Um síðustu helgi opnaði Barnaloppan í Skeifunni en þar er hægt að kaupa og selja barnaföt og ýmislegt fleira sem tengist börnum. Við fengum Guðríði Gunnlaugsdóttur sem er einn eigendanna til að segja okkur betur frá þessu spennandi framtaki. 

Hvernig virkar Barnaloppan?
Í Barnaloppunni getur þú bæði keypt og selt notaða barnavöru, allt frá fatnaði og leikföngum til barnavagna og bílstóla. Sem seljandi leigir þú bás í eina viku að lágmarki og verðleggur sjálf/ur vörurnar þínar. Verðmiða með strikamerki útvegum við svo í verslun okkar þegar komið er að setja upp básinn. Eftir að vörunum hefur verið komið fyrir í básnum sjáum við um restina, þ.e. að þjónusta viðskiptavini verslunarinnar og sjá um söluna. Svo er hægt að fylgjast með sölunni rafrænt að heiman og söluhagnaðinn er greiddur út í lok leigutímabils. Einfalt og þægilegt fyrir fólk – og umhverfið allt!

En okkur finnst gríðalega mikilvægt að endurnýta það sem til er og gefa barnavörunum nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. En barnavörur hafa oftar en ekki stuttan líftíma og því enn meiri ástæða til að nýta þær áfram.

Hvernig vörur má finna hjá Barnaloppunni?
Í rauninni allt sem tengist börnum frá 0-16 ára. Allt frá leikföngum, fatnaði og bókum til bílstóla og barnavagna. En eins og áður segir að þá er allt sem tengist börnum leyfilegt – þess vegna bleyjur, meðgönguföt og brjóstainnlegg.

Hvernig kveiknaði hugmyndin?
Í desember síðastliðnum fluttist ég, ásamt manninum mínum og tveimur dætrum, aftur heim til Íslands eftir tæplega 7 ára dvöl í Danmörku.

Í Danmörku kynntist ég dönsku “loppe” mörkuðunum og varð mikill aðdáandi frá fyrsta degi! Loppemarkaðir eru markaðir þar sem fólk getur bæði keypt og selt notaðan varning. Slíkir markaðir eru stór hluti af danski menningu og því afar rótgróið fyrirbæri þar í landi.Ég eyddi ófáum helgunum í að þræða hina ýmsu markaði og elskaði ekkert meira en þegar eg fann eitthvað fallegt fyrir stelpurnar mínar. Aftur á móti, að þá gafst ekki alltaf jafn mikill tími í að standa sjálf og selja á þessum mörkuðum, og tala nú ekki um að selja einstaka vörur í gegnum internetið! Ég varð því einstaklega glöð þegar ég kynntist dönsku Barnaloppunni (eða Børneloppen), en þar gat ég bæði keypt allskyns fallegar barnavörur frá öðrum og selt mínar án þess að þurfa að vera sjálf á staðnum. Barnaloppan sá sumsé um að selja vörurnar mínar fyrir mig! Auðveldara varð það ekki!

Þar að auki er mín stóra ósk að koma í veg fyrir kaupa-og-henda-menninguna, þar sem mikið af góðum varningi fær oftar en ekki allt of stuttan líftíma í stað þess að öðlast nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu!

Hvernig er best að snúa sér til að selja vörur?
Það er auðveldast að fara inná heimasíðuna okkar og bóka bás hjá okkur á þeim dagsetningum sem henta. Einnig er hægt að bóka bás hjá okkur í versluninni og greiða beint við afgreiðsluborðið. Sumir sem vilja sjá aðstæður og hugsanlega velja sér einhvern ákveðinn bás í versluninni áður en básinn er bókaður – sem er bara flott mál. Þegar því er lokið er bara að koma sér afstað í að útbúa verðmiða á netinu og koma svo til okkar deginum áður en leigutímabil hefst og setja upp básinn. Við komu prentum við út alla verðmiðana sem fólk límir svo á vörurnar sínar eða notar ákveðnar festibyssur til að skjóta verðmiðum í fatnað. En við útvegum einnig herðatré, þjófavarnir í fatnað og perlur til að merkja fatastærðir á herðatrén (ef þess er óskað). Eftir að búið er að koma básnum sínum upp er svo hægt að fylgjast með sölunni rafrænt að heiman eða hvar sem er í símanum. Svo greiðum við út söluhagnað í lok leigutímabils – eða þess vegna á meðan á leigutíma stendur.

Facebook/barnaloppan
Barnaloppan.is 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.