Arna Þorsteinsdóttir framleiðslustjóri SAHARA og framakona janúarmánaðar hjá okkur hér hjá Framinn hélt áhugaverðan fyrirlestur á Framadögum um helstu atriðin sem maður þarf að hafa í huga á samfélagsmiðlum þegar kemur að atvinnuleit. Arna setti niður á blað þessi helstu atriði sem fram komu í fyrirlestrinum og vorum við svo heppnar að fá að birta þau hér fyrir neðan.

Er hægt að nýta sér samfélagsmiðla í atvinnuleit?
Augljósa svarið er já, það er hægt að nýta sér samfélagsmiðla við atvinnuleit. Spurningin er hins vegar að gera það á réttan hátt. Í dag er fólk orðið svo aðgengilegt, það er auðvelt fyrir atvinnurekendur að komast í kynni við umsækjendur án þess að þurfa að hitta viðkomandi og því skiptir sköpum hvaða skilaboðum maður er að koma með á sínum samfélagsmiðlum og hvaða samfélagsmiðlum maður er á.

Þeir sem eru farsælastir í atvinnuleit í dag eru þeir sem skilja verðmæti markaðssetningar á sjálfum sér og nýta sér þau tæki sem eru í boði til að koma sér enn frekar á framfæri, eins og á samfélagsmiðlum.

Markaðssettu sjálfa/n þig á samfélagsmiðlum
Aukning hefur orðið í netnotkun á síðustu árum og er netið sá miðill sem hefur náð hröðustu útbreiðslunni. Í dag eru samfélagsmiðlar orðið eitt mest notaða tæki til markaðssetningar í dag, en þar geta fyrirtæki nýtt sér miðla eins og t.d. Facebook og Instagram sem stökkpall til að nálgast aðra til að eiga samskipti, afla sér upplýsinga, koma skilaboðum áleiðis o.s.frv. Þá spyr maður sig hins vegar, hvaða skilaboð ert þú að koma á framfæri á þínum miðli og hvaða skilaboðum eru atvinnurekendur að leitast eftir þegar þeir skoða umsækjendur.  

Nokkrum sinnum á ári fer ég í gegnum tugi umsókna, en þegar það kemur að þessu ráðningarferli þá er ferilskráin fyrir mér það skjal sem kemur þér á “fyrsta úrtakslistann” og því betri sem hún er, því ofarlega á listann kemstu. Þegar ég er komin með þá aðila sem ég vil skoða enn betur, þá taka samfélagsmiðlar við. Helstu miðlarnir sem ég skoða viðkomandi á eru Facebook, LinkedIn og í vissum tilfellum Instagram.

Hvernig lýtur þú út á Facebook?
Facebook er mjög sniðugur vettvangur til að vera á þegar það kemur að atvinnuleit. Margir eru ekki að nota þennan miðil á þann hátt, en ef þú ert á þeim stað að þú ert að leita þér að atvinnu þá ættirðu að vera að nýta þér þann miðil. Hér ætla ég að fara yfir nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar þú skoðar hvernig þinn miðill lýtur út útávið:

Númer 1.
Forsíðumyndin tekur fyrst á móti aðilum sem er að skoða þinn miðil og þarna viltu grípa athyglina strax, á góðan hátt. Forsíðumyndirnar sem maður velur er að sjálfsögðu smekksatriði, persónulega finnst mér þær t.d. ekki þurfa að vera jafn “formlegar” og á ferilskránni eða á LinkedIn, en ég myndi samt forðast það að hafa of miklar partýmyndir. Hér mæli ég með að sýna þínar bestu hliðar og helst tengja við áhugamál, fjölskyldu, menntun eða jafnvel starf.  

Númer 2.
Skoðaðu vel hverju þú ert að deila opinberlega og hverju ekki. Á Facebook er stilling þar sem þú getur séð hvernig aðilar sem eru ekki vinir þínir sjá vegginn þinn, það er mjög góð regla að kíkja af og til og sjá hvernig aðrir sjá þig. Þarna getur þú t.d. búið til vettvang þar sem þú ert að deila opinberlega á vegginn þinn áhugaverðum greinum eða umræðuefni sem tengist þeim starfsvettvangi sem þú ert að skoða. Það sýnir atvinnurekenda sem skoðar þig á samfélagsmiðlum að þú hefur einlægan áhuga á efninu, jafnvel fyrirtækinu sjálfu.

