Við fengum hana Heiði Ósk í spjall við okkur til þess að segja okkur frá því hvernig náttúruleg förðunar tíska verður árið 2018. Heiður er 25 ára Viðskipta- og förðunar fræðingur úr Hafnarfirði. Heiður útskrifaðist úr Reykjavík Make up School á síðasta ári og starfar í dag sem verslunarstjóri í versluninni Maí á Garðatorgi. Heiður hefur verið áberandi í förðunarheiminum upp á síðkastið og hefur hún tekið þátt í fjölda verkefna, en hún leggur áherslu á að segja alltaf já við þeim verkefnum sem henni er boðið, enda er reynslan gríðarlega mikilvæg í förðunar heiminum.

Heiður 1
Heiður Ósk

 

Hvernig eru og halda áfram að vera helstu tísku straumarnir þegar kemur að náttúrulegri förðun árið 2018?
Falleg húð og náttúrulega mótaðar augabrúnir halda áfram að vera áberandi. Þegar kemur að vörum er glossinn loksins að koma sterkur inn aftur. Ég er svo ánægð með að glossinn sé að koma aftur að ég get bara ekki hamið mig. Glossarnir koma í öllum regnbogans litum en ég held að ég muni halda áfram að sækjast mest í nude litina. Þeir halda áfram að vera vinsælir.

Hvernig er best að undirbúa húðina áður en farði er settur á til að ná fram sem bestu útkomu?
Fyrir mér er undirstaða fallegrar förðunar fyrst og fremst góður grunnur. Mér finnst húð umhirða mjög mikilvæg og reyni ég sjálf alltaf að hugsa vel um húðina mína með því að þrífa hana vel, nota maska í hverri viku og drekka nóg af vatni til þess að halda henni ferskri og að hún sé full af raka. Þegar kemur að því að undirbúa húðina fyrir förðun finnst mér mikilvægt að byrja á því að renna yfir hana með farðahreinsi svo að ekkert sé eftir á húðinni þegar ég byrja. Ég nota síðan góð rakakrem og huga að því hvernig húðtegund ég er að vinna með. Það eru til góðir farðagrunnar sem sérhæfa sig í mismunandi húðtegundum og nota ég oftast þann farðagrunn sem hentar að hverju sinni. Sjálf nota ég mikið farðagrunna sem minnka svitaholur og gefa ljóma.

Hvaða litir munu vera áberandi út árið?
Þegar það fer að vora fer maður alltaf að sjá bjartari liti koma bæði á augu og varir. Mér finnst ég búin að vera að sjá mjög mikið af fjólubláum undanfarið og spái ég því að það verði litur sumarsins. Litadýrðin í augnförðuninni fer nú kannski ekki aftur til 80’s tímabilsins en þessir litir eru að koma fram í t.d. eyelinerum og settur í innri augnkrók fyrir smá ‘’pop’’ af lit í augnförðuninni. Þegar nær dregur sumri sækist ég alltaf meira í kinnaliti sem eru með smá ljóma í. Ég er einstaklega hrifin af kinnalitunum í extra dimension línunni frá MAC og ‘’bökuðu’’ kinnalitunum frá Milani.

Hverjar eru þínar  uppáhalds förðunarvörur sem þú notar til þess að ná fram sem náttúrulegasta útliti?
Fyrst verð ég að nefna EE kremið frá Esteé Lauder. Þetta krem fær að mínu mati ekki nægilega mikið hrós en held því miður að það sé hætt í sölu hér á landi. EE stendur fyrir ‘’even effect’’ og gefur það létta þekju, ljóma og frísklegt útlit. Fyrir mér er þetta krem algjör nauðsyn í snyrtibudduna hjá öllum. Þegar ég vil náttúrulega förðun reyni ég að sleppa hyljara en á dögum sem það er ekki í boði set ég léttan hyljara undir augun og á bólur ef þær eru til staðar. Uppáhalds létti hyljarinn minn er Aqua Luminous hyljarinn frá BECCA. Síðan elska ég að nota steinefnapúður. Það gefur fallegan ljóma og náttúrulegt útlit. Ég nota oftast Wonder Powder frá Make Up Store eða Mineralize skinfinish frá MAC. Næst verð ég að nefna Brow Definer frá Anastasia Beverly Hills, vara sem hægt er að nota á nokkra vegu en er fyrst og fremst mjög auðveld í notkun og fljótleg. Fyrir þá sem eru með flottar og náttúrulegar augabrúnir er nóg að nota bara augabrúnagel. það er hægt að fá það litað og glært eftir því hvað hentar best. Sólarpúður á rétta staði getur gert ótrúlega hluti, ég set oftast sólarpúður undir kinnbein og kjálka og meðfram hárlínunni á enninu. Á sumrin set ég líka örlítið á nefið en mér finnst það gefa náttúrulegt útlit því maður fær jú mjög oft lit á nefið og á miðju andlitsins í sólinni.

