“Hvernig nærðu árangri” er námskeið sem systurnar Edda og Eva Laufey Hermannsdætur standa fyrir þann 13.september næstkomandi í Hátíðarsal Gróttu (Hertz Höllin).

Við fengum að heyra meira um þetta spennandi námskeið sem haldið er fyrir konur, en farið verður yfir helstu atriði í því að koma efni vel á framfæri í fjölmiðlum sem og á öðrum vettvangi. “Við eigum það sameiginlegt að hafa verið frekar ungar að koma okkur á framfæri og stigið vel út úr þægindarammanum. Við ætlum þess vegna að deila okkar reynslusögum, bæði góðum og slæmum og fara yfir þau atriði sem við hefðum gjarnan viljað vita fyrr og gagnast vonandi öðrum konum. Við tökum fyrir ýmis atriði meðal annars það hvernig maður flytur ræðu og fyrirlestur, undirbúningur fyrir sjónvarps- og útvarpsviðtöl, fundarstjórn og greinaskrif meðal annars.” segir Eva Laufey.

“Við erum semsagt systur en ólumst ekki upp saman en höfum farið mjög svipaða leið, vorum báðar í forsvari fyrir nemendafélög og tókum þátt í stúdentapólitíkinni í háskólanum. Síðan byrjuðum við báðar mjög ungar í fjölmiðlum og höfum stutt vel við hvora aðra. Edda byrjaði sem spyrill í Gettu Betur og síðar aðstoðarritstjóri hjá Viðskiptablaðinu og ég byrjaði með mína matreiðsluþætti á Stöð 2. Ég starfa í dag við þáttagerð hjá Stöð 2 og bókaútgáfu og Edda er samskiptastjóri hjá Íslandsbanka svo það fylgir störfum okkar beggja að koma mikið fram. Við deilum líka óbilandi áhuga á kökugerð og höfum setið fram á nætur saman að skoða kökubækur saman sem þykir auðvitað mjög eðlilegt, segir Eva Laufey.”

Við höfum hjálpast mikið að í gegnum tíðina og fengið góð ráð frá fólki í kringum okkur sem við vildum koma á framfæri. Við höfum líka upplifað það sjálfar að konur eru ragari við að koma fram og þurfa oft á tíðum meiri undirbúning. Við finnum það líka núna að það er greinilega mikil eftirspurn eftir svona námskeiði fyrir konur á öllum aldri og í ólíkum störfum. Þetta er ekki aðeins hugsað fyrir þær sem starfa eða vilja starfa í fjölmiðlum heldur konur sem vilja koma efni vel á framfæri og þurfa aukið sjálfstraust til þess. Við höfum oft verið okkar verstu gagnrýnendur og óvissar með hlutina en höfum báðar hugsað “hvað er það versta sem getur gerst?” og það hefur reynst okkur vel við að stíga út fyrir þægindarammann, segir Edda.

“Við vonum að námskeiðið verði létt og skemmtilegt en við munum deila okkar persónulegu sögum sem eru auðvitað misvel heppnaðar. Það verður því líka gert óspart grín að því sem hefur gengið illa enda eru mistök til þess að læra af þeim og nauðsynlegt að taka sig ekki of alvarlega. Síðan segjum við frá því sem hefur betur gengið og hefur reynst okkur vel. Við vonum líka að það verði líflegar umræður og konur fari frá okkur fullar sjálfstraust og með fullt af hagnýtum ráðum.” segir Eva Laufey.

Hægt er að skrá sig með því að senda nafn og kennitölu á netfangið framkomunamskeid@gmail.com.

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.