Hefur þig langað til að eignast hnífapör eins og þú færð á flottustu veitingarhúsum heims? Danska fyrirtækið Table Noir hefur nú kynnt enn ein hnífapörin sem að þessu sinni eru sérhönnuð fyrir veitingastaðinn Barr í Kaupmannahöfn.

Hnífapörin eru fáanleg í tveimur útgáfum, í mattri satínáferð og steinþvegin líkt og finnast á veitingastaðnum Barr í Kaupmannahöfn.

Ár hvert fer Table Noir á stúfana í leit að bestu veitingahúsum heims til að sérhanna falleg hnífapör sem síðar eru seld í útvöldum verslunum. Þannig fá allir möguleikann á því að dekka upp borð heima hjá sér eins og á sönnum háklassa veitingastað.

Á síðasta ári valdi fyrirtækið Michelin-veitingastaðinn 108, sem þeirra samstarfsaðila. Í sameiningu varð útkoman stórkostleg og endaði sem útstilling á Designmuseum Danmark í félagsskap annara þekktra klassískra húsgagna og fylgihluta.

Í ár eru það engir aðrir en gúrme veitingastaðurinn Barr sem urðu fyrir valinu. Fagurleikinn leynir sér ekki á staðnum og stemningin er góð. Table Noir vann að verkefninu með norska arkitekta- og hönnunarfyrirtækinu Snøhetta þar sem áhersla var lögð á sérstakan arkitektúr staðarins í bland við notalegt andrúmsloft sem er mikilvægt fyrir staðinn Barr – allt þannig að gestunum líði sem best.

Það eru engar beittar hliðar á hnífapörunum sem eru með mjúkar og ávalar línur.

Hnífapörin eru einnig hönnuð með fortíðina í huga, þau eru steinþvegin líkt og þau hafi verið í notkun í áratugi – eitthvað sem maður þekkir frá gamalli tíð og vekur upp minningar. Þannig blandast tilfinningin um afturhvarf við fullkomnleika og besta efnisvalið.

Það sem gerir hnífapörin sérstök er rúnningur þar sem vísifingur hvílir mjúklega. Eins eru þau með flatt undirlag svo þau liggja vel á borði og koma ekki til með að vagga. Myndir // Table Noir.
Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.