum síðan sem leiddu til þess að hún hélt uppi vinsælu bloggi og skrifað dálk í blöðin um heilsu og hreysti. Hún hefur brennandi áhuga á heilbrigðum lífsstíl, skipulagi og förðun svo eitthvað sé nefnt.