Ragnheiður Martha er fyrsta íslenska konan sem fer í sérnám í hjarta- og lungnaskurðlækningum. Hún er rokkari í hjartanu sem lyftir lóðum og byggir sér heimili í skógi í Norður Svíþjóð á milli þess sem hún framkvæmir flóknar aðgerðir á lungum og hjörtum.  

Við hittum Ragnheiði einn sólríkan morgun í Perlunni en hún var stödd á landinu í vikufríi. Hún sagði okkur sína sögu og okkur var það fljótt ljóst að árangur hennar stafar aldeilis ekki af tilviljun.

Ætlaði alltaf að verða læknir
Ragnheiður er fædd og uppalin í Reykjavík, en hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan lá leið hennar í læknisfræði í Háskóla Íslands. „Ég hef alltaf ætlað að verða læknir en amma man eftir mér þegar ég var tveggja eða þriggja ára þar sem ég tilkynnti henni að ég ætlaði að verða læknir þegar ég yrði eldri.“ Eftir læknisfræðina hélt hún ásamt manni sínum í sérnám til Svíþjóðar. „Ég vissi einhvern veginn alltaf að ég ætlaði að verða skurðlæknir, en mér fannst hjartað heillandi líffæri svo ég tók stefnuna í þá átt mjög snemma. Ég flutti fyrst til Uppsala og vann á Hjarta- og lungnaskurðdeildinni við Akademiska Sjukhuset í 6 mánuði. Vegna niðurskurðar gat ég ekki haldið þar áfram og flakkaði þá á milli ólíkra heilsugæslustöðva í Svíþjóð og var heima á Íslandi á Hjarta- og lungnaskurðdeildinni í 2 mánuði áður en ég byrjaði að vinna í Umeå, 8 mánuðum seinna. Í dag býr hún í Umeå ásamt Benjamín Þór manni sínum þar sem hún er í sérnámi í hjarta- og lungnaskurðlækningum við Norrlands Universitetssjukhus.

Hinn hefðbundni dagur
Ragnheiður vaknar fyrir sex alla morgna og byrjar daginn á útiveru með hundinum sínum Rambó. Hún hjólar síðan í vinnunna óháð veðri og er mætt til vinnu rúmlega sjö. „Vinnudagurinn byrjar á morgunfundi þar sem farið er fyrir gjörgæslusjúklingana, atvik næturinnar og svo farið í gegnum skurðprógrammið fyrir daginn. Ég stend í einum til tveimur aðgerðum á dag, ýmist hjarta- eða lungnaaðgerð. Ég er núna farin að gera kransæðahjáveituaðgerðir sjálf og einfaldari lungnaaðgerðir með aðstoð annars sérfræðings, þannig að ef ég er með aðgerð þá hitti ég sjúklinginn minn daginn fyrir og fer yfir aðgerðina með honum. Ef ég er ekki aðal skurðlæknir þá aðstoða ég aðra við þeirra aðgerðir. Þá eru sérstakir hjarta- og lungnafundir á daginn þar sem farið er yfir sjúklinga, ásamt læknum úr öðrum sérgreinum, sem líklegir eru að þurfi aðgerð. Vinnudagurinn er oftast búinn milli 16-17, nema þegar ég er á vakt þá vinn ég í 24 tíma. Þegar ég kem heim fer ég í labbitúr með Rambó og ef ég er ekki sjúklega sigruð þá reyni ég að taka æfingu um kvöldið en ég reyni að æfa þrisvar sinnum í viku. Mig langar að æfa meira því ég var vön að æfa sex sinnum í viku en núna er það ekki í boði, en þegar við flytjum í húsið okkar þá ætlum við að koma fyrir aðstöðu fyrir líkamsrækt í bílskúrnum svo að þà verður tekið almennilega á því aftur. Á kvöldin reyni ég að lesa eitthvað, undirbúa mig fyrir komandi aðgerð eða bara góð afslöppun og horfa á Netflix. Kvöldið endar svo með smá rúnti með Rambó áður en ég fer í rúmið. Um helgar erum við Benni mikið úti að hjóla og núna í sumar syndum við í vatni hérna rétt hjá þar sem við erum að byggja og höfum það notalegt. Við erum líka í mótorkrossi sem er virkilega skemmtilegt og svo er maður rokkari í hjartanu. Við reynum að fara reglulega á rokktónleikahátíðir eða allavega á tónleika og fórum t.d til Noregs í sumar og sáum Ozzy, Alice in Chains, Helloween og fleiri bönd á Tons of Rock tónlistarhátíðinni.“

