Alexandra Sif eða Ale Sif eins og hún er gjarnan kölluð er mörgum kunnug þar sem hún heldur úti vinsælum Instagram reikningi, en á þeim vettvangi deilir hún með fylgjendum sínum góðum ráðum þegar kemur að mataræði, förðun, hreyfingu, skipulagi og almennum skemmtilegheitum. Það sem að heillaði mig við Alexöndru er það hversu góð fyrirmynd hún er þegar kemur að því að lifa á skipulegan hátt í því hraða samfélagi sem við lifum í, heilbrigði lífsstíllinn sem hún hefur tamið sér og þeim góða kosti að halda mörgum boltum á lofti í einu, alltaf með bros á vör. 

16174389_1448636571821459_8348314488818400439_nAlexandra Sif er 29 ára gömul úr Reykjavík og er í dag búsett í Garðabæ með kærastanum sínum Arnari Frey, en þau voru einmitt að kaupa sér sína fyrstu íbúð saman og hafa verið dugleg í hreiðurgerð síðustu vikur. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá FitSuccess síðastliðin sjö ár og samhliða þjálfara starfinu er hún sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur. Alexandra átti farsælan feril í Fitness keppnum fyrir nokkrum árum síðan og á þeim tíma opnuðust margar spennandi dyr sem að leiddu hana á þann stað sem hún er í dag. Meðal þess sem hún hóf að gera í framhaldi var að hefja störf hjá FitSuccess sem var þá betur þekkt sem Betri árangur. Alexandra opnaði einnig vinsælt blogg og fékk þá boð um að skrifa dálk í blöðin um heilsu og hreysti. Það má segja að Alexandra sé algjörlega á sinni hillu í lífinu og sé sú týpa sem elskar að hafa nóg fyrir stafni.

 

HVER ER SAGAN Á BAKVIÐ ÞAÐ STARF SEM ÞÚ ERT Í Í DAG?
Árið 2010 ákvað ég að skrá mig í þjálfun hjá Betri Árangri (nú FitSuccess). Á þeim tíma voru þungar lyftingar ekki eins vinsælar og þær eru í dag og margir skyldu ekki af hverju ég væri að fara í slíka þjálfun af því ég var mjög grönn. Ég ákvað að hlusta ekki á þær raddir því að mig langaði til þess að móta líkamann minn betur, byggja mig upp og jafnvel keppa í módel fitness einn daginn.

Þjálfarinn minn hún Katrín Eva hvatti mig til þess að keppa fyrr en áætlað var þar sem ég var með góðan grunn og var fljót að ná árangri. Mér fannst ég loksins hafa fundið eitthvað sem ég gæti orðið góð í og naut að gera, en það að keppa í fitness krefst mikils skipulags og aga og það var eitthvað sem ég er eiginlega master í.
Rúmu ári seinna stóð ég á smá tímamótum með vinnu en ég hafði þá unnið í mörg ár í Make Up Store og var verslunarstjóri þar.
Í kjölfarið skráði ég mig í einkaþjálfaraskóla World Class þar sem ég var með brennandi áhuga á hreyfingu og hollum lífsstíl. Ég heyrði í þjálfaranum mínum áður og hún sagðist mögulega geta boðið mér vinnu að námi loknu. Þannig að ári eftir að ég byrjaði í þjálfun hjá FitSuccess var ég orðin þjálfari þar með Katrín Evu.

HVAÐA HUGARFAR FINNST ÞÉR MIKILVÆGT AÐ BÚA YFIR TIL ÞESS AÐ VAXA OG DAFNA Í STARFI?
fyrst og fremst jákvætt hugarfar og hafa gaman af því sem þú gerir. Þá finnst mér líka mjög mikilvægt að hafa sjálfstraust, að trúa á sjálfan sig og það sem þú ert að gera.

37956637_10156553290490120_4542040035641262080_n

HVERNIG SKIPULEGGUR ÞÚ TÍMA ÞINN TIL ÞESS AÐ TVINNA SAMAN VINNU OG ÞVÍ SEM ÞÚ GERIR Í ÞÍNUM FRÍTÍMA?
Ég er svolítið af gamla skólanum þegar kemur að skipulagi. Hér áður fyrr var ég í rauninni B- manneskja en gekk í gegnum ýmsa hluti í lífinu sem fengu mig til þess að hugsa að mig langaði til þess að gera betur og setja mér einhverja stefnu í lífinu.

