Hjördís Hugrún Sigurðardóttir er búsett í Zürich, Sviss þar sem hún starfar við breytingastjórnun í höfuðstöðvum ABB. ABB er alþjóðlegt tæknifyrirtæki  sem framleiðir allt frá vélmennum, hleðslustöðvum fyrir rafbíla og háspennulínum yfir í stýrikerfi fyrir heimili, líkt og ABB free@home. Hjördís Hugrún ákvað að hún vildi læra iðnaðarverkfræði þegar hún var aðeins átta ára  og hélt sig heilshugar við það. Hún er formaður Stuðverks – skemmtifélags verkfræðikvenna og tók sig til og gaf út bókina Tækifærin með fróðleik og viðtölum við 50 íslenskar konur ásamt móður sinni Ólöfu Rún Skúladóttur.

Við notuðumst við tæknina þegar við náðum tali af  Hjördísi Hugrúnu eitt ágætis síðdegi í febrúar. Það er í raun magnað að geta setið hvor í sínu landinu og spjallað á FaceTime en eins og fram kom er Hjördís Hugrún búsett í Zürich, Sviss.

Hún ólst upp í Garðabæ og er næst elst fimm systkina. Faðir hennar, Sigurður Þór Ásgeirsson sem er iðnaðarverkfræðingur,  kom henni á sporið með hvað draumastarfið hennar yrði, þegar hún var aðeins átta ára. ,,Mér fannst hann vera í svo spennnandi vinnu sem framkvæmdastjóri og svo var hann alltaf að smíða og mjög framkvæmdaglaður bæði heima og í sveitinni. Mig langaði að kunna og geta allt sem pabbi gat.” Segir Hjördís Hugrún og brosir.
Leiðin lá í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í B.Sc. í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þá fór Hjördís Hugrún í meistaranám í ETH, tækniskólann í Zürich. ,,Samhliða því að stunda meistaranámið fór ég að vinna fyrir háskólann. Í framhaldi af því fékk ég svo tækifæri til þess að verða markaðsstjóri í sprotafyrirtæki sem var stofnað út frá rannsóknum háskólans. Það var virkilega skemmtilegt að takast á við þá áskorun og í kjölfarið langaði mig að gera eigið verkefni.”

ÆVINTÝRALEGT VERKEFNI AÐ GEFA ÚT BÓK
Hjördís Hugrún er einnig formaður Stuðverks – skemmtifélags verkfræðikvenna en félagið heldur ýmsa viðburði og samkomur. ,,Við höfðum haldið nokkra viðburði þar sem konur, sem hafa náð langt í atvinnulífinu deildu hvetjandi og áhugaverðum sögum. Mér fannst að það ætti að vera til bók með öllum þessum fróðleik, þar sem flottar fyrirmyndir deildu leið sinni í starfið, reynslu og ráðum.” Segir Hjördís sem fékk þá frábæru hugmynd að gera og gefa út bók sem innihélt viðtöl við þessar áhugaverðu konur.

,,Mamma mín, Ólöf Rún Skúladóttir er fjölmiðlakona og hefur unnið í fréttum, sjónvarpi, útvarpi og á tímaritum og tekið þó nokkur viðtöl í gegnum tíðina. Einn daginn datt mér í hug að ég gæti fengið hana með mér í að skrifa viðtalsbók. Mamma var til í þetta ævintýralega verkefni með mér. Við tókum viðtöl við 50 íslenskar konur sem sinna áhugaverðum störfum á sviði verkfræði, tækni og raunvísinda um víða veröld. Eva Lind Gígja tók ljósmyndir sem grípa persónuleika viðmælanda á einstakan hátt og  Jónatan Arnar Örlygsson setti bókina upp. Þannig varð  bókin Tækifærin  til” segir Hjördís Hugrún spennt en þær mæðgur ferðuðust um Bandaríkin og hún einnig um Evrópu og Ísland til þess að hitta viðmælendur í sínu starfsumhverfi og heyra þeirra sögur.

,,Að fylgja bókinni allt frá hugmynd og út á markað vakti hjá mér eldmóð. Ég stofnaði fyrirtæki, safnaði fjármagni, greindi markaðinn til að finna viðmælendur og fann út úr því hvernig ætti að gefa út bók. Ég varð í raun heltekin af verkefninu, ég bjó hér í Zürich á þessum tíma og til dæmis á gamlárskvöld vildi ég ekki fara út að skála fyrir nýju ári, ég var upptekin við að skrifa. Ég hef reynt að finna meira jafnvægi á milli vinnu og frítíma síðan.“ segir Hjördís Hugrún og brosir út í annað.  ,,Þetta voru nett sturlaðir níu mánuðir en að fá bókina Tækifærin í hendurnar, bókina sem að mér fannst að ætti að vera til, bókina sem við unnum saman að af mikilli þrautseigju, var stórkostlegt og ég er mjög stolt af okkur og glæsilegu bókinni okkar Tækifærin. Einstök vinátta bæði mín og mömmu og okkar Evu er einnig ómetanleg útkoma úr þessu ævintýri.“

