Það var vel viðeigandi að setjast niður með Emblu Heiðmars á kaffihúsinu í Perlunni, þar sem við fengum að kynnast henni betur umkringdar plöntum af öllum stærðum og gerðum. Embla starfar sem ráðgjafi í fjölærum gróðurbeðum en hún gaf okkur innsýn í sín störf og námið sem hún stundaði.

ALLTAF ÞURFT AÐ FINNA FYRIR TENGINGU VIÐ NÁTTÚRUNA
Sigríður Embla Heiðmarsdóttir er fædd og uppalin á Selfossi en þegar hún var yngri eyddi hún miklum tíma í bústaðnum með fjölskyldunni þar sem þau ræktuðu upp skógsvæðið sitt. Flest sumur æskuáranna var varið á sveitabæ og æskuheimili föður hennar fyrir norðan þar sem alltaf var nóg af fólki og nóg af verkefnum.  „Það var svo frískandi að komast úr bæjarlífinu yfir sumartímann enda mjög mikilvægt fyrir mig að finna fyrir tengingu við náttúruna.“ Eftir að hafa lokið námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands lá leiðin í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem Embla hóf BS-nám í Umhverfisskipulagi. „Ég var ekki viss um hvað ég vildi gera eftir stúdentspróf, ég vissi þó að ég vildi eitthvað tengt náttúrunni, kannski búfræði því ég hafði verið í sveit en ég hef líka rosalega gaman af því að teikna og hanna svæði og með því að tengja þetta tvennt saman varð Umhverfisskipulag fyrir valinu.“  Embla fann sig í náminu og ekki síst sökum þess hversu góður kjarni bekkurinn hennar reyndist. „Þetta voru þrjú frábær ár þar sem ég fékk tækifæri til þess að kynnast öllu þessu fólki og sérstaklega mínum bekk sem var mjög náinn. Við höfðum öll mjög ólíkar áherslur og lærðum því mikið af samstarfinu, ég var til dæmis sú eina sem lagði svona mikla áherslu á plönturnar í hönnun.“  Embla fann síðan leið til þess að tengja sinn áhuga á plöntum enn frekar við námið með því að hefja störf samhliða náminu í gróðrastöð. „Það var strax á fyrstu önninni sem mér fór að finnast ég ekki læra nógu mikið um plöntur en námið snýst um hönnun og skipulag umhverfis þá oft á tíðum mun listrænna en ég hafði búist við í fyrstu. Það varð til þess að ég fór að vinna í gróðrastöð strax næsta sumar.“ Embla byrjaði fyrst í gróðrastöð nálægt sínum heimaslóðum á Selfossi en færði sig til Reykjavíkur þar sem hún býr með kærastanum sínum í dag.

FJÖLÆRINGAR Í SÉRSTÖKU UPPÁHALDI.
Embla skrifaði BS-ritgerðina sína um fjölæringa en sú ritgerð ber titilinn: ‘Skrautgróður til ánægju og augnayndis – Notkun fjölæringa á opinberum svæðum – áskoranir og möguleikar. Þar fór hún út í þá staðreynd að þéttbýli eru sífellt að aukast um allan heim og þessi öra þéttbýlismyndun gefur oft lítið pláss fyrir gróðursvæði. Í rannsóknarvinnu fyrir ritgerðina kannaði Embla gróðurnotkun innan bæjarfélaga og þær stefnur sem hægt væri að taka upp hérlendis sem þróast hafa í Norður-Evrópu. Einnig fór hún yfir sögu fjölæringaræktunar á íslenskri grundu og helstu almenningsgarða sem rækta skrúðplöntur. „Eftir að hafa unnið í gróðrastöð fannst mér liggja beinast við að tengja ritgerðina við sumarstarfið mitt.  Mér fannst áberandi meiri sala á sumarblómum frekar en fjölærum blómum og vildi sjá það breytast.“ Embla útskýrir fyrir okkur að fjölæringar séu í stuttu máli öll blóm sem lifa lengur en í þrjú ár. Til að sjá hvort áhuginn væri til staðar á Íslandi stofnaði Embla hóp á facebook fyrir áhugafólk um fjölæringa. Hópurinn náði strax ágætum vinsældum en þar miðla um 1500 manns reynslu sinni og hugmyndum um fjölæringa. „Ég var orðin sátt að byrja minn fyrsta vetur í Mörkinni þar sem ég fékk stöðugt kennslu um garðrækt og plöntur, þá kom Samson Harðarson leiðbeinandinn minn í BS-ritgerðinni sem var allur uppnuminn eftir heimsókn sína til Englands um sumarið. Hann hvatti mig eindregið til að fara og kynnast einstakri garðmenningu.“

