Sjúk ást er titill átaks sem Stígamót standa fyrir, með átakinu er verið að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda meðal ungmenna. Markmið átaksins er að koma í veg fyrir ofbeldi með fræðslu um einkenni ofbeldissambanda og áherslu á virðingu í samböndum. Sérstaklega er sjónum beint að því að kynna hugtakið mörk og valdefla ungt fólk til að standa með sjálfu sér.

#Metoo byltingin hefur sýnt fram á verulega bresti í samskiptum fólks – sér í lagi þar sem ofbeldi og áreitni er beitt í krafti aðstöðumunar og valds. Kynferðisofbeldi er útbreitt vandamál með alvarlegar afleiðingar.

Stígamót vilja með átakinu að öflug og stöðug kynfræðsla verði kennd í grunnskólum og framhaldsskólum þar sem þættir eins og samskipti, virðing og mörk eru í öndvegi. En í dag er mest áhersla lögð á líffræðilega hlið kynfræðslu, svo sem þunganir, æxlunarfæri og kynsjúkdóma, en lítil krafa er gerð um fræðslu um samskipti, tilfinningar, mörk, sjálfsmynd, kynverund, kynhneigð og ofbeldi. En það síðara nefnda er nauðsynlegt veganesti út í lífið og getur haft veruleg áhrif til góðs í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.

Stígamót hafa sett á laggirnar fræðsluvefinn sjúkást.is þar sem upplýsingar um einkenni heilbrigðra og óheilbrigðra sambanda eru sett upp skilmerkilega sem og annað fræðsluefni sem viðkemur málefninu. Þar standa þau einnig fyrir undirskriftarsöfnun með ákalli til ráðherra menntamála um að bæta kynfræðslu í skólum. Með því að skrifa undir ert þú að skora á menntamálaráðherra til að beita sér í að efla kynfræðslu á öllum skólastigum og gera henni góð skil í námskrám svo öll börn og ungmenni fái fræðslu um samskipti, mörk og ofbeldi í kynfræðslu. Einnig að kynfræðsla og kynjafræði verði skyldufag í grunnmenntun kennara.

Með bættri kynfræðslu er hægt að stemma stigu við áhrifum klámvæðingar og hjálpa ungmennum að setja sín eigin mörk í samböndum sem og kynlífi og þannig standa með sjálfu sér.

Viðbót: Undirskriftarsöfnuninni lauk 6 mars síðast liðinn og voru afhentar tæpar 4.000 undirskriftir til menntamálaráðherra Lilju Daggar Alfreðsdóttur.

Arnbjörg Baldvinsdóttir
Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.

Author: Arnbjörg Baldvinsdóttir

Arnbjörg Baldvinsdóttir er 28 ára. Hún býr í Kópavogi ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún er menntaður margmiðlunarhönnuður frá Óðinsvé í Danmörku með áherslu á markaðsfræði. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún sem Viðskiptastjóri hjá 66°Norður.