Ég fór og keypti mér dagbók, setti mér markmið og tamdi mér meira skipulag.

Síðan þá fer ég á hverju ári að kaupa sömu dagbókina og skipulegg í rauninni hvern dag. Ég kaupi líka alltaf minni bók þar sem ég tek saman reikninga, markmið fyrir hvern mánuð og annað slíkt.

38064102_10156555190105120_8341180445676797952_n

Í upphafi hvers árs set ég mér alltaf markmið aftast í dagbókina mína. Markmiðin eru mörg hver smávægileg en mér finnst gott að skrifa þau niður svo ég hafi þau fyrir framan mig. Í upphafi hvers mánaðar set ég mér svo smærri markmið. Þetta eru oft hlutir sem ég geri öllu jafna eins og að hugsa jákvætt, vera dugleg að hreyfa mig, panta tíma hjá lækni og svona litlir hlutir til þess að hvetja mig áfram og halda mér við efnið.

Stundum set ég mánaðarmarkmiðin fremst í dagbókina, þannig sé ég þau daglega, eða ég jafnvel deili þeim með fylgjendum mínum sem er enn meiri hvatning til þess að standast þau. Ég trúi að með því að skrifa hlutina niður verði þeir frekar að veruleika.

Eitt stærsta markmið sem ég hef sett mér var árið 2015. Ég var heldur brött en mig langaði svo mikið til þess að það yrði að veruleika. Ég ákvað að setja mér það markmið að kaupa mér íbúð en þá var ég einhleyp og því að gera það ein.
Þegar ég fann drauma eignina  í febrúar var ég staðráðin í því að eignast hana, það varð bara einhver tenging þarna strax. Ég skrifaði niður í dagbókina mína sem markmið fyrir mars að ég ætlaði að eignast hana, smá svona “secret”. Viti menn það gekk eftir og ég rammaði inn markmiðið mitt og var með það á hillu þann tíma sem ég bjó þar.

ERTU MEÐ GÓÐ RÁÐ HVERNIG MATARÆÐI GETUR AÐSTOÐAÐ VIÐ ÞAÐ AÐ NÁ BÆTTUM AFKÖSTUM Í STARFI?
Mataræðið er svo ótrúlega mikilvægt, okkar bensín yfir daginn. Ef maður er ekki nægilega duglegur að fylla á tankinn sem sagt að borða og drekka vatn þá getur það skapað hausverk, óþarfa pirring og vanlíðan sem að dregur úr manni kraft og orku.
Það eru svo margir sem að eiga það til að gleyma því að borða þegar mikið er að gera eða það er álag í vinnunni.
Með því að að velja heilsusamlega kosti sem veita þér góða næringu og passa að borða vel og reglulega yfir daginn þá ertu að halda blóðsykrinum jöfnum og halda þér í góðu jafnvegi til þess að geta skilað af þér góðum afköstum í vinnu. Flestir hlægja af mér þegar það kemur að matarskipulagi fyrir vinnuna. Það reyndar breyttist smá þegar við fengum skrifstofu með eldhúsi. En mitt ráð til ykkar sem ekki hafa greiðan aðgang að eldhúsi er að nesta sig. Ég keypti mér mjög hentuga tösku í Söstrene Grene, en ég veit til þess að stærri týpan er oft keypt fyrir leikskóla börn. En það að vera skipulagður og vel nestaður í vinnu er algjör snilld. Oftar en ekki græja ég allan mat kvöldinu áður, set hann í horn í ísskápnum og get því gripið hann með í töskunni daginn eftir. Þetta þarf ekki að vera flókið, t.d. bara að elda örlítið stærri skammt þegar þú gerir kvöldmat og taka með  afgang, skyr, Hámark, smurð flatkaka og svo framvegis.

Hér kemur hugmynd af góðum degi:

Morgumatur: Hafragrautur með hnetusmjöri, rúsínum kókos og epli (hann má elda deginum áður og geyma í ísskáp.

Millimál: ávöxtur

Hádegismatur: Afgangar frá kvöldinu áður

Millimál: Skyr eða Hámark

Millimál: 2x rískökur með hnetusmjöri
– seinnipartsmillimál vill oft gleymast og þá kemur maður svangur heim sem er aldrei góð hugmynd.