ÞRÍR MÁNUÐIR Á SLÓÐUM JANE AUSTIN
Það varð úr að Embla sló til og eyddi þremur mánuðum í Somerset, sem er sýsla í Suðvestur Englandi þar sem hún bjó og vann á tveimur mismunandi heimilum. „Ég fékk að upplifa þetta hefðbundna heimilislíf en dagarnir voru mjög ólíkir eftir því á hvaða heimili ég var að vinna.“ Dagurinn hófst alltaf eins og beint úr enskri sögu á tebolla. „Mér leið eins og ég væri stödd í Jane Austin bíómynd enda var ég örstutt frá Bath og þessu magnaða landslagi þar sem sögurnar hennar gerast. Þetta var hörkupúl en ég fékk að vinna með sérfæðingum á mínu áhugasviði svo þetta var mjög mikilvæg reynsla.“  Embla fékk að kynnast hinum ýmsu hliðum Englands, allt frá því að fóðra hænur og út í það að keyra með fullan bíl af plöntum þvers og kruss um landið að kynna þær á sýningum eða ‘Garden Festivals‘ líkt og Englendingarnir kölluðu þær. „Á öðru heimilinu voru íbúarnir útivinnandi og þar hafði ég það hlutverk að sinna garðinum þeirra. Í því fólst til dæmis að halda arfanum niðri, vökva og sinna plöntunum ásamt því að viðhalda matjurtagarðinum og meira að segja að fóðra hænurnar. Á hinu heimilinu Alison Jenkins sem er landslagsarkitekt og ég skiptist á að vinna í hennar garði eða fara í hönnunarverkefni með henni. Þá plöntuðum við eftir teikningunum hennar sem var bein tenging við námið á Hvanneyri.“ Á milli þessara heimila var hennar þriðja verkefni í Somerset að vinna á gróðrastöð Derry Watkins sem sérhæfir sig í fjölæringum. Ein söluleiðin þeirra var að stafla söluvænlegustu plöntunum í flutningabíl og keyra um landið og kynna þær fyrir áhugafólki á garðsýningum. „Þetta fannst mér mjög spennandi, í fyrsta lagi hafði ég aldrei séð þetta snið í plöntusölu, þar sem þú fékkst færi á ferðast, sjá nýja staði og kynnast áhugaverðu fólki. Svo í þokkabót þurfti maður að halda söluræður fyrir breskt fólk um plöntur sem þú varst nýbúin að kynnast. Þetta myndi ég svo sannarlega gera aftur. Rúsínan í pylsuendanum var vikutúrinn minn við landamæri Whales. Þar sem ég fékk að kynnast Noel Kingsbury og garðinum hans, ég skrifaði heilmikið um hann í ritgerðinni minni og var hæstánægð að fá tækifæri til  að hitta manninn sem ég leit svona mikið upp til.“
Embla sá ýmsa fallega garða en þeir sem hún vann mest í áttu það sameiginlegt að vera hannaðir til að endast langt fram á haust, þ.e. að vera í fullum blóma á þeim tíma. „Ég var úti um vor svo ég náði ekki að sjá garðana í fullum skrúða. Ég hef haldið sambandi við fólkið sem ég bjó hjá síðan ég kom heim og ætla mér að heimsækja þau aftur næsta haust.“

