Flestir vilja fá sem mest fyrir fasteignina sína í söluferlinu – skiljanlega. Þá er gott að hafa nokkur atriði í huga sem hjálpa til við að gera eignina sölulegri fyrir komandi kaupanda. Einnig er gott að setja sig í stellingar og hugsa sem kaupandi á eigin fasteign.

Mynd: iboligen

Ókláraði hluturinn
Heima hjá flestum eru hlutir sem eru hálf- eða ókláraðir. Það á „bara“ eftir að kítta upp í nokkur göt, fela rafmagnssnúrur í loftinu eða leggja gólflista. Ef eitthvað slíkt er áberandi, þegar íbúðin er sýnd, þá fer kaupandinn ósjálfrátt að leita eftir fleiri atriðum sem er ábótavant. Eins skilar það sér að mála einn vegg/veggi ef það hefur ekki verið gert í áraraðir.

Lýsing
Þó að dagsbirtan sé fallegasta ljósið er mikilvægt er að hafa góða lýsingu og þá sér í lagi yfir myrkustu mánuðina hér á landi. Almennt séð, skiptir lýsing mestu máli í rýmum, hún skapar stemninguna hvort sem það er heima fyrir, á veitingastað eða í verslunum. Það er algengt að sjá eitt hangandi ljós í stofurými og láta þar við sitja. En möguleikarnir eru endalausir. Til dæmis má prófa sig áfram með mismunandi lömpum, því gólf-, borð- og veggljós skapa oftar en ekki fallega birtu og tengja saman ákveðin svæði á heimilinu. Loftljós má einnig hengja upp í horni, t.d. við hliðin á sófanum og láta þá hanga lengra niður en þú annars myndir gera – það gefur skemmtilega ásýnd.

Of persónulegt
Það sem gefur heimilinu persónulegan blæ eru skrautmunir, myndir og minningar. Allt er þó gott í hófi og kannski vert að fara einn hring um heimilið og skoða hlutina frá öðru sjónarhorni. Of mikið dót á hillum, gluggakistum, borðum o.s.frv. getur leitt hugann í aðra átt hjá kaupandanum. Það er ekki þar með sagt að persónuleikinn megi ekki vera til staðar, en á þessari stundu erum við með mögulegan kaupanda í huga og spurning hvar við drögum línuna. Í svefnherberginu skal vera búið um rúmið og persónulegir munir mega bíða ofan í skúffu rétt á meðan heimilið er myndað af fasteignasölunni eða á opnu húsi. Undirrituð hefur sjálf skoðað íbúð með óhreinni brók á gólfinu svo ekki sé meira sagt.
Í eldhúsum má auðveldlega pakka heimilistækjum inn í skápa á meðan íbúðin er til sýnis, og huga að dóti sem hvílir ofan á efri skápum, séu þeir til staðar, það léttir heilmikið á.

Húsgögn
Ef þú ert í söluhugleiðingum þá viltu að kaupandinn sjái fyrir sér möguleikana í rýmunum, en ekki rekast á raðir af stólum eða stórum húsgögnum sem fylla hvert herbergið á fætur öðru. Við eigum það til að troða of miklu heima fyrir og missa tilfinninguna á því að þarna þarf fólk líka að fá sitt pláss og lifa. Losaðu þig við mublur og haltu í það sem þú ert mest ánægð/ur með, hluti sem hafa jafnvel meira en eitt notagildi. Hliðarborð við sófann getur jafnvel notast sem skammel, sem dæmi. Tæmdu stofuna og raðaðu inn í hana aftur á nýjan máta með uppáhalds hlutunum þínum og húsgögnum, það kemur skemmtilega á óvart.

Ilmurinn
Það þarf varla að taka fram að gott sé að lofta aðeins út þegar halda á opið hús. Sumir hafa tekið skrefinu lengra og bakað köku til að fá sannan heimilisilm í húsið, en eins eru margir góðir híbýlisilmir komnir á markað sem þú einfaldlega spreyjar í loftið svo ekki sé minnst á ilmkerti með góðri lavander lykt. Frískleg blóm í vasa, setja svo punktinn yfir i-ið.

Þegar búið er að laga ókláruðu hlutina, bæta lýsinguna, rýma til og jafnvel mála – þá er spurning hvort þörf eða áhugi sé fyrir því yfir höfuð að selja. Því það þarf ekki alltaf að hlaupa til og kaupa nýtt. En eignin er í það minnsta tilbúin til sölu.

 

Elva Hrund Ágústsdóttir
Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.

Author: Elva Hrund Ágústsdóttir

Elva er fertug Reykjavíkurmær í húð og hár, en býr nú í Mosfellsbæ ásamt unnusta og sex strákum. Hún er menntaður innanhússráðgjafi og margmiðlunarhönnuður frá Danmörku þar sem hún bjó í góð átta ár. Elva veit fátt skemmtilegra en að drekka í sig nýjungar og hugmyndir fyrir heimilið, enda starfað sem stílisti fyrir Hús og híbýli, EPAL og danska hönnunarframleiðandann MUUTO, svo eitthvað sé nefnt.