Svo má ekki gleyma vatninu. Ég er oft með post it miða við tölvuna þar sem ég merki við hversu mikið vatn ég er búin að drekka yfir daginn.

HVERNIG RÆKTAR ÞÚ ÞIG UTAN VINNU OG HVERNIG AÐSKILUR ÞÚ VINNU OG EINKALÍF?
Mér hefur stundum fundist það smá áskorun að skilja þetta tvennt að þar sem að ég hef seinustu árin verið með opinn Snapchat reikning. Ég færði mig reyndar yfir á Instagram stories á árinu þar sem mér fannst orðið of mikið að vera með báða reikningana opna.
Þar er ég svolítið að sýna mitt daglega líf, hvernig ég skipulegg mig, æfingar,hollan og góðan mat, make up og í rauninni flest eitthvað sem tengist þjálfuninni og því að vera förðunarfræðingur.
Það góða er reyndar að þú stjórnar hvaða efni fer inn á samfélagsmiðla og hvað ekki. Til að mynda tók ég það strax fram þegar ég flutti núna fyrir tveimur mánuðum að ég myndi ekki vilja taka “house tour” sem er mjög vinsælt hjá áhrifavöldum í dag. En þar sem að þetta er ekki bara heimilið mitt heldur kærastans míns líka og mér finnst heimilið vera okkar griðastaður þá tók ég þessa ákvörðun. Þegar ég var einhleyp spáði ég ekki eins mikið í þessu en núna er ég að hugsa um þetta fyrir okkur bæði og mér finnst mikilvægt að eiga sitt persónulega líf líka þó svo að fólk viti kannski meira um mann heldur en aðra. Ég tek stundum daga sem ég set ekkert inn.

Áður fyrr var ég mjög mikill vinnualki þegar ég var ein þangað til að ég keyrði mig út sem fékk mig til að hugsa minn gang. Það urðu líka miklar breytingar við það að byrja í sambandi. Ég fór að hugsa meira um hvað ég vil eyða tíma mínum í og hann Arnar er mjög duglegur við að halda mér á jörðinni og passar að ég taki ekki að mér of mörg verkefni í einu.

Fyrir utan vinnu og samfélagsmiðla hef ég ótrúlega gaman að því að hreyfa mig og þá ekki endilega að mæta í tækjasalinn, heldurm líka að hjóla á racernum mínum og fara út að hlaupa. Mér finnst líka yndislegt að fara út í göngutúra í fallegri náttúru en ég bjó hjá Elliðaárdalnum áður og flutti núna hjá Heiðmörk þannig það er stutt að fara.

Ég elska að ferðast hvort sem að það er innanlands eða erlendis, elda góðan mat og baka. Ég hef líka mikinn áhuga á innanhúss arkitektúr og hef mjög gaman að því að koma mér fyrir á nýja heimilinu.

Mikilvægast af öllu finnst mér svo að eyða tíma með þeim sem mér þykir vænt um.

37849285_10156545792400120_7162099253047721984_n

ERTU MEÐ EINHVER SPENNANDI FRAMTÍÐARPLÖN?
Það eru stöðugar bætingar í gangi hjá FitSuccess en við opnuðum nýtt vefkerfi árið 2016 sem fékk meðal annars verðlaun fyrir besta vefkerfnið á Íslensku Vefverðlaununum 2016.

Við fengum nýlega til liðs við okkur markaðsstjóra sem er að byggja upp samfélagsmiðlana okkar og aðstoða okkur við að miðla þar hvatningu, æfingum og fleiri hlutum tengdum hollum og góðum lífsstíl.
Það var stór draumur fyrir okkur að gera það en okkar helsta markmið er að vera að stöðugum bætingum og er stefnan að opna fyrir nýjungar á næstu árum.

38050962_10156555185715120_8214465149369581568_n

Ale Sif er svo ótrúlega hvetjandi og jákvæð að það er erfitt að brosa ekki og langa til þess að grípa í dagbókina og hlaupaskóna þegar maður fylgist með henni. Það verður gaman að fylgjast með henni gera góða hluti í náinni framtíð. Þeir sem hafa áhuga á því að fylgjast með henni þá eru samfélagsmiðlar hennar hér fyrir neðan.

Instagram: alesif
Facebook: Ale Sif
Þjálfun: Fitsuccess.is
Þjálfun á Instafram: Fitsuccessiceland

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.