Ert þú farin/n að huga að rétta sumarstarfinu? Hvort sem að þú ert í námi eða að gera eitthvað annað skemmtilegt yfir vetrartímann þá er alltaf gott að byrja að skipuleggja sumarið tímanlega. Sumarið er nefnilega að nálgast óðfluga og mörg fyrirtæki landsins eru nú byrjuð að auglýsa og leita eftir réttu einstaklingunum til þess að starfa með í sumar. Hér eru nokkur góð ráð til þess að skipuleggja sumarið og landa draumastarfinu.

Farðu yfir ferilskrána þína
Farðu yfir ferilskrána þína og uppfærðu hana ef það er kominn tími á það. Það er alltaf gott að fara vel yfir og fínpússa hana. Hér eru góð ráð fyrir ferilskrána.

Ræddu við meðmælendur þína og tengslanet
Mörg sumarstörf eru ekki auglýst og því gott að ræða við þitt tengslanet og láta vita af þér. Ræddu einnig við þína meðmælendur um hvort að það sé ekki örugglega í lagi að það sé leitað eftir meðmælum hjá þeim.

Gerðu lista yfir þau fyrirtæki sem að þig langar mikið að starfa hjá
Skrifaðu niður fimm fyrirtæki sem að þér finnst spennandi og bjóða upp á þannig umhverfi að þú sért einnig að læra eitthvað nýtt og áhugavert yfir sumartímann. Einnig eru oft góðar líkur á áframhaldandi starfi eftir sumartímann og því um að gera að sækja strax í þann vettvang sem að tengist þínu áhugasviði. Forgangsraðaðu fyrirtækjunum sem þig langar mest að starfa hjá og skoðaðu hvort að þau séu farin að auglýsa eftir sumarstarfsmönnum. Ef ekki, þá er alltaf gott að senda inn almenna umsókn og taka fram að þú sért að leitast eftir sumarstarfi.

Útbúðu kynningarbréf
Þegar þú veist nokkurn veginn á hvaða vettvangi þú vilt starfa þá er auðvelt að útbúa kynningarbréf. Í bréfinu segir þú lítillega frá þér á ítarlegri hátt en í ferilskránni og dregur einnig fram þá eiginileika sem þú telur þig hafa í það starf sem þú sækist eftir. Hér eru að finna góð ráð fyrir kynningarbréfið.

Undirbúðu þig undir atvinnuviðtöl
Það er gott fyrir alla að undirbúa sig fyrir atvinnuviðtöl. Atvinnuviðtöl geta valdið manni kvíða og stressi, og því meira sem maður undirbýr sig þá eru meiri líkur á því að stressið taki ekki völdin. Farðu yfir þína styrkleika og veikleika, kynntu þér fyrirtækin, farðu yfir þína hæfni og eiginleika. Maður getur nefnilega verið ótrúlega fljótur að gleyma þessum atriðum, þó að manni finnist maður hafa þau alveg á hreinu.

Sæktu um!
Núna ert þú tilbúin/n til þess að sækja um drauma sumarstarfið. Því er ekkert annað í stöðunni en að leggja inn umsókn og eiga skemmtilegt og lærdómsríkt sumar.

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.