Þær eru djarfar, öðruvísi og vekja eftirtekt – vörurnar frá danska framleiðandanum Design By Us. Við náðum tali af Casper Bach, útflutningsstjóra fyrirtækisins, sem staddur var á landinu nú á dögunum að heimsækja Snúruna, sem er söluaðili hér á landi. Casper var nýkomin úr ekta „túristaleiðangri“ um landið er við hittumst, þar sem hann sá svartan sand og fossa í fallegu veðri, að eigin sögn. Þetta er þriðja ferðin hans til landsins en í fyrsta sinn sem hann ferðast út fyrir Reykjavík og alls ekki sú síðasta.

New Wave ljósið kastar ótrúlega fallegri birtu á vegginn, en ljósið er væntanlegt í stærri útgáfu.

Casper var einn af stofnendum Miinto.dk sem er innan tískubransans, en hvernig kom það til að hann endaði hjá hönnunarfyrirtæki? „Design By Us er fimmtán ára gamalt fyrirtæki og í fyrstu var hugsjón þeirra að þjóna eftirspurn efnaðs fólks sem býr við strandlengjuna í Danmörku og einnig veitingahúsum, þeir höfðu því ekki farið mikið út fyrir landssteinana. Eitt sinn sat ég með Rasmus Larsson, eiganda Design By Us, og ég spurði hann hreint út hvernig hann sæji framtíð fyrirtækisins fyrir sér. Mér fannst vörurnar þeirra svo flottar og þær þyrftu að ná lengra, ekki bara innan Danmerkur. Rasmus sagðist oft hafa hugsað út í það en aldrei unnið áfram með þær hugmyndir. En hann þurfti ekki að leita lengra, við fengum okkur vínglas saman og þar með byrjaði ævintýrið mitt hjá fyrirtækinu fyrir fimm árum síðan.“

Flower Bullet Vase ber sannarlega nafn með rentu.

Design By Us er með hátt í þrjúhundruð söluaðila víðsvegar um heiminn og þar á meðal hér á landi, en Casper segir að Snúran sé einn af uppáhalds söluaðilunum hans. „Ég á erfitt með að trúa að nokkurn Íslending vanti ljós heim til sín miðað við það magn sem hefur selst“, segir hann og hlær, en evrópski markaðurinn er langstærsti kúnninn þeirra. „Við lentum nýlega með vörurnar okkar í Bandaríkjunum en það krefst mikillar umbreytinga að herja á þann markað þar sem rafmagnsvörurnar eru með aðrar kröfur og staðla en við þekkjum til í Evrópu. Svo við þurftum að breyta öllu fyrir þá framleiðslu sem hefur verið krefjandi og stórt dæmi.“
Hefur verið tekið vel á móti ykkur í landi tækifæranna? „Já, þvílíkt vel. Ég var á sýningu þar ytra um daginn og eftir þá helgi fengum við um 300 fyrirspurnir frá fyrirtækjum sem sýndu vörunum okkar áhuga. Það er margt að gerast hjá okkur þessa dagana.“

Stólarnir, Skinny Bitch, og Ballroom ljósið vinsæla sem fæst í öllum regnbogans litum.

Það er óhætt að segja að Casper ferðist mikið á vegum vinnunnar og enginn dagur er eins. „Ég ferðast að lágmarki eina viku í mánuði út í heim til að hitta viðskiptavini. Ég elska að hitta fólk og heimsækja nýja staði, en í svona starfi þarf maður að eiga skilningsríkan maka.“
Hvernig tvinnar maður slíka vinnu með fjölskyldulífi? „Það gengur vel ef allir standa saman. Ég á frábæra konu, þrjú börn og við búum í fallegu húsi á Amager ásamt kettinum Jack. Heimilið okkar er innréttað í hráum stíl, mikið svart og hvítt, en við fylgjum ekki mikið straumum og stefnum, förum frekar okkar eigin leiðir, það á betur við okkur og er vonandi öðrum sem innblástur.“  

Dásamlegt hliðarborð og bekkurinn er „í stíl“ við blómin.

Vörurnar frá Design By Us rata ekki beint undir skandinavíska stílinn, þær eru dramatískar og djarfar. „Við höfum alltaf skorið okkur úr frá öðrum, verið frökku krakkarnir í bekknum. Þú gætir tekið logoið af svo mörgum vörum frá öðrum skandinavískum framleiðendum og þú myndir varla sjá muninn. Þannig er það ekki með okkur, vörurnar okkar og hönnunin er sérstæð – þú sérð það úr fjarlægð.“
Hvar finnið þið hönnuðina? „Það er misjafnt. Oft gerast hlutirnir líka hjá okkur yfir einu rauðvínsglasi, það þarf ekki mikið til að við fáum hugmyndir og förum á flug, og allt í einu er komin teikning og prótótýpa. Stundum þróast hugmyndirnar áfram og stundum enda þær í ruslinu, það er hluti af þessu öllu saman. Og það er þess vegna sem við erum öðruvísi en hinir, við fylgjum hjartanu og hvernig okkur líður hverju sinni. Við erum ekki nema tíu manneskjur sem sitjum saman á skrifstofunni en hver og ein hefur eitthvað um hlutina að segja – hvað fer í framleiðslu o.s.frv. Við erum eins og lítil fjölskylda á stórum leikvelli og gerum nákvæmlega það sem okkur langar til.“

Lampi fyrir þá sem þora! Þú færð varla meiri skrautmun í einum lampa.

Áttu uppáhalds mottó? „Ef þú vilt ná frama eins hratt og þú dregur andann, þá muntu eflaust ná langt. Þetta hefur verið uppáhaldssetningin mín í mörg ár. Ef ég brenni ekki fyrir því sem ég er að gera hverju sinni, þá mun ég leita annað. Ég elska vinnuna mína og fyrirtækið, og það verður ekki aftur tekið, enda búin að húðflúra logo-ið á hendina á mér.

Casper Bach var staddur hér á landi er við náðum af honum tali.

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.