Flestir hafa einhverntímann heyrt að það sé mikilvægt að borða reglulega, en eflaust mjög margir sem gleyma að borða yfir daginn, gefa sér ekki tíma eða fresta máltíðum.

Óregla á máltíðum er oftar en ekki ástæða fyrir þreytu, orkuleysi og getur haft áhrif á fæðuval, skammtastæðir og þyngdaraukningu. Ef fólk borðar óreglulega eða sleppir úr máltíðum er hættara við að það verði of svangt í næstu máltíð og þá er meiri hætta á að það borði yfir sig og freistist í sætindi og aðra skjótfengna orku.

Fyrstu skrefin í átt að bættri heilsu er m.a. mataræði og matarvenjur, en gott er að byrja á að skoða máltíðamynstrið áður en lengra er haldið. Reglulegt máltíðarmynstur felur í sér að borða á 2-4 klst. fresti þrjár aðalmáltíðir (morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur) og 1-3 millibita yfir daginn. Kostirnir við reglulegt mataræði eru fjölmargir:

 • Getur stuðlað að aukinni fjölbreytni í fæðuvali
 • Getur komið jafnvægi á blóðsykur og þar með hjálpað til við að draga úr þreytu og pirringi
 • Getur dregið úr ofáti og stjórnleysi gagnvart mat
 • Hjálpar til við að draga úr narti yfir daginn
 • Heldur efnaskiptum og brennslu líkamans stöðugri
 • Getur hjálpað til við þyngdarstjórnun

Það getur þó reynst mörgum erfitt að koma reglu á mataræðið en þá getur verið gott að huga að eftirfarandi punktum:

 • Skipuleggja vel matarinnkaupin
 • Skipuleggja máltíðir fram í tímann
 • Ekki láta líða meira en 4 klst milli máltíða
 • Elda meira en þarf í kvöldmat til að eiga afganga í hádeginu daginn eftir
 • Vera ávallt með lítinn millibita í töskunni, t.d ávexti, hnetur, möndlur, orkustykki eða skyrdós

Hér má sjá dæmi um hollt, fjölbreytt og reglulegt mataræði

Morgunmatur: Hafragrautur með léttmjólk, fræjum og niðurskornum eplabitum. Lýsi
Millibiti: Ávöxtur og lúka af möndlum eða hnetum
Hádegismatur: Vefja með kjúkling, hrísgrjónum, avókadó, grænmeti og sýrðum rjóma eða afgangur af kvöldmat frá deginum áður
Millibiti: Skyrdós og flatkaka með hummus og niðurskornu grænmeti
Kvöldmatur: Ofnbakaður lax með kartöflum, grænmeti og sósu

Með því að borða hollt og reglulega yfir daginn er hægt að halda svengd í skefjum og orku í jafnvægi.

Aníta Sif Elídóttir
Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.

Author: Aníta Sif Elídóttir

Aníta Sif Elídóttir er 26 ára og búsett í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BS.c gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2013 og M.Sc gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2015. Ásamt því að skrifa fyrir framinn.is starfar hún sem næringarfræðingur á Landspítala, Heilsuborg og á Rannsóknarstofu RHLÖ.