ÍSLAND TOGAR AÐEINS Í
Hjördís Hugrún segir lífið í Zürich alltaf vera áhugavert, hún segir borgina vera smáborg með ákveðinn stórborgarfíling. ,,Zürich er dásamleg borg, hér eru mörg áhugaverð alþjóðleg fyrirtæki með höfuðstöðvar sínar, tignarlegar byggingar og margt um að vera en á sama tíma er hægt að hjóla í raun hvert sem er, loftið er hreint og náttúra allt í kring. Á sumrin er hægt að synda bæði í ánni Limmat sem rennur í gegnum borgina og í Zürich vatni og alparnir eru svo til í bakgarðinum og fjölmörg frábær skíðasvæði í 1-2 klukkustunda fjarlægð frá borginni. Zürich er mjög miðsvæðis í Evrópu og héðan er auðvelt að skreppa í helgarferðir til Ítalíu, Spánar, Frakklands og Þýskalands til dæmis.” Segir Hjördís Hugrún og brosir.

Eins og fram kom vinnur Hjördís hjá ABB sem er stórt alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Zürich en hún segir það  mjög áhugavert.  ,,Við erum með starfsemi í yfir 100 löndum og hjá fyrirtækinu vinna tæplega 135 þúsund manns. Höfuðstöðvarnar eru því eins og gefur að skilja mjög alþjóðlegt umhverfi og til dæmis þar sem ég sit erum við 22 starfsmenn af 17 ólíku þjóðerni. Mitt teymi vinnur að breytingaverkefnum með spennandi vörur sem eru að þróast og breytast með fjórðu iðnbyltingunni og við vinnum með verksmiðjum og fyrirtækjum um allan heim sem er fjölbreytt og skemmtilegt.“
Ísland togar þó líka í hana og hún gæti einnig vel hugsað sér að búa hér á landi. ,,Þegar ég er á landinu reyni ég oftast að skipuleggja viðburði á vegum Stuðverks, það er virkilega spennandi að fá innsýn inn í atvinnulífið heima líka, Íslendingar geta verið svo skemmtilega sveigjanlegir og oft hægt að keyra breytingar og verkefni áfram mjög hratt.”

SKEMMTILEGAR ÁSKORANIR ALLTAF Í UPPÁHALDI
,,Að vera innan um lífsglatt og drífandi fólk finnst mér frábært og ég hef mjög gaman af allri hreyfingu og útivist, góð tónlist er ómissandi og skemmtilegar áskoranir eru í miklu uppáhaldi. Ég æfi nú nokkuð reglulega en skráði mig t.d. í þríþraut með tveggja vikna fyrirvara síðasta sumar og það var æðislegt, það er einstaklega skemmtilegur andi og mikil gleði í kringum svona keppnir.”

Hjördís Hugrún hefur mjög gaman af því að ferðast og finnst skemmtilegt að hafa frelsi til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, bæði í vinnunni og í frítíma. ,,Ég ferðaðist til að mynda með vinkonu minni um Argentínu og Úrúgvæ um síðustu jól og áramót, við vorum búnar að vera að tala um að okkur langaði á hestbak á strönd en svo var bara svo margt um að vera og við gáfum okkur ekki tíma í að finna út hvar við gætum farið í reiðtúr. Ég var að fljúga á  frímiða og flugin voru öll yfirbókuð svo ég endaði á að vera ein nokkra daga og eitt kvöldið þegar ég var enn eina ferðina í rútunni á leið til Buenos Aires til baka frá flugvellinum ákvað ég að nú færi ég á hestbak. Á meðan ég sat í rútunni googlaði ég og fann stað í Úrugvæ þar sem ég kæmist í hestaferð, ég hafði samband og fékk pláss morguninn eftir. Eldsnemma morguninn eftir tók ég ferjuna yfir til Colonia de Sacramento í Úrúgvæ. Tilfinningin, að hafa fundið út úr þessu, að redda sér á spænsku og vera komin á hestbak, á stökki á ströndinni á Úrúgvæ var algjörlega einn af hápunktum ferðarinnar!”

VINNUM BEST SAMAN
Hjördís Hugrún segir verkfræðigeirann vera frekar karllægan,  sérstaklega úti, en í hennar teymi eru aðeins karlar. ,,Hér er algjör undantekning ef það er önnur kona á fundum með mér, það er yfirleitt bara ég og strákarnir“ segir hún kímin. ,,Hjá ABB vinna þó einnig aðrar konur með tæknibakgrunn, en fyrirtækið er bara svo stórt og við í miklum minnihuta. Ég er oft á fundum þar sem eru kannski hátt í 15 manns og ég er eina konan, það er auðvitað frekar spes en það venst einhvern veginn. Fyrir vikið finnst mér þó viðburðirnir heima með Stuðverki enn dýrmætari, að hitta konur í sama geira er hvetjandi.” Segir hún og bætir við:  ,,Að vera kona í þessum geira hér myndi ég segja að vinni í rauninni bæði með manni og á móti. Ég tel bestu útkomuna fást þegar konur og karlar vinna saman.”

