Eygló Egilsdóttir gaf nýverið út bókina Ómetanlegt og við fengum að hana til að segja okkur nánar frá bókinni og ferlinu við skrifin. Bókin Ómetanlegt er nokkurskonar leiðarvísir í núvitund í gegnum heilan dag. Textinn inniheldur bæði jóga- og núvitundaræfingar sem einfalt er að setja inn í tímalínu dagsins. Eygló rekur fyrirtækið Jakkafatajóga sem við fjölluðum einmitt um hér í byrjun ársins. 

ÓMETANLEGT
Hugmyndin að æfingunum kviknaði út frá minni eigin þörf til að koma aftur á röð og reglu á lífið eftir fráfall vinkonu. Æfingarnar héldu mér við efnið og gerðu mér kleift að bera betur kennsl á hvaða stundir mér þykja ómetanlegar í mínu lífi. Hugmyndin að bókinni sjálfri kom nokkru seinna, þegar ég áttaði mig á því að mögulega gætu mínar aðferðir gagnast fleirum.  Ég leit á útgáfuna sem tækifæri til að loka sorgarferlinu, minnast góðrar vinkonu og styðja gott málefni í leiðinni. En eftir að hafa selt upp fyrstu prentun af bókinni lagði ég ágætan styrk inn á Píeta samtökin.

Efni bókarinnar á erindi við allt önnum kafið nútímafólk. Textinn er aðgengilegur og sérstaklega settur upp með það fyrir augum að vera í hæfilega litlum bútum þannig að auðvelt sé að meðtaka og tileinka sér efnið.

GJÖF SEM GLEÐUR
Eygló telur að bókin eigi eftir að lifa lengi. “Ég hef tekið eftir því hingað til að bókin hefur verið gefin í fermingargjöf, stúdentsgjöf, tækifærisgjöf, afmælisgjöf. Og besta dæmið sem ég get sagt frá er að ég var beðin um að afhenda eitt eintak í heimahús, sérstaklega áritað til húsráðanda frá leyndum aðdáanda. En í því tilviki hafði maki viljað koma sínum betri helmingi á óvart. Greinilega ómetanlegt samband þar!

Bókarskrifin sjálf tóku langan tíma, ætli bókin hafi ekki verið um þrjú ár í mótun. Ég vann í henni í lotum, með löngum hléum á milli. Ég þurfti að hvíla mig á efninu á milli, vega og meta textann og uppsetninguna. Lokaútgáfan er mjög langt frá fyrstu hugmyndunum og við hvert vinnuhlé breyttist áhersla og verkið smám saman mótaðist. Ég leitaði reglulega til góðrar vinkonu sem hefur reynslu af bókaútgáfu, sem las yfir og gaf mér góð ráð varðandi bæði texta og útgáfu.”

SNÉRI VÖRN Í SÓKN
Lengi vel gekk Eygló á milli forlaga og reyndi að fá útgáfusamning, en fékk neitun í hvert sinn. Henni tókst að nýta þessar neitanirnar vel, því hún fékk í sumum tilfellum góðar ábendingar í leiðinni, sem hún nýtti við skrifin.  “Það má því segja að bókin væri ekki eins og hún er nema afþví það vildi enginn gefa hana út fyrir mig!

Ég var hins vegar með skýra sýn og skýr markmið og kannski hjálpaði til að ástæðurnar voru frekar persónulegar að ég tók ákvörðun um að gefa bókina bara út sjálf og hætta að bíða eftir að einhverjum útí bæ þætti góð hugmynd að gefa hana út og þá fóru hjólin að snúast frekar hratt. Ég kláraði handritið í febrúar og útgáfuhófið var um miðjan apríl. Prentun og umbrot voru gerð hér heima vegna þess að ég vildi vera með puttana í öllum ákvörðunum hvað varðar pappír o.þ.h., en myndefnið var keypt að utan.”

JÓGA Í TÍU ÁR
Eygló hefur kennt jóga í um tíu ár núna en hún sett það að sínu persónulega markmiði að kynna sem flesta fyrir jákvæðum áhrifum jóga og almennrar hreyfingar án öfga. “Heilsurækt getur verið svo margt annað en að mæta í ræktina, þó að það sé líka fínt. Allt sem ég tek mér fyrir hendur vinnulega séð vinnur í átt að þessu markmiði. Þetta er mér svo hjartnæmt að það gerist jafnvel óafvitandi, því meira að segja bókin gerir það, þó það hafi alls ekki verið planið upphaflega.”

Fyrir þá sem vilja kynna sér bókina ennþá betur þá eru allra síðustu eintökin úr fyrstu prentun eru í sölu í völdum verslunum Hagkaups á höfuðborgarsvæðinu og líka hjá heimkaup.is þar sem hún er meira að segja á tilboði núna.

En önnur prentun bókarinnar verður gerð nú í lok sumars og verður þá hægt að kaupa bókina aftur á vefnum.

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.