Tækifæri eða togstreita?

Senn líður að fyrstu fermingum þessa árs en þetta tímabil getur verið ansi fyrirferðamikið hjá fermingarbörnum og fjölskyldum þeirra. Hver og einn gerir þetta auðvitað eftir sínu höfði og hentisemi og er þetta kjörið tækifæri til að eyða tíma með fermingarbarninu og njóta samverunnar við undirbúninginn.

Þetta árið er undirrituð einmitt að ferma elsta drenginn á heimilinu og þar af leiðandi á fullu að undirbúa, gera og græja og hef svo sannarlega gaman af! Hér eru dæmi um nokkur atriði þar sem leynast kjörin tækifæri til þess að eiga gæðastund með fermingarbarninu og fjölskyldunni allri.

Messurnar
Í fermingarundirbúningi nú til dags eiga foreldrar eða forráðamenn að fylgja fermingarbarninu í ákveðið margar guðþjónustur fyrir sjálfan fermingardaginn. Maður getur verið fljótur að gleyma hvað það er ótrúlega gott að fara í messu. Kyrrðin sem umlykur mann í þessa klukkustund eða svo er svo endurnærandi og maður fer ósjálfrátt að skoða gildin sín. Svo fer maður einhvern veginn núllstilltur aftur út í erilinn, fær í flestan sjó.

Lærið eitthvað nýtt
Salt eldhús býður upp á alls konar námskeið og er tilvalið að skella sér til dæmis á námskeiðið Franskar Makrónur og baka slíkar sjálfur fyrir fermingarveisluna. Svo eru margir grunnskólar farnir að bjóða foreldrum og fermingarbörnum upp á námskeið í kransakökugerð þar sem þið bakið ykkar eigin kransaköku. Yndisleg samverustund með fermingarbarninu.

Skreytingarnar
Það er svo sannarlega misjafnt hversu mikinn áhuga fermingarbörnin hafa á veislunni sinni. Ef þitt fermingarbarn sýnir þessu áhuga skaltu nýta það og njóta þess. Skipuleggið tíma þar sem þið spáið í þessa hluti og jafnvel föndrið skreytingar með vinum og ættingjum, jafnvel með veitingum að skapi fermingarbarnsins. Að hanna og búa til boðskort, kerti, servíettur eða gestabók út frá hugmyndum fermingarbarnsins getur verið stórskemmtilegt og hver veit nema þið kynnist nýrri hlið á unglingnum ykkar.

Myndasýning í veisluna
Eitt af því sem margir eru farnir að gera er að sýna myndir af fermingarbarninu og fjölskyldu þess í veislunni. Það er æðislega gaman að undirbúa svona myndasýningu með allri fjölskyldunni og gefa sér tíma til að rifja upp æsku fermingarbarnsins, segja sögur og hlæja eða jafnvel gráta. Leyfið fermingarbarninu að eiga þátt í að velja hvaða myndir eru sýndar svo það séu ekki myndi sem koma því í opna skjöldu í veislunni sjálfri.

Fermingarfötin
Þetta getur auðveldlega orðið leiðindaleiðangur. Mundu bara að þú ert ekki að fermast og þó þú viljir að fermingarbarnið sé snyrtilega til fara þá viltu umfram allt að það sé ánægt. Það er ágætt að vera búinn að undirbúa leiðangurinn, skoða hvert er best að fara og nýta starfsfólkið í verslununum. Starfsfólkið veit hverjir tískustraumarnir eru fyrir þá sem hafa áhuga á þeim og það getur verið gott og jafnvel nauðsynlegt fyrir geðheilsu foreldranna að fá aðstoð… sérstaklega fyrir þau fermingarbörn sem hafa enga skoðun á því hverju þau ætla að klæðast. Gerið eitthvað skemmtilegt úr þessum degi í leiðinni, setjist á kaffihús eða skellið ykkur í bíó, hvað sem er sem gerir þetta að gæðastund með fermingarbarninu ykkar.

Umfram allt annað þá vonum við að þið njótið undirbúningsins og að hann verði til þess að þið eigið áhyggju- og stresslausan fermingardag með barninu ykkar.

 

Hafdís Bergsdóttir
Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.

Author: Hafdís Bergsdóttir

Hafdís er búsett á Akranesi ásamt eiginmanni og þremur sonum. Hún er með B.ed. próf í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands og sveinspróf í kjólaklæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að skrifa fyrir Framann starfar hún sem umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla.