Hingað skaltu koma ef þú vilt vera í sambandi við vilta náttúruna en að öðru leiti vera „offline“. 

Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndir þú þá fara? Ein hugmynd væri að horfa í átt til Svíþjóðar, enda stutt að fara og þar er að finna dásamlegt hótel hannað og framleitt af VIPP. Fyrirtækið er betur þekkt fyrir stál ruslatunnurnar sínar sem hannaðar voru árið 1939 af Holger Nielsen og finnast út um allan heim, þar á meðal á MoMA listasafninu í New York.

Það er frí internettenging á Shelter og fuglasöngurinn í skóginum kostar heldur ekki neitt.

VIPP hefur nú þegar hannað tvö hótel, eitt í Danmörku og annað í Svíþjóð, en von er á því þriðja með vorinu. Hótelið í Svíþjóð má finna inni í skógi við Lake Immeln í Svíþjóð og kallast „Shelter“. Ef þú bókar á hótelinu, þá er fullbókað, enda bara um eitt hús að ræða til útleigu, 55 fermetrar að stærð.
Það sem einkennir Shelter er stórbrotið útsýni þar sem stórir gluggar umlykja húsið og varla hægt að gera greinamun á því hvort maður sé staddur inni eða úti í náttúrunni.

Sofna undir stjörnunum og vakna undir bláum himni – já, takk.

Martin Bo Jensen er hönnuður hússins og sótti innblásturinn helst í stór farartæki eins og flugvélar, ferjur og kafbáta. Farartækjum sem eru laus við alla óþarfa aukahluti. VIPP Shelter er einskonar hleðslustöð fyrir fólk, þar sem þú tékkar þig út frá amstri dagsins og inn á hótelið. Nýtur þess að liggja upp í rúmi og horfa á stjörnubjartan himininn áður en þú sofnar.
Allt sem viðkemur húsinu er hannað af VIPP, frá gólfi til lofts og allt þar á milli. Ljós, sængurver, borð, innréttingar og yfir í klósettburstann. Meira segja lykillinn að húsinu er með sérhönnuðu vasaljósi á lyklakyppunni. Tíu þúsund skrúfur voru notaðar til að setja húsið saman og hver og ein hefur sinn tilgang.

Eldhúsið er miðja hússins og gefur góða mynd af hráleikanum sem Vipp notar í hönnun sinni og efnisvali. Litirnir eru dökkir í öllu húsinu og húsmunum, sem leiðir athyglina að því sem skiptir máli, náttúrunni utandyra.

Það er ekkert að þessu útsýni.
Glæsilegt baðherbergi. Hér má sjá glitta í ruslatunnuna sem byrjaði ferilinn hjá VIPP.
Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.