EKKI ALLTAF AUÐVELDASTA LEIÐIN
Hjördís Hugrún segir mikilvægt að láta á drauma sína reyna; maður sjái aldrei eftir því. ,,Ég elti drauma mína og reyni að láta þá rætast. Það er ekki alltaf auðveldasta leiðin að fara og draumarnir rætast ekki nákvæmlega allir alltaf, en þegar það er eitthvað sem ég virkilega vil og hef trú á, þá geri ég allavega  allt sem í mínu valdi stendur til að láta það rætast.” Segir Hjördís Hugrún hvetjandi og heldur áfram: ,,Til dæmis þegar við vorum að gera bókina og ég var að leita að styrkjum, þá var eitt af stóru tæknifyrirtækjunum sem sagði nei í byrjun verkefnisins. Ég trúði því bara ekki að þau virkilega vildu ekki vera hluti af þessu flotta verkefni svo að nokkrum mánuðum seinna hringdi ég bara aftur. Kannski var ég komin með skýrari sýn og orðin betri í að kynna verkefnið ég veit það ekki, hvað sem það var þá allavega endaði ég á að fá já þá.” Segir hún brosandi og bætir við að stundum þurfi líka bara að sætta sig við vonbrigðin. ,,Stundum verður maður svo bara að sætta sig við að hlutirnir ganga ekki upp. En ég vil frekar þurfa að sætta mig við einhver vonbrigði, en að hafa ekki kjarkinn til láta á það reyna. Ég held að ég sé hamingjusamari fyrir vikið, því oftar en ekki rætast óskirnar, kannski bara á aðeins annan hátt en ég hafði upprunalega séð fyrir mér.” Varðandi góð ráð bætir hún við að þolinmæði og ákveðin seigla geti komið sér mjög vel. ,,Ég er ekki sérstaklega þolinmóð að eðlisfari, oftar með svokallaða straxveiki – þegar mér dettur eitthvað sniðugt í hug vil ég yfirleitt gera það strax, en ég er að verða nokkuð góð í að vera líka svolítið þolinmóð og njóta stundarinnar. Nokkru eftir að ég var búin með B.Sc. gráðuna og var að leita að vinnu sem væri tengd verkfræðinni fékk ég bara engin jákvæð svör. Ég vildi vinna og endaði svo á að fara að vinna í leikskóla og mér fannst það svolítið erfitt. Ég sem var búin að vera svo dugleg, taka 2 síðustu árin í MR á einu ári, klára verkfræðigráðuna beint eftir og svo fékk ég bara enga vinnu tengda náminu og varð smá bitur. Ég naut þess alveg að vinna á leikskólanum og vera með krökkunum, en ég hefði getað slakað aðeins á og notið þess meira. Stuttu síðar hafði svo verkfræðistofa samband og vildi endilega fá mig í vinnu þar sem þau voru að fara að vinna að verkefni fyrir álver og ég var með verkfræðigráðu og hafði líka unnið í álveri mörg sumur svo ég þekkti vel til hvernig allt virkaði þar. Öll reynsla er reynsla og víða lærir maður meira en maður gerir sér grein fyrir. Dýrmæt þekking getur verið margs konar. Þetta undirbjó mig líka bara til að höndla annað betur síðar. Þótt manni finnist kannski ekki eins og maður sé alltaf að fara áfram, jafnvel aftur á bak, til hægri eða vinstri snú, Þá er líka hægt að taka stór stökk fram á við ef maður tekur alltaf aftur upp þráðinn og heldur áfram að finna sína leið. Hlutirnir geta líka breyst rosalega hratt, svo það er algjör synd að að detta í eitthvað vonleysi eða volæði, um að gera að einbeita sér að því að njóta hvers tímabils.

Jákvæðni er líka einhver besti ferðafélaginn og svo er bara að muna eftir þakklætinu. ,,Eins og Ásgeir afi minn segir: ef maður er þakklátur er ekki hægt að vera niðurlútur á sama tíma, það bara fer ekki saman. Og það er alltaf eitthvað sem hægt er að vera þakklátur fyrir; heilsuna, að geta hreyft sig, fjölskylduna, góða vini, eða bara mjög góðan kaffibolla.”

Hjördís Hugrún er virkilega áhugaverð kona að gera flotta hluti, við erum aldeilis spenntar að fylgjast með henni áfram. Einnig er hægt að kynna sér betur og kaupa bókina Tækifærin hér.

Instagram/hjordishugrun
Instagram/taekifaerin

 

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.