Nýlega voru stofnuð hagsmunasamtök kvenna sem starfa eða hafa áhuga á því að starfa í upplýsingatækni fyrirtækjum á Íslandi. Upplýsingatækni fyrirtæki eru orðin stór og mikilvægur þáttur í íslensku atvinnulífi og konum hefur verið að fjölga í upplýsingatæknitengdum störfum, sem er frábær þróun. Við eigum eftir að sjá þessum störfum fjölga á komandi árum og því eru hagsmunasamtök sem þessi mikilvæg til þess að efla tengslanetið innan þessa geira, hlúa að og efla konur enn frekar til þess að starfa innan hans. Við spjölluðum við Lindu Stefánsdóttur sem er stofnandi samtakanna VERTOnet. Linda hefur unnið hörðum höndum síðastliðið ár ásamt 14 öðrum öflugum konum að stofna samtökin hérlendis. Við  fengum Lindu  til þess að segja okkur betur frá samtökunum, ásamt því að fara yfir framtíðarsýn og hlutverk þeirra. 

 

Hvaða hlutverki mun VERTOnet gegna í komandi framtíð fyrir konur í upplýsingatækni?
VERTOnet eru hagsmunasamtök kvenna sem starfa, eða hafa áhuga á því að starfa í upplýsingatækni fyrirtækjum á Íslandi. Markmið samtakanna er fyrst og fremst að vera konum hvatning til að taka þátt í þeirri byltingu sem nú á sér stað og er oft kölluð fjórða iðnbyltingin. Við viljum fjölga konum í upplýsingatæknitengdu námi og og störfum, sem og styrkja tengslanet þeirra með því að vera ákveðin regnhlíf fyrir mismunandi kvennahópa innan upplýsingatæknigeirans.

Vertonet 1

Hvernig kom hugmyndin upp að stofna VERTOnet?
Samtökin eiga sér norska fyrirmynd og eru systur samtök Oda-Nettverk sem eru norsk kvennasamtök í upplýsingatækni. Samtökin í Noregi eru mjög öflug og hafa reynst konum vel með það að markmiði að tengjast upplýsingatæknigeiranum þar í landi. Við erum sannfærð um að VERTOnet geti gert svipaða hluti fyrir konur á Íslandi og með því að tengjast Oda-Nettverk aukast jafnframt möguleikar íslenskra kvenna á breiðara tengslaneti og jafnvel auknum atvinnutækifærum á norrænni grundu.

Fyrir hverja eru samtökin hugsuð?
Allar þær konur sem starfa eða hafa áhuga á því að starfa innan upplýsingatæknigeirans eru velkomnar í samtökin. Það eru engin félagsgjöld en samtökin verða rekin með aðstoð sjálfboðaliða og einnig með styrkjum frá fyrirtækjum sem sjá hag sinn og samfélagsins í að fjölga konum í upplpýsingatækni.

Vertonet 2

Hvað verður lagt áherslu á í framtíðarstarfi VERTOnet?
Starfið verður fjölbreytt og öflugt á næstu misserum. VERTOnet mun standa fyrir fræðslufundum innan framhalds- og háskóla, vinna með hjálparsamtökum með því að aðstoða konur að auka færni og þekkingu á tækni, halda reglubundna fundi með áhugaverðum málefnum þar sem lögð verður sérstök áhersla á tengslamyndun. Einnig munum við gera árlegar kannanir þar sem við munum skoða hlutfall kvenna innan upplýsingatæknigeirans og þannig fylgjast með þróun þess. Hátindur starfseminnar verður svo Hvatningardagurinn en hann verður árlegur viðburður. Um er að ræða uppskeruhátíð þar sem konur og fyrirtæki sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr í viðleitni sinni til þess að greiða veg kvenna í upplýsingatækni verða verðlaunuð.

Vertonet 4

 

Stofnfundur samtakanna var haldinn þann 17.apríl síðastliðinn og það er ljóst að það eru spennandi tímar framundan hjá þessum öflugu konum sem starfa innan upplýsingatæknigeirans. Yfir 100 konur mættu á fundinn og fór mætingin fram úr björtustu vonum Lindu. Við hlökkum til þess að fylgjast með VERTOnet í framtíðinni. Allar konur sem starfa innan upplýsingatæknigeirans eða hafa áhuga á starfi innan hans eru hvattar til þess að skrá sig inni á heimasíðu samtakanna www.vertonet.is.

 

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.