Flest drögum við línuna einhvers staðar þegar kemur að framkomu annarra og tilætlunarsemi. Segjum jafnvel að einhver hafi farið algjörlega yfir strikið, það sé komið að þolmörkum og svo framvegis? Þetta getur bæði átt við um vinnuna og einkalífið en virðum við sjálf þessar línur sem við setjum?

Við höfum öll mismunandi gildi og hugmyndir um hvað það er sem við sættum okkur við. Okkar persónulegu mörk snúast yfirleitt um hvað við sættum okkur við í framkomu annarra og hvað við leyfum okkur í samskiptum við annað fólk. Við þurfum að ákveða hvað skiptir okkur máli og hvers vegna svo við getum ákveðið okkar persónulegu mörk. Að setja mörk er einfaldlega það að segja nei, nei við ákveðinni framkomu, hvort sem það er framkoma annarra eða okkar eigin eða nei við ákveðnum hlutum sem við viljum ekki gera. Sumir eiga erfiðara en aðrir með að fá svarið nei og það er ekki okkar vandamál. Hvaða foreldri kannast ekki við að barnið verði fúlt ef það fær svarið nei? Fullorðið fólk getur verið alveg eins þegar það fær ekki það sem það biður um.

Að setja mörk reynist mörgum erfitt og þá aðallega af ótta við að hljóma dónaleg eða óviljug til aðgera það sem beðið er um. Það er nauðsynlegt að draga línuna einhvers staðar svo við getum náð jafnvægi í leik og starfi. Við gleymum oft að setja okkur persónuleg mörk sem vernda okkur fyrir áhrifum frá öðrum en hjálpa okkur um leið að verða besta útgáfan af okkur sjálfum, bæði í vinnunni og heima. Mörkin sem við setjum í vinnunni vernda einkalífið og öfugt.

Mundu:

Fólk þarf ekki að vera sammála þér og í rauninni skiptir engu máli hvort fólk skilji mörkin sem þú setur og hver vegna. Það sem skiptir máli er að fólk virði þau.

Fólk fer yfirleitt “yfir strikið” þegar við erum ekki nógu ákveðin í að virða okkar eigin mörk en líka ef fólk veit ekki af þeim.

Stundum þurfum við að setja mörk í stuttan tíma, til dæmis til að ná ákveðnu takmarki eða á miklum álagstíma í vinnu eða einkalífi. Þá er gott að láta vita af þeim til að forðast flækjur.

Það er allt í lagi að segja nei við því sem við viljum ekki gera eða láta yfir okkur ganga. Að útskýra fyrir viðkomandi hvers vegna við segjum nei er svo algjörlega undir okkur sjálfum komið. Ef við sjálf virðum ekki mörkin okkar hvernig ætlum við þá að fá aðra til þess?

Hafdís Bergsdóttir
Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.

Author: Hafdís Bergsdóttir

Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.