Fyrr í sumar hittum við fyrir Tom Dixon, einn þekktasta hönnuð samtímans sem staddur var hér á landi í miðbæ Reykjavíkur. Hann var ekki erindslaus, enda hingað kominn til að kynna nýjustu vörur sínar fyrir nýjungagjörnum Íslendingum.

Eins og margir vita, þá hittast helstu fyrirtæki og hönnuðir út um allan heim á sérstökum hönnunarmessum sem haldnar eru árlega. Ein sú vinsælasta og mörgum hverjum finnst vera sú flottasta er sýning sem haldin er í Mílanó á Ítalíu en þangað hefur Dixon ekki látið sig vanta – fyrr en í ár.
Tom Dixon Studio ákvað að skauta framhjá suðrænu heimsborginni Mílanó, fara frekar í þriggja mánaða heimsreisu undir yfirskriftinni „Around the World in 90 days“, og kynna sig í eigin persónu. Hann byrjaði í London og New York, en á listanum eru einnig Singapúr, Toronto, Berlín, Lima, Tókýó, Hong Kong, Casablanca og Reykjavík. Eins stoppar hann í Sidney þar sem hann mun opna nýja verslun.

Í samstarfi við Lúmex hér á landi, var öllu tjaldað til og litrík og metnaðarfull sýning var haldin í hráu rými KEX-verksmiðjunnar. Blaðamönnum landsins var boðið á morgunfund með koparkónginum sjálfum, eins og hann er oft kallaður, þar sem hann fór yfir söguna á því hvernig ævintýrið hans byrjaði, sýndi myndir frá barnæsku sinni og sló á létta strengi. Eins tók hann skemmtilegan vinkil um hönnunarstuldur sem auðvitað er brýn þörf að minnast á þar sem fyrirtæki, stór sem smá, leyfa sér að afrita annars góða hönnun.

Í nýjustu vörulínu Dixons má meðal annars finna MELT ljósið fræga í dularfullum svörtum lit sem dáleiðir augað. Ilmkerti, púða og silfurlitaðan stól sem tekur þig með út í geim, svo „speisaður“ er hann. En þó að sýningin standi ekki lengur yfir hér á landi, þá má finna vörurnar í Lúmex, umboðsaðila Tom Dixon á Íslandi.

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.