Lovísa Anna er kraftmikil ung kona sem hefur starfað hjá Deloitte síðastliðin sjö ár og á þeim tíma lokið annarri mastersgráðu sinni samhliða fullu starfi. Lovísa hefur á þessum tíma unnið sig upp í ábyrgðarmikla stöðu sem sviðsstjóri og einn eigenda félagsins, þá aðeins 29 ára gömul. Fyrirtækið Deloitte er stærsta alþjóðlega ráðgjafa- og endurskoðunar fyrirtæki í heimi en starfsemi þess er nú í yfir 150 löndum víðsvegar um heiminn.

Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir - lítil lit 2

Við settumst niður með Lovísu einn eftirmiðdag í maí á Kaffitár í Perlunni.  Þann sama dag var kaffihúsinu lokað er við mættum og færðum við okkur því um set á Kruðerí Kaffitárs á Nýbýlavegi. Ekki kom það að sök að við þyrftum að skipta um fundarstað í snatri, þar sem Lovísa er einkar sveigjanleg og jákvæð, bæði í leik og starfi.

Lovísa er í dag búsett í Garðabæ ásamt unnusta sínum Runólfi Sanders en þau starfa einmitt bæði hjá Deloitte og kynntust þar. Lovísa ólst upp í Reykjavík ásamt fjórum systkinum og stundaði nám í Álftamýrarskóla. Henni gekk ávallt vel í skóla og stærðfræðin fannst henni alltaf skemmtileg. Leið hennar lá í Verzlunarskóla Íslands eftir útskrift úr grunnskóla „Ég stundaði nám á stærðfræðibraut en ætlaði mér alltaf að verða lögfræðingur. Þar til á síðasta árinu tók ég námskeið í lögfræði og sá þá strax að mér fannst það ekki heillandi vettvangur,“ segir Lovísa kímin. Hún var eftir útskrift úr Verslunarskólanum óviss með hvað hún vildi leggja fyrir sig en ákvað að skrá sig í Iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. „Það voru margir úr mínum árgangi sem að skráðu sig í verkfræðina eftir útskrift þar sem að það lá beint við eftir útskrift af stærðfræðibraut. Ég ákvað að fylgja þeim í það nám þar sem ég trúði því að þetta yrði góður grunnur fyrir það sem ég myndi taka mér fyrir hendur síðar. Ég hugsaði svo bara með mér að ég myndi einfaldlega skipta um nám ef mér fyndist verkfræðin ekki áhugaverð og skemmtileg.“

TILVILJANAKENND SAGA
Lovísa segist hafa verið óviss um hvað draumastarfið ætti að vera eða eins og margir velta fyrir sér, hvað ætlar maður að verða þegar maður verður stór. „Ég vissi í rauninni ekki nákvæmlega hvað mig langaði til að gera, þetta er frekar tilviljanakennd saga,“ segir hún og glottir. Hún segir að tilviljanir og örlögin hafi fleytt henni þangað þar sem hún er í dag. Lovísa hóf stórf í fjármálageiranum aðeins 18 ára gömul og var fyrsta starfið hennar hjá Íslandsbanka. „Ég hóf störf hjá Íslandsbanka í bakvinnslunni og var að vinna þar með skóla og síðar sem þjónustufulltrúi með skóla.“ Lovísa hafði alltaf meiri áhuga á fjármálum heldur en harðkjarna verkfræði og segir að námið hafi verið góður grunnur eins og áður hefur komið fram „Ég bara keyrði í gegnum námið og það voru mis skemmtilegir áfangarnir en frábær félagsskapur og góð reynsla, ég sé það í dag hvað námið í verkfræðinni nýtist á ótrúlega mörgum sviðum og myndi ég hiklaust ráðleggja öllum að fara í raungreinanám.“ segir hún og brosir. Lovísa valdi að taka valáfanga í fjármálatengdum námskeiðum og fann þá að hana langaði mun frekar að halda áfram á þeirri braut þegar kæmi að framhaldsnámi.

FJÁRMÁLAHAGFRÆÐIN HEILLAÐI
Lovísa var búin að taka ákvörðun að taka framhaldsnám í einhverju fjármálatengdu námi eftir að hún lauk grunnnámi í iðnaðarverkfræði. „Ég var búin að hugsa um að fara í fjármálastærðfræði en datt eiginlega bara inn á fjármálahagfræðina þar sem að mér finnst fjármál almennt virkilega skemmtileg og hagfræðin mjög áhugaverð og heillandi, þannig að það nám smellpassaði að mínu áhugasviði.“

