BIOEFFECT vörumerkið könnumst við flest við en það meðal annars stendur á bakvið hina sívinsælu EGF húðdropa. Á bakvið vörurnar er mikil vinna og mögnuð vísindi. Við náðum tali af Ástu Pétursdóttur, vörumerkjastjóra hjá fyrirtækinu og fengum að heyra meira um fyrirtækið, vörurnar og hvað liggur að baki.

Saga BIOEFFECT hófst með stofnun ORF Líf­tækni árið 2001 en fyrirtækið var stofnað af þrem­ur vís­inda­mönn­um, þeim dr. Birni Örvari, dr. Einari Mäntylä og dr. Júlíusi Kristinssyni. „Þeir þróuðu fyrstir allra aðferð til að framleiða endurgerðir af sértækum prótínum í byggplöntum sem mætti nota við læknisfræðilegar rannsóknir. Þessa byltingarkenndu aðferð notuðu þeir síðar til að framleiða EGF (Epidermal Growth Factor) í byggi fyrir húðvörur,“ segir Ásta, en það var árið 2009 sem þeir settu á laggirnar vörumerkið Sif Cos­metics sem í dag heitir BIOEFFECT og fyrstu EGF-húðdroparn­ir komu á markað í maí 2010. ORF Líftækni hefur svo aldeilis vaxið á undanförnum árum. Fyrirtækið flutti í nýjar höfuðstöðvar á síðasta ári, en þær eru sérsniðnar að starfsemi fyrirtækisins. Í dag starfa um 70 manns hjá fyrirtækinu á hinum ýmsu sviðum.
Markmið BIOEFFECT er að endurvekja og viðhalda náttúrulegum ungleika húðarinnar með hreinum, virkum innihaldsefnum og nota líftækni til að ná framförum á sviði húðvara. „Áskorunin felst í því að skilja hvað húðfrumur þurfa til að starfa sem best og hvernig við getum útvegað þeim þessi nauðsynlegu efni,“– segir Ásta okkur.

EINSTAKUR ÁRANGUR
EGF, eða Epidermal Growth Factor, er einn af fjölmörgum frumuvökum sem fyrirfinnast náttúrulega mannslíkamanum og sá þeirra sem er hvað mikilvægastur fyrir húðina. Hann hvetur húðfrumur til að auka framleiðslu kollagens og elastíns og til að halda betur í raka. Það skilar sér í þéttari, heilbrigðari og unglegri húð. Frumuvaki þessi var fyrst uppgötvaður af teymi erlendra vísindamanna, en fyrir þá uppgötvun hlutu þeir Nóbelsverðlaun árið 1986. Magn EGF í húðinni er hvað mest við og eftir fæðingu en með aldrinum minnkar það smám saman. Viðgerðarhæfni húðarinnar minnkar, hún þynnist og verður lausari í sér þannig að fínar línur og hrukkur byrja að myndast. Þéttni húðarinnar minnkar um 1% á hverju ári eftir tvítugt og minnkar enn frekar, eða um allt að 30%, í kringum breytingarskeiðið,“– segir Ásta og heldur áfram. Ýmis atriði geta þó haft áhrif á hversu hratt við eldumst, svo sem lífstíll, mataræði og svo auðvitað húðumhirða. Frábær árangur húðmeðferðar með EGF hefur margsinnis verið vísindalega sannaður. Sýnt hefur verið fram á ótrúlega virkni BIOEFFECT EGF Serum í óháðum rannsóknum þar sem lyfleysa var notuð á móti virka efninu. Samkvæmt þeim niðurstöðum þykknaði húðin um 60% og þéttleiki hennar jókst um 30% við notkun BIOEFFECT EGF Serum. Slíkur árangur þykir algjörlega einstakur í snyrtivöruheiminum.

FER ÖRT VAXANDI
Eitt af því sem gerir BIOEFFECT einstakt er að vörurnar eru íslenskar og framleiddar á Íslandi. Vörumerkið er nú orðið býsna þekkt erlendis og selt í sérverslunum í 28 löndum um allan heim. Vinsældir varanna eru gríðarlegar og mikið hefur verið fjallað um þær í erlendum glanstímaritum, einkum þeim sem fjalla um tísku og snyrtivörur, auk þess sem vörurnar hafa unnið til fjölda verðlauna. „Fólk er svo spennt fyrir eyjunni okkar en þó er helsta sérstaða BIOEFFECT sú að frumuvakar okkar eru ræktaðir í byggi og eru þar af leiðandi afar hreinir. Víða um heim, þó sérstaklega í Bandaríkjunum og Asíu, er að finna önnur vörumerki sem nota EGF en þá er frumuvakinn ræktaður í bakteríum eða dýrafrumum sem mörgum þykir fráhrindandi. BIOEFFECT býður því upp á hreinni og öruggari valkost sem skilar jafngóðum, ef ekki betri, árangri.“

Vinsældir BIOEFFECT hafa farið ört vaxandi undanfarin ár og hið sama má segja um vöruúrvalið. Nú eru vörurnar ellefu talsins, en tvær glænýjar og spennandi hreinsivörur bættust í hópinn nýverið, það er Micellar Cleansing Water og OSA Water Mist. „Stefnt er að því fjölga vörunum enn frekar á næstu árum en flaggskip vörurmerkisins mun þó ávallt vera EGF Serumið en það er tvímælalaust mest selda varan okkar – á öllum mörkuðum.“
„BIOEFFECT vörurnar henta öllum kynjum, húðgerðum og aldurshópum. Gott er að hafa í huga að það er aldrei of snemmt að byrja að nota vörurnar – og aldrei of seint heldur.“– heldur Ásta áfram.

Nú er undirrituð alveg heilluð og spennt fyrir enn frekari nýjungum. „Við erum með margar hugmyndir á teikniborðinu og við vinnum alltaf mörg ár fram í tímann. Stefnt er á að setja nýjar vörur á markað á næsta ári – þar á meðal eina sem beðið hefur verið eftir,“segir Ásta og bætir við: „En gaman er að segja frá því að fyrr í þessari viku hóf snyrtivörurisinn Sephora í Bandaríkjunum sölu á BIOEFFECT á vefsíðu sinni. Við erum afar stolt af þessum áfanga.“

BIOEFFECT er merkilegt vörumerki og vísindin sem liggja að baki afar heillandi. Við munum fylgjast vel með næstu skrefum. Ef þú vilt finna vörur sem henta þér er skemmtilegt próf HÉR sem þú getur tekið en við mælum með að fylgjast með fyrirtækinu á Facebook og Instagram.

Facebook/EGFhudvorur
Instagram/bioeffectofficial

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.