Það var í lok maí mánaðar sem 3daysofdesign var haldið hátíðlegt enn eitt árið í stórborginni Kaupmannahöfn þar sem sólin stóð hæst á lofti í glennukeppni. Undirrituð var á staðnum og drakk í sig alla þá vitneskju um nýjar vörur, samtöl við hönnuði og eigendur helstu hönnunarhúsa Dana. Fyrir blaðamönnum er þetta algjör veisla, en hátíðin fer þannig fram að fyrirtæki bjóða í heimsókn í sýningarsali sína þar sem skyggnast má bak við tjöldin og fræðast aðeins meira um fyrirtækin og fólkið sem stendur þar á bak við.
Það er þvi miður ekki auðvelt að hnipra niður í nokkrum orðum og myndum allt það sem fyrir augum bar, enda á nógu að taka. Eitt af því sem var áberandi í gegnum alla dagana voru plöntur í yfirstærðum, lifandi blóm í matnum sem borinn var á borð og eintóm gleði hjá gestum og gangandi.

Dagur 1 – Eigandi FRAMA, Niels Strøyer, bauð heim í mjög svo mínimalíska íbúð þar sem engir óþarfa aukahlutir voru sjáanlegir sem er einkar lýsandi fyrir hans stíl. Verslun hans liggur skammt frá heimilinu og er staðsett í gamla St. Pauls apótekinu, en þar er einnig frábært kaffihús að finna ásamt eldhúshönnun sem FRAMA hlaut einmitt verðlaun fyrir í fyrra. Við heimsóttum líka &shufl, sem eru hálfgerðir „Ikea hackers“ – en fyrirtækið sérhæfir sig í að gera ótrúlega glæsilegar framhliðar á Ikea skápaeiningar.
Strákarnir hjá Please wait to be seated sýndu m.a. nýtt bakkaborð og voru með salinn sinn skreyttan grænum plöntum sem héngu niður úr loftinu, en plöntuísetningar þykja afar móðins í dag og mátti einnig sjá slíkt hjá Finn Juhl. Sýningarrými Montana hafði tekið breytingum frá því í fyrra þegar þeir opnuðu nýjan og stóran sýningarsal á Bredgade, þá var allt málað og klætt í sykursætum litum sem enginn gat staðist – en að þessu sinni kynnti Montana m.a. nýjar stílhreinar hillur hannaðar af Jakob Wagner sem eru fáanlegar í fjórum frísklegum litum. Hin einstaka og hæfileikaríka Pernille Vest hafði síðan vafið fingrum sínum um rýmið hjá Erik Jørgensen undir yfirskriftinni „Earth Layers“ en þar mátti sjá nýja OVO stólinn, hannaður af breska hönnuðinum Damian Williamson. Það voru fjölmargir fararskjótarnir þessa dagana og einn af þeim var spíttbátur sem flutti áhugasama blaðamenn á milli staða, til dæmis yfir í Penalhuset þar sem Bruno Mathsson verðlaunin voru afhent, en það voru engin önnur en GamFratesi sem hlutu verðlaunin í ár fyrir framúrskarandi hönnun. Að lokum var rölt yfir á veitingastaðinn BARR þar sem eigandi hnífaparafyrirtækisins Table Noir tók á móti okkur og bauð til kvöldverðar með nýjum sérhönnuðum hnífapörum fyrir veitingahúsið – er ekki best að prófa vöruna í eigin raun?

Dagur 2 – Hvar er betra að byrja daginn en í fallegu umhverfi í verslun og sýningarsal hjá Fritz Hansen, betur þekkt sem framleiðandi að hinum heimsfræga stól „Eggið“, hannað af Arne Jacobsen. En Fritz Hansen kynnti m.a. annars nýja blaðagrind, ljós og 7-una stólinn í barnastærð í hinum ýmsu litum. Rétt handan við hornið voru Fredericia Furniture að finna í gömlu pósthúsi í hjarta borgarinnar. Hjá Fredericia eru gamlir gersemar frá t.d. Nönnu Ditzel, Hans J. Wegner og upprunalegi sófinn, 2213, sem stóð heima hjá sjálfum Børge Mogensen svo eitthvað sé nefnt. Við hittum líka Space Copenhagen teymið sem sagði okkur frá nýjustu vörunum þeirra, kíktum upp á þaksvalirnar og nutum útsýnisins yfir borgina – sem var algjörlega magnað.
Eitt sem vakti athygli þennan daginn var heimsókn til Better Office – fyrirtæki sem býður upp á háklassa skrifstofurými og þjónustu fyrir einstaklinga eða smærri fyrirtæki, allt hannað af þekktum arkitektum. Því næst var gengið á Strikið sem er mörgum Íslendingunum vel kunnugt, en í glugga verslunarinnar Mads Nørgaard sat kona frá Le Klint og handbraut og saumaði lampa, eins og þeim einum er lagið. Það var síðan komið að því að skunda yfir í Illums Bolighus þar sem nokkrir íslenskir hönnuðir sýndu afurðir sínar og ekki laust við að hjartað fylltist stolti, enda í fyrsta sinn sem Íslendingar taka þátt í þessum dögum.
Heima er þar sem hjartað slær sagði einhver, og það átti svo sannarlega við hjá Ferm Living sem buðu til hádegisverðar í nýju sýningarrými. Það var auðvelt að gleyma sér þar inni og byrja að dagdreyma – enda alveg eins og að koma heim, bara allt aðeins meira stíliserað. Því næst var ljósaframleiðandinn Louis Poulsen heimsóttur þar sem sýnt var hvernig handgera megi „Köngulinn“ fræga. Stelton eru líka alltaf með sitt á hreinu og gefa ekkert eftir þegar kemur að vörum fyrir heimilið, þá einna helst vörum úr stáli. Við létum okkur heldur ekki vanta hjá Design WERCK þar sem 40 danskir og norrænir hönnuðir sameina krafta sína undir einu þaki, með skemmtilegri verslun og vínbar. Því næst heimsóttum við Skagerak og þeirra undursamlega bakgarð, fullur af hágæða tré-útihúsgögnum. MENU tók líka vel á móti okkur og kynnti nýjan stól, endurgerður eftir hönnuðinn Ib Kofod-Larsen, frá árinu 1951. Hjá Anker & co. hittum við þekktasta ljósmyndara og fyrsta póst-módern listamann Svía, Björn Dawidsson. Hann gerði stafræna útfærslu af lömpum Wästberg frá upphafi til dagsins í dag, sem var til sýnis þessa dagana. Vola og Kvadrat voru því næst heimsótt en þau deila sama húsi á Nordhavn. Dagurinn endaði í kvöldverð á Nimb hótelinu í Tívolí þar sem Normann Copenhagen buðu til glæsilegrar veislu eftir annríkan dag með dansi og rúnt um Tívolíið að næturlagi.

Dagur 3 – Dagurinn byrjaði á heimsókn til Brdr. Krüger sem framleiða hinn heimsfræga tréapa hannaðan af Kay Bojesen, en fyrirtækið var stofnað af tveim bræðrum árið 1886 og er enn í dag fjölskyldufyrirtæki. Því næst var ekið um danskar sveitir í átt að hinu þekkta listasafni, Louisiana. Umhverfið hjá safninu er stórfenglegt sem og safnið sjálft – algjörlega þess virði að heimsækja á góðum sumardegi, Í stuttu máli, þá er gaman að segja frá nafni safnsins, Louisiana, sem ber nafn fyrstu konu stofnandans, Knud W. Jensen. En Knud giftist þrem konum í gegnum tíðina og hétu þær allar Louise – heppilegt það! Það var staldrað aðeins lengur við í þessu fallega umhverfi og gengið niður á strönd í gamalt bátaskýli sem er í einkaeign. Þar beið Fritz Hansen með dýrindis hádegisverð með stórbrotnu útsýni yfir hafið og við heyrðum engan kvarta yfir því. Það var síðan &tradition sem endaði þessa þriggja daga veislu með opnun á nýju sýningarými í guðdómlega fallegu húsi í miðri Kaupmannahöfn. Þar var enginn annar en Jaime Hayon í eigin persónu með kynningu á því nýjasta sem hann hannaði fyrir &tradition, en að því loknu var slegið í gott lokahóf eftir annasama en skemmtilega daga sem verða svo sannarlega endurteknir að ári. 

Dagur 3Myndir // Filippo Bamberghi

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.