Andrea Magnúsdóttir er fatahönnuður – eigandi merkisins sem við flest könnumst við, Andrea by Andrea. Hún lærði fatahönnun í Danmörku þar sem hún útskrifaðist árið 2009 og stofnaði fyrirtækið sama ár ásamt manni sínum, Ólafi Ólasyni, eftir mikla undirbúningsvinnu.

Við settumst niður á Kaffitár í Perlunni einn góðan seinnipart í apríl, Andrea mætir stórglæsileg að vanda og sest hjá okkur yfir góðum kaffibolla. Við förum aðeins yfir málin og er mjög gaman að hlusta á hvað Andrea hefur að segja, enda búin að fara allan hringinn í tískubransanum.

ÆTLAÐI ALLTAF AÐ VERÐA FATAHÖNNUÐUR
Andrea útskrifaðist úr FG árið 1995 og ætlaði sér alltaf að fara í fatahönnun. “Ég setti stefnuna beint í fatahönnun en það var ekki svo auðvelt, það var varla til á þessum tíma hér á landi. Ég hefði getað farið í Iðnskólann en þó ég væri búin með stúdentspróf hefði það tekið mig jafn langan tíma og aðra, þar sem ég hefði bara verið í mörgum eyðum þar sem ég var búin með svo marga áfanga. Það fannst mér ekki vera spennandi.” Andrea vissi ekki alveg hvað hún átti þá að gera en endaði á því að sækja um í fataverslun. “Ég var pínu týnd og ákvað að sækja um vinnu í vinsælli fataverslun Kókó og kjallarinn.   Ég elskaði að vinna þar og varð fljótt verslunarstjóri og svo innkaupastjóri, þá aðeins 21 árs. Því fylgdi að ferðast mikið og kaupa inn vörur fyrir verslunina sem mér fannst rosalega skemmtilegt.” Andrea var svo “head huntuð” yfir til stórkeðjunnar NTC þar sem hún var innkaupastjóri og sá um framleiðsluna. “Ég færi mig yfir til NTC, byrjaði sem verslunarstjóri í Morgan svo Galleri 17 en varð svo seinna Innkaupastjóri. Ég ferðaðist mikið og fór á sýningar, vann með miklum reynsluboltum og lærði mikið. Ég var mikið í framleiðsluni og fékk að skapa, við gerðum td MOSS sem margir kannast við. Ég hef alltaf þrifist í þessum heimi, fílað mig í botn í kringum allt sem tengist tísku hvort sem það er framleiðslan, stíllinn eða innkaupin.  Ég myndi segja að ég hafi lokið háskólagráðu í þessum bsuiness hjá NTC” Segir Andrea og hlær.

ALLTAF MARKMIÐIÐ AÐ STOFNA EIGIÐ FYRIRTÆKI
Andrea stofnaði fyrirtækið Júniform árið 2003 með Birtu Björnsdóttir og vann samhliða því hjá NTC. “Það var rosalega skemmtilegur tími, við vorum báðar lærðir förðunarfræðingar og vorum að farða, lita, plokka og sauma þarna í búðinni. Þá vorum við með fyrstu búðunum á íslandi þar sem vörur voru hannaðar og saumaðar á staðnum.” Andrea segir að hún hafi gert allt í öfugri röð en þarna fann hún að hún vildi læra meira. “Ég fann að mig vantaði að læra meira”.  Á þessum tíma var maðurinn hennar Andreu að setja stefnuna á að læra arkitektúr í Danmörku. “Ég ákvað að láta þá loksins verða að því, að fara út með honum og læra fatahönnun. Við ætluðum að vera úti í fimm ár upphaflega, sem varð að tveimur árum. Hrunið kom þarna inn í og þá breyttist allt. Ég rétt náði að klára seinna árið mitt í skólanum áður en ég fór heim og hann varð eftir.”

Maðurinn hennar Andreu er grafískur hönnuður og voru þau búin að gera alla undirbúningsvinnu fyrir stofnun fyrirtækisins á meðan að þau voru í námi. “Við stofnum fyrirtækið saman og gerðum allt klárt á þessum tveimur árum, gerðum heimasíðu, lógó og allt það sem þurfti að gera til þess að stofna fyrirtækið. Svo þegar ég útskrifast árið 2009 og fer heim til Íslands var allt tilbúið, við fáum fyrsta húsnæðið okkar afhent nokkrum mánuðum eftir að ég kem heim og þá fer allt í gang.”

