Sjálfboðaliðastörf geta verið jafn misjöfn og þau eru mörg en ýmsar ástæður geta legið að baki þess að fólk ákveður að taka að sér slíka vinnu. Að prófa eitthvað alveg nýtt á ókunnugum stað eða hreinlega leggja sitt af mörkum til samfélagins með einhverjum hætti. Hver svo sem ástæðan er þá enginn spurning að ferlið bætir í reynslubankann.

Við fengum Sóldísi Öldu Óskarsdóttur til að segja okkur sína sögu af sjálfboðaliðastarfi en hún fór til Kosta Ríka í febrúar 2016.

Ég fór í gegnum AUS (Alþjóðleg Ungmennaskipti) og þau reyndust mér mjög vel. Mín reynsla af sjálfboðastarfinu var frekar góð. Ég var að vinna á leikskóla fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður heima fyrir, ásamt tveimur öðrum sjálfboðaliðum og 10-15 starfsmönnum. Hlutverk okkar sjálfboðaliðanna var aðallega að leika við krakkana, við kenndum þeim smá ensku og sýndum þeim stundum myndir og myndbönd frá okkar löndum sem þeim fannst yfirleitt mjög spennandi. Starfið gat verið mjög krefjandi, sumir krakkarnir voru mjög erfiðir og hlýddu nánast engu þar sem þeir höfðu oft fengið lítið sem ekkert uppeldi sem var mjög sorglegt að horfa upp á. Ég bjó hjá host fjölskyldu og fékk þar með að kynnast menningunni og upplifa landið eins og local. AUS (Alþjóðleg Ungmennaskipti) voru einmitt upphaflega stofnuð í þeim tilgangi að auka menningarlæsi og minnka fordóma í heiminum.

Hefur þú góð ráð fyrir aðra sem hafa hug á að fara í svipað verkefni?
Ég held að það sé í fyrsta lagi mikilvægt að skoða vel með hvaða samtökum maður fer, það eru til óteljandi samtök, bæði íslensk og erlend, sem bjóða upp á sjálfboðastörf. Bæði myndi ég mæla með að lesa hvað aðrir sem hafa farið með samtökunum hafa um þau að segja og einnig skoða hluti eins og hvort samtökin eru með neyðarnúmer sem hægt er að hringja  í allan sólarhringinn ef eitthvað kemur upp á. Ég þurfti sem betur fer aldrei að nota þetta númer en það var samt gott að vita af því að ef eitthvað hefði gerst gæti maður hringt og einhver frá samtökunum myndi þá aðstoða mann.

Eins myndi ég mæla með að skoða í hvað peningurinn fer sem maður borgar til samtakanna.
Einnig er mikilvægt að kynna sér landið og menningu þess  því oft getur eitthvað sem manni finnst mjög eðlilegt að gera verið talið mjög móðgandi eða óviðeigandi annars staðar í heiminum. Einnig getur margt verið öðurvísi, en í Kosta Ríka eru til dæmis engin götuheiti eða húsnúmer! Heimilisfang samtakanna í Kosta Ríka var t.d. 350 metrum austur af Taco Bell á vinstri hönd. Þetta var eitthvað sem ruglaði mig mjög mikið – ég var mjög dugleg að villast fyrstu dagana (kannski óþarflega dugleg) en komst þó alltaf á leiðarenda 🙂 Mörg samtök bjóða upp á svona fræðslu í byrjun ferðarinnar. Fyrsti dagurinn minn í Kosta Ríka fór einmitt í það að fræðast um menningu og siði landsins.
Ég held að það sé líka mikilvægt að gera sér grein fyrir þvi að maður er ekki að fara að leysa öll heimsins vandamál. Það gat verið erfitt að sjá hvað vandamálin voru oft stórt og finnast maður sjálfur svo “lítill” og ekki geta gert nógu mikið til að leysa þau.

Hvaða áhrif hafði sjálfboðaliðastarfið á þig?
Mér fannst sjálfboðastarfið gefandi en krefjandi á sama tíma og mjög góð reynsla. Það að sjá með eigin augum hvað sumir búa við erfiðar aðstæður opnar augun manns svoldið – það er allt annað, og hefur miklu meiri áhrif á mann, heldur en að sjá sjálfur hvað er að í heiminum heldur en að lesa um það í blöðum eða á netinu. Mér fannst heimurinn einhvernveginn verða minni og fannst hlutirnir meira koma mér við og vera nær mér.
Ég kynntist líka annarri menningu sem er mjög ólík því sem maður á að venjast á Íslandi og einnig öðlaðist ég reynslu í að vinna með fólki frá ólíkum löndum, sem hefur hvoru tveggja nýst mér vel eftir að ég kom heim. Ég bætti líka spænskukunnáttu mína helling, enda talaði ég nánast bara spænsku allan tímann sem ég var úti, þar sem nánast enginn talaði ensku.

Sóldís hélt úti bloggsíðu á meðan á ferðalaginu stóð ásamt því að hún var dugleg að deila myndum á Instagram.

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.