Mikil nákvæmni og ábyrgð
Starfinu fylgir mikil ábyrgð og krefst gífurlegrar nákvæmni. „Ég þarf til dæmis alltaf að vera í sterílum slopp og hönskum með skurðhúfu og maska og með gleraugu með stækkun. Þetta er bara eitthvað sem venst enda partur af prógramminu. Þetta er minn einkennisbúningur.“ Aðgerðirnar geta líka verið eins mismunandi og þær eru margar. „Til að byrja með lærir maður til dæmis að opna og loka skurðsárinu. Eftir það lærir maður skref innan aðgerðarinnar og svo þegar maður er tilbúinn gerir maður heila aðgerð og setur saman öll skrefin sem maður hefur lært. Fyrstu hjartaaðgerðinar eru kransæðahjáveituaðgerðir og síðan lærir maður að skipta um ósæðarloku og svo taka við enn flóknari inngrip sem maður temur sér í raun ekki fyrr en eftir að sérfræðiréttindin eru komin í hús.  Það sama gildir með lungnaaðgerðirnar, að maður lærir skref innan aðgerðarinnar og setur það síðan saman. Byrja á einfaldari aðgerðum sem síðan verða flóknari eftir því sem líður á þjálfunina.  Stóra breytingin við sérfræðiréttindin er að fara úr því að vera til aðstoðar í aðgerð og yfir í að taka algjörlega yfir mál hvers og eins sjúkling og fylgja því eftir.“ Á Íslandi í dag eru aðeins fjögur stöðugildi í þessu fagi og ásóknin ekki gríðarlega mikil.

„Það virðist fæla fólk frá að þurfa að standa í langan tíma í einu, venjulegar aðgerðir taka kannski um þrjár til fjórar klukkustundir en geta alveg farið í og yfir sex klukkustundir. Ég fann strax að ég vildi standa í svona aðgerðum, í staðinn fyrir að sitja fyrir framan tölvuna til dæmis. Mér líður mjög vel inni á skurðstofu þar sem að maður er alltaf með teymi í kringum sig og umkringdur fagfólki þar sem við vinnum saman að ákveðinni aðgerð, förum svo saman í hádegismat og stöndum jafnvel saman í annarri aðgerð eftir hádegi. Það myndi til dæmis ekki henta mér að vinna sem heilsugæslulæknir alla ævi, þar sem maður er mikið einn inni á stofu með sjúklingana sína. Þetta fer mjög mikið eftir skapgerð og týpu hvað hentar hverjum og einum og sem betur fer höfum við mismunandi áhugasvið.“

Nýtur hverrar stundar
Aðspurð segir Ragnheiður að þau séu afar ánægð í Svíþjóð. „Persónulega finnst mér fólk hér í  Norður-Svíþjóð mun opnara en það sem ég kynntist annar staðar. Fólk tók okkur opnum örmum um leið og við fluttum hingað og okkur leið smá eins og að vera í smábæ úti á landi heima á Íslandi. Í fyrrasumar keyptum við skógarlóð og erum núna í miðjum klíðum við að byggja okkur hús. Við tókum þá ákvörðun að það þýddi ekkert að vera alltaf að hugsa um hvað maður væri langt í burtu og pirra sig yfir fjarlægðinni frá fjölskyldu og vinum og þeirri staðreynd að við erum ekki á Íslandi svo við ákváðum bara að njóta. Ég á eitt og hálft ár til tvö ár eftir af sérnáminu en ég þarf að læra að gera þessar grunnaðgerðir, bæði hjarta- og lungnaaðgerðir áður en ég get sótt um sérfræðiréttindin. Ég þarf að gera um 70 hjartaaðgerðir og 40 lungnaaðgerðir áður en ég get sótt um réttindin. Maður lærir þetta semsagt svolítið skref fyrir skref en núna er ég farin að geta gert öll skrefin sjálf í þessum grunnaðgerðum þó sé alltaf með umsjón. Framtíðin er nokkuð óráðin, en ég er ekki ákveðin hvort ég vilji endilega enda hér. Ég vissi svo sem alltaf að ég þyrfti að fara út til að taka þetta sérnám svo nú einbeitum við okkur að því að njóta hverrar stundar og hugsa ekkert alltof mikið útí framhaldið.“

Góð ráð
Ragnheiður segir allra mikilvægast að vita hvað maður vill gera og stefna ótrauð að því. „Þú þarft að vera mjög ákveðin og vera tilbúin að færa fórnir. Þegar ég hætti snögglega í Uppsala þá var ég ekki með neitt borðfast og framtíðin í óvissu. En ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera og var ekki tilbúin að leggja fyrir mig neina aðra sérgrein og loks fékk ég boð um reynslustöðu hérna í Umeå . Ég gat ekki neitt annað en stokkið á það í von um að fá sérnámsstöðu í framhaldinu. Vinna vel, gera eins vel og ég gæti og það borgaði sig á endanum.  Þessi tími var auðvitað erfiður og stressandi og tók á þolinmæðina að bíða uppá von og óvon hvort maður fengi áframhaldandi stöðu, en þá var bara að setja hausinn undir sig og vinna og hafa augun á markmiðinu mínu og draumnum mínum.“

Áður en við kveðjum Ragnheiði segir hún okkur frá því hvað tekur við eftir vikustoppið á klakanum. „Fyrst og fremst er að klára námið, halda áfram að vinna og þróast, þroskast í starfi og njóta þess að vera til. Er búin að vera að bíða eftir þessu augnabliki að klára þetta síðan ég byrjaði í náminu svo það verður mjög stórt skref að vera orðin sérfræðingur.“

Við hlökkum til að fylgjast með þessari kraftmiklu konu í framtíðinni og við Íslendingar verðum vonandi svo heppin að fá hana til starfa hér á landi einn góðan veðurdag.

 

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.