Númer 3.
Fylltu út “intro”-ið. Fyrir aðila sem þekkir þig lítið eða jafnvel ekki neitt að þá getur gott intro fyllt hratt í eyðurnar. Þarna viltu hafa aðalatriðin um þig sem þú telur skipta máli, t.d. hvaða fyrirtæki þú starfar hjá og í hvaða stöðu, hjá hvaða fyrirtækjum þú hefur starfað hjá (en ekki 20 ár aftur í tímann), hvaðan þú kemur, hver maki þinn er og menntun. Þetta er svipuð regla og þegar maður er að kynnast einhverjum í persónu í fyrsta sinn, maður reynir alltaf að finna sameiginlegan grundvöll og spurningar eins og hvað gerirðu og hvaðan ertu eru sterkustu spurningarnar þegar fólk er að tengjast. Kannski er atvinnurekandi frá sama bæjarfélagi og þú, eða þekkir einhvern frá sama bæjarfélagi og þú ert úr – þá fer hann að tengja og jafnvel spyrjast fyrir sem þýðir að þú ert komin/n ofarlega í hugann á viðkomandi.

Það getur líka verið áhugavert að setja inn mikilvæga kunnáttu sem þú telur að muni auka áhuga atvinnurekenda, eitthvað sem lætur þig standa upp úr, t.d. Björgunarsveitarstörf, sjálfboðaliðastörf eða einhver önnur áhugaverð kunnátta.

Númer 4.
Facebook er vettvangur til þess að nýta sér tengslanet og byggja það upp. Ekki vanmeta það að hafa gott tengslanet! Facebook er kjörinn vettvangur til þess að sýna áhuga og það geturðu gert t.d. með því að fylgja fyrirtækjum sem þú hefur áhuga á og koma með viðbrögð við því sem þau eru t.d. að deila á Facebook, því trúðu mér fyrirtæki eru að setja efni frá sér til að skapa viðbrögð og eiga samtal við fylgjendur sína og því er það kjörið tækifæri til að tengjast betur fyrirtækinu og jafnvel gera þig eftirminnilegri. En passaðu að sýna einlægan áhuga, vera persónuleg/ur og ekki vera of “uppáþrengjandi”, þú vilt skapa góða upplifun af þér.

Notaðu LinkedIn!
Samfélagsmiðillinn LinkedIn er mjög góður miðill til að vera á hvort sem þú ert í atvinnuleit eða ekki. Hlutverk LinkedIn er að skrá sína ferilskrá og reynslu úr atvinnulífinu á þinni persónulegu síðu sem þú getur þá deilt með þínu tengslaneti og öðrum notendum. Margir atvinnurekendur skoða þína síðu á LinkedIn til að sjá betur hvað þú hefur upp á að bjóða og getur þá vel uppsettur prófíll skipt sköpum.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar kemur að LinkedIn prófílnum þínum:

Númer 1.
Forsíðumyndin. Mér finnst að forsíðumyndin hjá LinkedIn þurfa að vera faglegri en þú kemst upp með að hafa t.d. Á Facebook. Hér ætti jafnvel að vera sama myndin og þú ert með á ferilskránni svo atvinnurekandi tengi strax með sjónrænum hætti við ferilskrána þína sem hann hefur farið yfir nú þegar.

Númer 2.
Fullkláraður prófíll. Uppfærðu aðganginn þinn reglulega hvort sem það sé nýtt starf, staða, verkefni eða reynsla. Síðan þín á að vera lifandi og full af skemmtilegum fróðleik tengdu atvinnulífinu. Þó að þú sért í sama starfinu í fimm ár þýðir það ekki að síðan þín þurfi að vera eins allan þann tíma. Hvort sem það sé vinnufögnuður eða að halda fyrirlestur deildu því þarna inn.

Númer 3.
Stattu upp úr! LinkedIn síðan þín er vettvangur til að kafa dýpra en í ferilskránni þinni. Passaðu að nýjustu og mikilvægustu kunnáttur þínar standi upp úr og séu grípandi fyrir aðila sem skoðar þína síðu. Seldu styrkleika þína og vertu persónuleg/ur. Einnig þarftu að gæta þín að nota rétt leitarorð t.d. í samantektinni og í listanum yfir kunnáttur til að auðvelda atvinnurekendum að finna þig þegar þeir leita eftir rétta starfskraftinum.

Númer 4.
Vertu tengd/ur! LinkedIn er ekki vettvangur til að vera feimin/n á. Fylgdu þeim fyrirtækjum sem þú hefur áhuga á og jafnvel starfsfólki, kynntu þér málið! Og ekki vera feimin/n við að “vingast” á LinkedIn, þarna eru allir af sömu ástæðu og það er að skapa tengslanet. Með vinabeiðni ertu í raun og veru ekki að segja “ég vil vera vinur þinn” heldur ertu að segja “mér finnst þú vera að gera rosalega flotta hluti tengdu starfinu þínu og vil fylgja þér”.

Grein eftir Örnu Þorsteinsdóttur. 
Instagram/arnathorsteins
LinkedIn/arnathorsteins

 

Díana Bergsdóttir
Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.

Author: Díana Bergsdóttir

Díana Bergsdóttir er 27 ára og búsett á Akranesi með kærasta sínum og dóttur. Hún lærði Branding and marketing management í VIA University College í Danmörku með áherslu á tisku og hönnun. Ásamt því að skrifa inná framinn.is vinnur hún á Markaðsdeild Bestseller á Íslandi.