Það geta komið tímabil í lífi flestra, bæði í leik og starfi að verkefnalistinn verði lengri en meðal einstaklingur á að ráða við, hver kannast ekki við það? Öll erum við ólík og ráðum mis vel við þessi tímabil þar sem verkefnin virðast endalaus og tíminn ekki nægur til þess að ljúka þeim á réttum tíma. Hér ætlum við að stikla á stóru og gefa góð ráð þegar kemur að forgangsröðun verkefna.

 1. Hafðu góða yfirsýn yfir þau verkefni sem bíða þín
  Að hafa yfirsýn getur skipt öllu máli til þess að geta skipulagt sig og forgangsraðað. Skrifaðu niður öll þau verkefni sem bíða. Þú getur skipt þeim niður í flokka, t.d vinnan, heimilið, áhugamálin, börnin og svo framvegis. Settu niður öll verkefnin, sama hversu lítil þau eru. Sem dæmi  má nefna: Taka til í geymslunni, skipta um ljósaperu, kaupa útiföt á barnið, skila ritgerðinni, læra undir prófið og búa til glærukynninguna í vinnunni. Þetta er oft nóg til þess að koma sér af stað, og afar góð tilfinning að merkja svo við þegar verkefnunum er lokið.
 1. Merktu verkefnin frá 1 upp í 5
  Gott er að byrja á því að merkja verkefnin frá 1 upp í 5 eftir mikilvægi verkefna. Þar sem 1 er mikilvægast og 5 má bíða. Þú mátt merkja fleiri en eitt verkefni með 1 og fleiri með 5. Aðal atriðið er að sjá hvernig verkefnin skiptast niður og þannig er auðveldara að forgangsraða því hvað þarf að gerast strax og hvað má bíða.
 1. Skráðu lokadag fyrir hvert verkefni
  Settu fyrir aftan hvert verkefni lokadagsetningu sem verkefnið verður að klárast. Ef það eru mörg verkefni sem þurfa að klárast á sama degi þá er það í lagi, bara taka eitt í einu og skipuleggja þann dag vel. Það er gott að sjá það strax ef þú sérð að skilafrestur á verkefnum lenda öll á sama degi, þá er hægt að bregðast við því.
 1. Útdeildu verkefnum ef þú getur
  Eru mörg af þessum verkefnum mögulega eitthvað sem aðrir geta gert? Fjölskyldumeðlimir, vinir, samstarfsmenn, skólafélagar? Athugaðu hvort að einhver í kringum þig sé ekki til í að aðstoða með það sem þú þarft að gera. Margar hendur vinna létt verk. Það er oft svo fast í manni að maður þurfi að gera allt sjálfur, en það er virkilega góður eiginleiki að geta útdeilt verkefnum. Svo er það bara skemmtilegra að geta unnið verkefnin í sameiningu.
 1. Nýttu þér tæknina til þess að hjálpa þér að forgangsraða
  Tæknin í dag er geggjuð! Það er hægt að nýta hana til þess að hjálpa sér með ótrúlegustu hluti. Við höfum áður skrifað grein um skipulagsforrit sem hægt er að nýta sér í daglega. Endilega nýttu þér þau. Maður er alltaf með símann við hendina og auðvelt að setja inn verkefnin þegar maður man þau og hafa þau öll á sama stað. Smáforritið Trello er mjög gott til þess að ná yfirsýn yfir allt sem maður þarf að gera. Það nýtist  vel til þess að skipta verkefnunum niður, setja lokadagsetningu á þau og jafnvel að útdeila þeim með öðrum. Svo er það góð tilfinning að færa verkefnin í afgreitt.

Það sem hentar einum hentar alls ekki öðrum. Því er um að gera að koma sér upp því skipulagi sem hentar þér. Mælt er með því að vera ekki að vinna að mörgum verkefnum í einu ef möguleiki er, taka frekar eitt verkefni fyrir í einu og klára það. Það er heilsubætandi að hafa góða yfirsýn yfir verkefnin sín þar sem það kemur í veg fyrir streitu og kvíða. Það getur einnig bætt svefn. Byrjaðu því strax í dag að skipuleggja þig og forgangsraða! 🙂

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.