Sesselía Birgisdóttir starfar sem markaðsstjóri Advania. Hún flutti nýlega heim til Íslands eftir 10 ár í Svíþjóð þar sem hún stofnaði fyrirtækið Red Apple Apartments ásamt manni sínum og tók tvær meistaragráður við háskólann í Lundi. Hún hefur mikinn eldmóð fyrir stöðu ungra kvenna í atvinnulífinu og lumar sjálf á ýmsum góðum ráðum.

Við settumst niður með Sesselíu á Kaffitár í Perlunni einn eftirmiðdag í mars. Það tók okkur ekki langan tíma að átta okkur á því að Sesselía býr ekki aðeins yfir mikilli reynslu heldur er hún líka hvetjandi og án efa annt um að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri til ungra kvenna.

STOFNUÐU FYRIRTÆKI Í NÝJU LANDI
Sesselía ólst upp á Egilsstöðum og býr núna í Reykjavík ásamt Ragnari Fjalar manni sínum og þremur börnum. Hjónin fóru saman í alþjóða markaðsfræði og vörumerkjastjórnun við háskólann í Lundi í Svíþjóð fyrir um 12 árum síðan. Þeim líkaði dvölin í Lundi vel og ákvað Sesselía að halda áfram í námi. Hún bætti við sig annarri meistaragráðu í mannauðsstjórnun með áherslu á þekkingarmiðlun og breytingastjórnun. Þegar hún var að klára námið fékk maðurinn hennar viðskiptahugmynd sem þau fóru á fullt í að útfæra saman. Skömmu síðar stofnuðu þau Red Apple Apartments.  Fyrirtækið var alþjóðleg leigumiðlun sem sérhæfði sig í leigu á íbúðum til fyrirtækja og einstaklinga. „Þetta var fyrir tíma Airbnb og við sáum fljótt hvað eftirspurnin var mikil. Fljótlega vorum við farin að leigja íbúðir í yfir hundrað borgum í Evrópu.“

Sesselía og Ragnar þróuðu fyrirtækið frá grunni. „Við keyptum ekkert tilbúið heldur smíðuðum allt platformið sjálf sem kostaði mjög mikla vinnu. Á þessum tíma vorum við með tvö börn og eignumst þriðja barnið á meðan á verkefninu stóð.“

Sesselía þekkir því vel hvernig er að hefja nýtt verkefni á nýjum stað með ekkert nema hugmynd í fararteskinu. „Þetta þótti frekar sérstakt, þarna vorum við að selja ákveðna þjónustu um alla Evrópu án þess þó að vera með yfirbyggingu á þessum stöðum. Þá voru ýmis mál sem þurfti að skoða. Til dæmis hvernig ætti að selja þjónustu án þess að vera á staðnum þar sem þjónustan fór fram. Þetta reyndist virkilega skemmtileg frumkvöðlaáskorun.“  Sesselía steig út úr félaginu fyrir þremur árum og flutti fjölskyldan aftur heim til Íslands þegar henni bauðst stjórnunarstaða hjá stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins.

SKAPANDI STÖRF SEM EIGA VEL VIÐ KONUR
Það er óhætt að segja að tæknigeirinn á Íslandi sé karllægur. Sesselía segir okkur frá því að þau hjá Advania séu mjög meðvituð um þá staðreynd og leggi áherslu á að fá fleiri konur í lið með sér. „Auðvitað finnum við konur fyrir því að vera í minnihluta en meðal stjórnenda er mikil meðvitund um kynjahallann. Við ræðum reglulega um hvernig fyrirtæki í upplýsingatækni geti höfðað meira til kvenna og opnað augu þeirra fyrir möguleikunum sem tæknistörf hafa uppá að bjóða.“ Sesselía segist finna fyrir því að ákveðin staðalímynd sé í gangi í samfélaginu um þessi störf og margir sjái fyrir sér forritara í dimmum herbergjum að kóða allan daginn. „Tæknistörf eru mjög skapandi störf og þannig störf virðast oft henta konum mjög vel“. Advania býður ungum konum í heimsókn þar sem þær fá kynningu á störfunum og hvað í þeim felst. „Við hjá Advania setjum saman dagskrá Haustráðstefnu Advania á ári hverju en það er stór tækniráðstefna sem er haldin í Hörpu. Við  höfum stundum átt í erfiðleikum með að fá kvenfyrirlesara, og erum mjög meðvituð um að bæta úr því.“ Sesselía situr í stjórn Samtaka fyrirtækja í upplýsingatækni en þar starfa ólíkir aðilar saman innan Samtaka Iðnaðarins sem allir horfa á vandamálið með gagnrýnum augum. „Sameiginlega erum við meðvituð um þetta og tökum umræðuna. Fysta skrefið er að auka vitund kvenna á greininni og hvetja konur til þátttöku.“