ANDREA BY ANDREA
Fyrsta húsnæðið þeirra er staðsett í Hafnarfirði og er Andrea aðeins nýflutt þaðan. “Við byrjum árið 2009 og þetta hefur verið algjör rússíbanaferð síðan. Stundum hefur verið alltof mikið að gera hjá okkur og lítill tími til að líta upp og marka sér stefnu.   Við höfum verið að prufa okkur áfram, hvað virkar fyrir okkur og okkar kúnnahóp en ég vil meina að maður þurfi alltaf að vera að þróast. Ef þú ert ekki að þróast þá getur þú alveg eins hætt.”
Andrea er einnig að láta framleiða fyrir sig flíkur og segir það vera krefjandi verkefni.  “Það er meira en að segja það að vera að framleiða og að finna það sem virkar fyrir mann þegar kemur að því. Núna erum við að vinna með mjög góðri saumastofu á Ítalíu og svo hér á Íslandi sem gengur vel en það er ekki sjálfgefið.”
Andrea er allt í öllu þegar kemur að fyrirtækinu en það fylgja því fullt af aukaverkefnum að vera eigandi af fatamerki og verslun. “Ég er eigandi merkisins og hönnuður og því fylgir að vera verslunarstjóri, vaktarstjóri, markaðsstjóri og rekstrarstjóri svo eitthvað sé nefnt. Ef þú hefur mikinn tíma í að hanna ertu heppin, rekstur er svo mikið batterí.”
Eins og fram kom voru þau að færa verslun sína á Norðurbakka en þar voru áður aðeins skrifstofur og saumastofa þeirra. “Maðurinn minn kom með þessa hugmynd – að færa allt á einn stað. Ég var nú alls ekki viss en núna þegar við höfum látið verða að því finnst mér þetta æðislegt! Það er margt að gerast á staðnum núna, mikið búið að opna þarna í kring  og mikið líf. Það að hafa þetta svona sameiginlegt gerir búðina líka svo persónulega og kósí, þegar þú ert að versla þá heyrirðu í saumaskapnum sem er að gerast á staðnum.” Segir Andrea.

HEFUR GAMAN AF MARKAÐSFRÆÐINNI
Andrea sér um alla markaðsfræði fyrir fyrirtækið og segir að hún hafi mjög gaman að þeirri vinnu. “Ég hef svo gaman af því að vinna við þennan part af því að eiga fyrirtæki, ef ég væri ung í dag færi ég líklega þá leið í námi. Mér finnst svo skemmtilegt að vinna með samfélagsmiðla, það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi í gangi. Þetta er samt rosalega mikil vinna, það að taka myndir og passa að birta reglulega á samfélagsmiðlana sína til þess að halda sér sýnilegum.” Segir Andrea og heldur áfram. “Þetta er svo merkilegt – máttur samfélagsmiðla. T.d þegar við fluttum verslunina þá voru viðskiptavinir okkar með allt á hreinu þar sem þeir höfðu fylgst með öllum breytingunum og flutningum  á samfélagsmiðlum. Ég gat komið öllu sem ég þurfti til skila, einfaldlega í gegnum símann minn.”

ÞAÐ ER ALLT HÆGT
Andreu tókst að láta framleiða einn kjól í Kína, sem aðrir myndu segja að væri ómögulegt. Svo aðspurð hvaða ráð hún myndi gefa ungu fólki í dag var það einfalt svar. “Það er allt hægt. Ekki hlusta á neinn sem segir þér annað, eina sem þú þarft að gera er að finna leiðina.” Segir Andrea og heldur áfram. “Það að þú sért að gera það sem þér finnst skemmtilegt er það eina sem skiptir máli, gerðu þitt, hvað sem það er.”
Andrea segist fá innblástur frá öllum flottu konunum í kringlum sig. “Ég er svo heppin að þekkja svo mikið af töff, kúl og klárum konum sem eru að gera svo flotta hluti. Þær veita mér allar innblástur. Til dæmis hittumst við reglulega nokkrar sem vorum að vinna saman í NTC hér áður fyrr, við erum allar ennþá í þessum bransa á mismunandi vegu. Elísabet Gunnars eigandi Trendnet, Álfrún Páls ritstjóri Glamour, Aldís Páls ljósmyndari og Maya sem er komin aftur til NTC sem rekstrarstjóri og Inga Rósa sem er líka hjá Glamour. Það er svo gaman að fylgjast með þessum stelpum vaxa i starfi. Konurnar í lífi mínu eru eintómir snillingar, mamma og tengdamamma og hafa allar áhrif á mig á sinn hátt.”

HELDUR ÁFRAM Á MEÐAN HÚN ELSKAR ÞETTA
“Ég hef í rauninni engin framtíðarplön þannig, ég er búin að reyna í 10 ár að eiga einn frídag í viku en það hefur ekki gengið ennþá.” Segir Andrea og hlær. “Ég hef sterka  sýn á það hvernig ég vil að fatamerkið mitt þróist og breytist. Ég veit að ég ætla að gera skó einn daginn, mitt eigið ilmvatn og ilmkerti. Ég ætla að vera í þessu svo lengi sem ég elska það sem ég er að gera”

Andrea er mögnuð kona sem er skemmtilegt að fylgjast með en hún byrjaði einnig nýlega að blogga á vefsíðunni Trendnet.is. Hún hefur greinilega gaman af því sem hún er að gera sem er það mikilvægasta þegar kemur að því að velja sér ævistarf. Það er mikið framundan hjá henni og mælum við með að kíkja í nýju verslunina hennar á Norðurbakka 1 sem er glæsileg.

Instagram/andreamagnus
Instagram/andreabyandrea
Facebook/andreabyandrea
Trendnet.is/andrea

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.