Hún var ákveðin í því að starfa áfram í fjármálageiranum og hafði hugsað sér að starfa innan sama vinnustaðar þegar hún sá auglýst spennandi starf hjá Deloitte og sótti um. „Ég sótti um starf ráðgjafa hjá Deloitte grunlaus um framhaldið og fékk svo starfið. Mér fannst það örlítið ógnvænlegt að vera 23 ára gömul að veita fyrirtækjum fjármálaráðgjöf, en ég ákvað að taka sénsinn og hoppa út í djúpu laugina,“segir hún og brosir. Lovísu finnst skemmtilegt að læra nýja krefjandi hluti og hugsaði einmitt að starfið gæti verið góður og lærdómsríkur grunnur fyrir öll framtíðarstörf. „Maður lærir auðvitað gríðarlega mikið af því að starfa í ráðgjöf, bæði af viðskiptavinum sínum, samstarfsfólki og bara ferlinu að læra á starfið sjálft. Ég hugsaði með mér að ég myndi allavega vera í tvö ár í ráðgjöfinni og sjá svo til hvað ég myndi gera í framhaldi af því.“ Fjármálaráðgjöfin reyndist vera vettvangur sem heillaði Lovísu og hefur hún ekki litið til baka síðan.

SKRÁÐI SIG Í ANNAÐ FRAMHALDSNÁM SAMHLIÐA STARFI
Eftir stuttan tíma á nýja vinnustaðnum þá fann Lovísa að hana langaði til þess að auka við þekkingu sína og ákvað hún því að skrá sig í meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun samhliða fullu starfi.

„Ég var með verkfræði bakgrunn og þó að ég hafi tekið meistaranám í fjármálahagfræði þá vildi ég bæta við mig þekkingu í reikningsskilum. Samstarfsfélagar mínir voru allir með bakgrunn úr viðskiptafræði og við erum auðvitað mikið að vinna greiningar sem byggja á reikningsskilum fyrirtækja. Ég sá strax að það var eitthvað sem maður þurfti að kunna upp á 10. Ég vissi það samt líka að ég hefði lært þetta allt með tímanum og því óþarfi að vera óöruggur með það að vera ekki með sama bakgrunn og aðrir. Ég ákvað samt að skella mér í þetta nám og sjá til hvernig það myndi ganga að tvinna saman náminu og vinnunni. Vinnan átti alltaf að vera í forgangi, ég var alveg búin að ákveða það,“ segir Lovísa og brosir.

Námið gekk eins og í sögu og útskrifaðist hún á réttum tíma þrátt fyrir krefjandi starf. „Námið gekk ótrúlega vel og ég náði að útskrifast á réttum tíma. Ég náði einhvernveginn að skipuleggja mig vel. Maður datt líka bara inn í góðan hóp, meðal annars með öðru starfsfólki Deloitte, þannig að þetta var skemmtilegur tími.,“ segir Lovísa og hlær.

FINNUR MEIRA FYRIR ÞVÍ AÐ VERA UNG Í STJÓRNENDASTÖÐU EN AÐ VERA KONA
„Mér finnst ég ekki finna mikið fyrir því að vera kona í stjórnunarstöðu, mér finnst ég oft á tíðum finna meira fyrir því að vera ung. Í mínu starfi hitti ég marga viðskiptavini bæði stærri og minni fyrirtækja og þeir eru allir ánægðir svo lengi sem þeir fá góða þjónustu og þá skiptir ekki máli hvort að þú ert kona eða karl. Fjármálageirinn einkennist ennþá af því að það eru töluvert fleiri karlmenn sem sitja í stjórnendastöðum innan fyrirtækjanna og svo framvegis en mér finnst samt sem áður mikil vitundarvakning hafa orðið þegar kemur að jafnrétti á vinnustöðum, þó klárlega megi gera betur víða. Það er mér mikil ánægja að fá að taka þátt í Jafnvægisvoginni, en við hjá Deloitte gengum nýlega frá samningi við FKA um samstarf í verkefninu sem hefur það markmið að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnunum íslenskra fyrirtækja.“ Lovísa var ráðin í framkvæmdastjórn Deloitte fyrir einu og hálfu ári og varð í kjölfarið einn af eigendum. „Ég var búin að starfa hjá félaginu í sex ár áður en mér bauðst að taka við starfi sviðsstjóra Fjármálaráðgjafar. Ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri og það traust sem mér er veitt til að sinna því starfi. Ég var búin að leggja hart að mér og ég myndi telja að það sé smá samblanda af þáttum sem kom mér áfram. Dugnaður, mikil vinna, jákvæðni og sveigjanleiki. Einnig byrjaði ég ung að hafa skoðanir sem er góður eiginleiki. Mikilvægast er þó að vera samkvæmur sjálfum sér.“