KONUR EIGA AÐ STEFNA Á STJÓRNENDASTÖRF
Sesselía er forstöðumaður markaðssviðs Advania og situr því í lykilstjórnendahópi félagsins. „Að sjálfsögðu fylgir því heilmikil ábyrgð að stýra markaðsmálum fyrir stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins. Samstarfsfólk mitt eru hins vegar svo frábærir fagaðilar og verkefnin fjölbreytt. Það auðveldar alla erfiða ákvarðanatöku,“ segir Sesselía.  Teymið hennar sér um alla stafræna miðla, alla markaðssetningu og viðburði félagsins. „Verkefnin í vinnunni eru fjölbreytt og hraðinn mikill. Á sama klukkutímanum gætu verið verkefni eins og hönnun á auglýsingum, merkingar á húsnæði félagsins, viðtal við þekkta fyrirlesara erlendis, fréttaskrif, kynning fyrir framkvæmdastjórn. Það er enginn vinnudagur eins.“

Sesselía hefur spáð mikið í ungum konum og þeirra sýn á stjórnendastöður. „Ég tel að ungar stúlkur almennt sjái ekki fyrir sér að starfa sem stjórnendur í framtíðinni. Þetta langar mig að sjá breytast á komandi árum.“ Hún segir mikilvægt að gera greinarmun á frekju og því að hafa markmið í lífinu að taka að sér ábyrgðarstöðu. „Þegar karlmaður stefnir á að vera stjórnandi þykir hann metnaðarfullur en ef kona ætlar sér sömu hluti þá er það kallað framapot.“ Þannig á það ekki að vera og Sesselía bætir við að það sé jákvætt að konur hugi snemma að því ef ábyrgðarstöður liggja fyrir þeim. Það taki tíma að vinna sig upp og krefjist ákveðinnar strategíu. „Það er mikilvægt að tala við ungar stelpur og útskýra þetta fyrir þeim. Margar búa yfir góðum leiðtogahæfileikum. Það að vera ákveðinn og staðfastur er alls ekki neikvætt og getur verið þinn mesti styrkur ef spilað er rétt úr. Mín skoðun er sú að það þyrfti að taka þessa umræðu við stelpur á grunnskólaaldri til þess að hvetja þær áfram.“ Sjálf hefur Sesselía stefnt á að vera stjórnandi frá unga aldri þrátt fyrir að hafa ekki endilega haft hátt um það á yngri árum. „Það að starfa sem stjórnandi hefur alltaf verið mitt markmið en mínir eiginleikar liggja á því sviði, og það er ekkert tabú að hafa þá stefnu.“

