Að skella sér á gott og fræðandi námskeið hefur sjaldan verið auðveldara. Það er svo ótrúleg fjölbreytni af námskeiðum í boði hjá hinum ýmsu menntastofnunum og- eða fyrirtækjum sem sérhæfa sig í einhverju ákveðnu fagi. Að fara á námskeið í því sem tengist þínu áhugasviði eða vinnu er sjaldan, eða aldrei léleg hugmynd. Það er alltaf gott að auka við sína sérþekkingu, verða verðmætari starfsmaður, lengja aðeins ferilskrána eða einfaldlega gera eitthvað skemmtilegt. Við tókum saman nokkur námskeið sem okkur finnst virkilega spennandi.

Máttur kvenna – Háskólinn á Bifröst
Námskeiðið máttur kvenna hefur verið vinsælt nám fyrir konur sem vilja auka við færni sína og þekkingu í rekstri fyrirtækja. Kennslan fer fram í fjarnámi, enda Háskólinn á Bifröst með þeim fremstu á sviði fjarnáms. Þetta námskeið hentar konum sem eru í fullu starfi, þar sem hægt er að vinna verkefnin hvenær sem hentar og allir fyrirlestrar eru teknir upp. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

Samfélagsmiðlun sem virkar – Hugsmiðjan
Að þekkja inn á samfélagsmiðla hefur sjaldan verið mikilvægara en í dag. Markaðssetning fer að mestu leyti í gegnum þá miðla í dag og maður er fljótur að missa af lestinni ef maður heldur sér ekki á tánum í þeim efnum, þá erum við ekki bara að tala um markaðssnillinga. Þetta námskeið finnst okkur afar spennandi. Námskeiðið tekur aðeins tvo daga og er þrjár klukkustundir í senn. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

Námskeið í stjórnun markaðsstarfs – Upplifun.is
Stjórnun markaðsstarfs er námskeið sem er í grunninn ætlað fyrir markaðsstjóra og aðra sem koma að markaðsmálum, með áherslu á netið. Kennari námskeiðsins er með mikla reynslu af markaðsstörfum og þykir okkur þetta námskeið virkilega áhugavert. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

WordPress fyrir frumkvöðla – WP skólinn
Á þessu námskeiði læra nemendur að setja upp sinn eigin vef frá grunni í WordPress. Námskeiðið er ætlað einstaklingum og frumkvöðlum og er stutt og hnitmiðað. Virkilega spennandi þar sem það hefur aldrei verið jafn einfalt að opna sína eigin vefsíðu. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

Jákvæð Sálfræði og styrkleikaþjálfun – Endurmenntun Háskóla Íslands
Spennandi og gott námskeið fyrir alla. Námskeiðið hefur það markmið að kenna þér að nýta þína styrkleika á nýjan hátt. Farið verður meðal annars í það hvernig hægt er að nýta sér verkfæri styrkleikaþjálfunar í daglegu lífi. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

Skemmtileg skrif, námskeið fyrir ungt fólk – Endurmenntun Háskóla Íslands
Hefur þig alltaf langað til þess að skrifa? Ritgerð, ljóð eða smásögu? Á þessu námskeiði er farið í það með einföldum hætti hvernig þú átt að byggja upp ritgerð eða annað ritverk. Þér er kennt að stýra hugmyndum þínum í réttan farveg og koma þeim í réttan farveg. Tilvalið námskeið fyrir þá sem vilja virkja sköpunargleðina og öðlast færni í skriftum. Þið finnið meira um námskeiðið hér.

Hér eru aðeins talin upp örfá námskeið af þeim fjölda sem er í boði. Við hvetjum ykkur til þess að kynna ykkur málið og leita eftir þeim námskeiðum sem hugurinn leitar í. Það er svo ótrúlega skemmtilegt að læra eitthvað nýtt. Undirritaðri langar að minnsta kosti að sækja öll ofantalin námskeið. Mundu svo að athuga hvort að stéttarfélagið þitt eða atvinnuveitandi bjóði upp á námskeiðsstyrki.

 

 

 

 

Kristjana Sunna
Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.

Author: Kristjana Sunna

Kristjana Sunna er 31 árs og er búsett í Garðabæ. Kristjana hefur síðastliðin ár starfað í fjarskipta- og fjármála geiranum, meðal annars sem stjórnandi og sérfræðingur. Ásamt því að skrifa fyrir Framann er Kristjana að ljúka námi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Samhliða náminu sinnir hún sölu og markaðsmálum fyrir Swiss Color Iceland.