Þegar það kemur að ljóma eða ‘’highlight’’ þá verð ég að nefna vörumerkið BECCA, en það er tiltölulega nýtt hér á landi. Þetta merki er eitt af mínum uppáhalds þegar kemur að highlighterum. Litirnir sem ég nota í púðurhighlighterunum eru  Champagne pop og Opal. Ég fýla ekki mikla augnförðun þegar ég vil hafa hlutina náttúrulega og læt því sjaldan maskara. Það getur gert ótrúlega mikið að einungis bretta augnhárin og setja andlitslitaðan eyeliner í votlínuna, augun virðast mun stærri og frísklegri. Fyrir þá sem að finnast maskari nauðsynlegur þá mæli ég eindregið með Lash Paradise frá Loréal. Hann er ódýr og geggjaður. Síðast en ekki síst er gott að spreyja andlitið með góðu rakaspreyi, þá losnar maður við púður áferð og förðunin lítur nátturulega út.

Heiður 2

 

Hvernig er best að fá farðann til að haldast sem best á löngum vinnudögum?
Ef ég vil að farði eða förðun yfir höfuð haldist vel á finnst mér mikilvægt að ‘’setja’’ fljótandi förðunarvörur eins og farða og hyljara með púðurvörum. Hér kemur líka strax ein vara upp í höfuðið á mér en það er All nighter setting spreyið frá Urban Decay, það heldur farðanum mínum á sínum stað þangað til ég vil taka hann af og er það vara sem ég gæti alls ekki verið án.

Eru einhverjar sérstakar vörur sem gott er að hafa í veskinu til að fríska upp á sig?
Ég er vanalega með púður, sólarpúður og varalit/varablýant ef ég er með litaðar varir, annars bara gloss. Ég veit að það fer að vera algengara að vera með lítið rakasprey í veskinu bara aðeins til að halda raka í húðinni og fríska uppá hana, finnst það alls ekki slæm hugmynd.

Ertu með góð ráð fyrir konur til þess að velja þann eina rétta farða sem hentar þeirra húðgerð?  
Fyrir fólk með olíumikla húð mæli ég með olíulausum fljótandi farða og góðum farðagrunn sem mattar húðina og dregur úr olíuframleiðslu. Þegar kemur að farða fyrir þurra húð er ég með aðeins meiri reynslu í þeim málum þar sem ég er með frekar þurra húð sjálf,en ég hallast frekar að krem kenndum förðum í augnablikinu. Mér finnst þeir gefa góðan raka og fallega áferð. Ég mæli einnig eindregið með því að fara í verslanir sem selja förðunarvörur og fá aðstoð hjá sérfræðing við litaval og fá að prufa farðann og vera með hann á húðinni í nokkra klukkutíma til að sjá hvort maður fýli hann eða ekki.

Hvaða förðunarvörur henta best fyrir þær sem eru byrjaðar að fá línur í andlit og þurra húð?
Eins og ég nefndi hér aðeins að ofan finnst mér  grunnurinn alltaf skipta miklu máli þegar það kemur að fallegri förðun. Gott serum ásamt dag- og næturkremi getur gert kraftaverk. Á eldri húð finnst mér alltaf fallegast að nota mattan farða og reyna því að nota minna púður. Eitt sem ber að varast þegar mattur farði er notaður, er að velja réttan lit, mér finnst oft fallegra að velja lit sem er örlítið (þá meina ég ööörlítið) dekkri en húðliturinn manns því mattur farði sem er of ljós getur látið húðina virka mjög líflausa.

Heldur “highlightið” áfram að koma sterkt inn?
Persónulega er ég mjög hrifin af highlight og vona ég að það haldi áfram að vera áberandi. Fallegur ljómi á réttum stöðum getur sett punktinn yfir i-ið og gefið heildar útlitinu frísklegt yfirbragð.

Heiður Ósk er mikill viskubrunnur þegar kemur að förðun og góðum ráðum.  Við erum handvissar um það að við eigum eftir að sjá meira af Heiði Ósk í nánustu framtíð, en hún er einmitt um þessar mundir að byrja að elta drauminn að sameina áhugamál og menntun, viðskiptafræði og förðunarfræði. Við erum spenntar að fylgjast með Heiði Ósk og þið sem hafið áhuga á því að fylgjast með henni þá eru samfélagsmiðlar hennar hér fyrir neðan.

Instagram: heidurosk & heidiosk
Facebook: Makeupbyheidurosk
Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.