Sesselía segist hafa saknað þessarar umræðu. Mikilvægir eiginleikar leiðtoga geta verið hæfni til að rífa hópinn með sér, að vera óhræddur við að prófa eitthvað nýtt og óhræddur við breytingar. „Mitt ráð er að vera opinskár um hvað þú ætlar þér og hvert þú stefnir. Segðu frá því og ekki hika við að biðja um hjálp.“ Sjálf þekkir hún vel hvernig er að koma aftur til landsins eftir 10 ára veru erlendis og þurfa að tengja sig íslensku atvinnulífi uppá nýtt. „Þegar ég kom heim aftur þá gerði ég mér fulla grein fyrir þeirri stöðu sem ég var í en ég var óhrædd við að biðja um aðstoð, hafa samband við konur í svipuðum störfum og mig langaði að stefna í og leita ráða hjá þeim. FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) kom þar að góðu gagni og fannst Sesselíu frábært hversu hjálplegar þær konur voru sem hún leitaði til. „Það hjálpar vissulega að vera vel tengdur. Ég lagði bara spilin á borðið við þær konur sem ég leitaði til. Ég var á ákveðnu langtímaplani og fékk reynslubolta til að kíkja í baksýnisspegilinn hjá sér og deila með mér sinni reynslu.“  Hún telur það mikinn misskilning að það sé endilega samasemmerki á milli þess að standa sig vel í vinnunni og að vera boðin stjórnendastaða. „Auðvitað er það stundum þannig, en venjulega er það einmitt alls ekki þannig. Það er ekki nóg að hvísla, við konur verðum að láta skýrt í ljós að við séum tilbúnar í aukna ábyrgð og ekki hika við að segja það við alla sem valdið hafa.“
Sesselía hitti áhugaverðan kvenstjórnanda hjá Volvo á ráðstefnu í Svíþjóð sem hafði það sem yfirlýsta stefnu að ráða aðeins kvenstjórnendur til sín. „Auðvitað fékk hún ekki að gera það í alvörunni, en þessi stefna hennar stoppaði karlmenn ekki í að sækja um stjórnendastörf heldur varð þetta til þess að konur sóttu um í auknum mæli. Mér finnst þetta mjög áhugavert. Þetta sýnir að það þarf að telja meiri kjark í konur til að fá þær til þess að sækjast í stjórnendastöður, en auðvitað er þetta misjafnt eftir fyrirtækjum.“

Sesselía segir áberandi mun á milli kynjanna þegar kemur að LinkedIn.“Það er áhugavert að bera saman hvernig kynin kynna sig á mismunandi hátt. Við konur þurfum að vera duglegri að gera meira úr okkar hæfni. Við þurfum að vera öflugri í að pakka okkar þekkingu inn og koma sjálfum okkur á framfæri. Það er svo mikilvægt að átta sig á eigin styrkleikum og gera þá að þínu sérsviði. Það er ákveðin strategía. Vertu dugleg að bera þig saman við þá sem þú ert að keppa við um ákveðin sæti og tala við aðrar konur til þess að fá ráð. Einnig er mikilvægt að vera gagnrýnar á sjálfa sig og stefna á það sem mann langar. Ég vil sjá fleiri ungar konur segja það upphátt að þær vilji verða stjórnendur eða taka að sér ábyrgðastöðu. Við eigum að vera grimmar í að sækja þessar stöður, við höfum alla burði, getu og hæfileika í það. Við konur þurfum líka að standa saman og hvetja hver aðra.  Það að vera stjórnandi þýðir alls ekki að maður þurfi að missa af fjölskyldulífinu. Þú þarft að hafa drifkraft og vera fullkomlega sátt við óvissu og áskoranir. Þess vegna er mikilvægt að fólk sjái sig fyrir sér í svona störfum snemma, þetta æfist eins og annað. Ekki gefast upp þó að eitthvað gangi ekki eins og þú sást fyrir þér í fyrstu tilraun. Við höfum kvenstjórnendur hér á Íslandi með frábæra reynslu sem hafa gert frábæra hluti og það er mjög mikið að hæfum konum á vinnumarkaði. Það þarf að hvetja þær áfram.“

Ekki amaleg lokaorð frá Sesseslíu og góð hvatning en hér að neðan má nálgast hennar miðla fyrir þá sem vilja kynnast henni betur.

Linkedin/sesseliabirgisdottir
Medium/sesseliabirgisdottir

 

 

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.