FJÖLBREYTT STÖRF Á GRÓÐRASTÖÐ
Embla segir starf sitt á Gróðrastöðinni Mörk fjölbreytt eftir árstíðum. „Á sumrin erum við á fullu að selja plönturnar okkar en við höfum þá verið að rækta upp sumarblómin frá því í febrúar. Það er gífurlegur lærdómur bak við það að rækta og kynnast þessum fjölda plantna og miðla síðan þessum upplýsingum til allra kaupendanna. Við erum færri sem vinnum yfir veturinn sem fer aðallega í undirbúning fyrir næstu verktíð. Við undirbúum gróðurhúsin fyrir tré og runna og fjölgum eða pöntum það sem vantar til að fylla lagerinn fyrir næsta sumar. Hver og ein planta fær einhverja athygli frá okkur yfir veturinn og við þurfum heilmikið pláss til að fylgjast með svona mörgum eintökum plantna en margar þeirra eru hjá okkur yfir nokkur ár.“ Embla fékk tækifæri til að starfa á sínu áhugasviði og sjá um fjölæringana hjá Mörk. „Sigþóra Oddsdóttir, sem var yfir fjölæringasvæðinu á undan mér sá greinilega áhuga hjá mér og ýtti undir að ég tæki við hennar stöðu. Ég eyddi sumrinu í að elta hana þar sem hún kenndi mér eins og hún gat um starfið sitt, svo kom að því að ég flaug úr hreiðrinu og tók við svæðinu. Í því starfi felst meðal annars að velja hvaða plöntur eða fræ við pöntum til landsins og áætla hvaða plöntur séu líklegar til vinsælda. Ég fæ frábært tækifæri á að kynnast hundruðum tegunda fjölæringa og rata þónokkrar með mér í garðinn á Selfossi þar sem ég get lært enn betur á þær.“

MARGT SKEMMTILEGT FRAMUNDAN?
Það er margt spennandi á döfinni hjá Emblu en í vetur hefur hún byrjað að kynna sér ráðgjafahlutverkið og er farin að hanna fjölæringabeð fyrir Seltjarnarnesbæ næsta sumar. Hún stefnir á að læra meira um reynslu á fjölæringum hér á landi en vill einnig kynnast betur erlendri garðmenningu líkt og hún gerði í Englandi. Í náminu þjálfaðist hún í verkefnakynningu  sem hefur heldur betur nýst henni við að miðla sinni þekkingu í kynningarformi fyrir hópa. Þar hefur hún fengið jákvæðar viðtökur og sér að áhuginn á fjölæringum er víðar en fyrst var við búist. „Það heillar að fara fljótlega aftur út en tækifærin á Íslandi eru einnig fjölmörg. Það er að hlýna hér á landi og nú er hægt að rækta ýmislegt sem ekki var í boði áður, auk þess er gríðarleg reynsla í ræktun sem gott væri að næla sér í.“  Hún vonast til að geta smitað þessum áhuga sínum út og er nú þegar byrjuð að halda fyrirlestra ásamt því að halda úti bloggsíðu um Englandsferðina og fjölæringana fjölmörgu. Aðspurð að góðum ráðum fyrir aðra sem standa frammi fyrir vali á námi eða framtíðarstarfi segir hún mikilvægt að snúa ekki baki við tækifærunum. „Tilhugsunin við að fara ein til Englands var langt út fyrir minn þægindaramma, en þegar tækifærið bauðst mér ákvað ég að taka því fagnandi. Það var þá að ég ákvað að taka alla ferðina með ‘Yes man‘ töktunum og fékk því mun fleiri tækifæri uppí hendurnar en ég bjóst við. Mikilvægast er að hafa trú á sjálfri sér því  ótrúlegust hlutir geta ræst með jákvæðu hugafari. Hér á landi hafa fjölæringar ekki verið áberandi í mörg ár og því hafði ég ekki mikla trú að það myndu leynast jafn mörg tækifæri á þessu sviði. Það þarf ekkert annað en brennandi áhuga, trú og eldmóð.“

Það verður án efa spennandi að fylgjast með Emblu í framtíðinni og fyrir þá sem vilja kynna sér hennar málefni betur þá kynnum við hér að neðan slóðir á hennar efni.

Hér má skoða ritgerð hennar og hér má skoða heimasíðu hennar.
Instagram/emblaheid

Líf Lárusdóttir
Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Author: Líf Lárusdóttir

Líf Lárusdóttir er 27 ára búsett með unnusta sínum og dóttur þeirra á Akranesi. Líf er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í markaðsfræði og diplóma í viðburðarskipulagningu. Ásamt því að skrifa fyrir Framann starfar Líf sem markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.