LAF

Lovísu finnst stjórnendastarfið skemmtilegt en krefjandi.„Mannauðsmálin heilla mig en þau geta að sama skapi verið erfið, en ótrúlega gefandi að sjá starfsfólkið sitt vaxa og dafna. Deloitte er með góða starfsmannastefnu og leggur mikið upp úr endurgjöf og starfsþróun. Starfsmenn hafa greiðan aðgang að yfirmönnum sínum og geta sóst eftir því að fá endurmenntun eða þróun í starfi í gegnum persónulegan þjálfara eða „coach“. Einnig nýtum við tæknina til þess að veita reglulega virka endurgjöf og eru allir starfsmenn með smáforrit þar sem þeir geta fylgst með árangri sínum. Þetta er gert í staðinn fyrir þessi hefðbundnu frammistöðusamtöl sem voru alltaf haldin einu sinni á ári sem eru að mínu mati af gamla skólanum. Lykillinn að árangri er að hafa öflugt og ánægt starfsfólk,“ segir Lovísa og brosir.

ER ALLTAF AÐ LÆRA EITTHVAÐ NÝTT
Lovísa segist læra nýja hluti á hverjum degi í starfi sínu og segir mikilvægt að maður haldi áfram að læra nýja hluti eins og maður getur. „Ég er stöðugt að læra nýja hluti þrátt fyrir að hafa í dag mikla reynslu af ráðgjöfinni og viðskiptalífinu, ég segi líka reglulega við fólkið mitt að halda áfram að læra eins mikið og þau geta og að þau muni í rauninni aldrei hætta að læra í starfi sem þessu. Það eru alltaf að koma upp nýjar aðstæður sem við þurfum að vera tilbúin að tækla saman.“ Aðspurð hvernig hún hvetur fólkið sitt áfram til þess að hver og einn nái að blómstra í starfi og virkja sína styrkleika segir hún að regluleg endurgjöf skipti höfuðmáli. „Það sem mér finnst mikilvægast er að vera ekki hrædd við að gefa reglulega endurgjöf, bæði að segja við mína starfsmenn í hverju þeir standa sig vel og einnig að fara yfir þá þætti sem megi betur fara. Þau samtöl geta verið heilmikil áskorun fyrir stjórnendur,  og auðvelt að sleppa því að tækla þau, en gríðarlega mikilvægur þáttur í velgengni starfsmanna. Þá fer ég yfir það hvernig við getum bætt þessi atriði í sameiningu. Mér finnst fátt skemmtilegra en að sjá mína starfsmenn ná árangri á sínu sviði.“

Við ræðum í framhaldi af þessum samræðum hvað einkenni góðan stjórnanda og hvernig hún myndi lýsa sínum stjórnunarstíl. „Þau einkenni sem ég tel mikilvæg sem stjórnandi eru að vera aðgengilegur, sanngjarn og eins og áður kemur fram að gefa sanngjarnt “feedback”. Ég reyni einnig að hafa áhrif á að jafnvægi vinnu og einkalífs sé gott þrátt fyrir að það komi auðvitað tímar sem eru þannig að maður þurfi að vinna mikið og leggja hart að sér, þannig er þessi bransi. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að hafa ástríðu fyrir starfinu svo að maður brenni ekki út.“

MIKILVÆGT AÐ HAFA TRÚ Á SÉR OG ÞORA AÐ BREYTA TIL
Með ákveðni og ástríðu er hægt að gera allt sem manni langar til að gera. „Þau ráð sem ég get gefið ungum konum í dag er að hafa óbilandi trú á sjálfum sér og vera óhræddar við að taka stökkið. Mér finnst líka mikilvægt að breyta til ef maður finnur að manni langi til þess og ástríðan er ekki til staðar í því sem maður er að gera. Mistök eru líka dýrmætur þáttur í að vaxa og maður á að læra af mistökunum en ekki láta þau brjóta sig niður. Ég tel mig vera heppna að hafa rambað inn á mína braut ung og ég dáist að þeim konum sem taka á skarið og skipta um vettvang til þess eins að fylgja hjartanu, það er stór ákvörðun að byrja á nýjum vinnustað og jafnvel læra eitthvað alveg nýtt. Ég segi alltaf við fólkið mitt að maður verður að hafa ástríðuna, þannig endist maður í starfi, er ánægður og nær þeim árangri sem manni langar til að ná,“ segir Lovísa að lokum og brosir.

Lovísa Anna er mögnuð og hvetjandi ung kona á framabraut. Okkur hlakkar mikið til þess að fylgjast með henni blómstra í atvinnulífinu í framtíðinni.

Þeir sem vilja fylgjast með Lovísu þá finnið þið hana á LinkedIn hér:https://www.linkedin.com/in/lfinnbjornsdottir/

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.